Vísindamenn og doktorsnemar HÍ fá yfir 40 Rannísstyrki
Vísindamenn og doktorsnemar við Háskóla Íslands fá úthlutað samtals 44 styrkjum úr Rannsóknasjóði Íslands styrkárið 2020, en tilkynnt var um úthlutunina í gær. Vísindamenn Háskólans koma enn fremur að báðum rannsóknarverkefnunum sem fengu hæstu styrkina, svokallaða öndvegisstyrki.
Rannsóknasjóði Íslands, sem hýstur er hjá Rannís, bárust alls 382 umsóknir um styrki að þessu sinni og hlutu 55 þeirra styrki, eða 14% umsókna. Til samanburðar voru umsóknirnar 359 í fyrra og hlutu 17% þeirra styrk.
Hæstu styrkirnir sem Rannsóknasjóðurinn veitir eru svokallaðir öndvegisstyrkir en þeir renna til stórra verkefna sem þykja skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu. Tveimur slíkum styrkjum var úthlutað nú og tengjast báðir Háskóla Íslands. Annan þeirra hlaut Hannes Jónsson, prófessor við Raunvísindadeild, til verkefnisins „Kerfisbundin hönnun á rafefnahvötum fyrir sértæka afoxun CO2 í vistvænt eldsneyti“ og hinn þau Erla Sturludóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, til verkefnisins „Fiskveiðar til framtíðar“.
Þrjátíu verkefnisstyrkir voru veittir að þessu sinni en alls voru umsóknir um slíka styrki 211. Af veittum styrkjum koma 23 í hlut starfsmanna Háskóla Íslands og tengdra stofnana. Styrktar rannsóknir eru m.a. á sviði lífvísinda, sálfræði, uppeldis- og menntunarfræði, blaða- og fréttamennsku, sagnfræði, mannfræði, hagfræði, lýðheilsu, sníkjudýrafræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði.
Rannsóknasjóði bárust enn fremur 58 umsóknir um nýdoktorastyrki og hlutu níu vísindamenn styrki. Sjö styrktra verkefna eru innan Háskóla Íslands og snerta þau fjölbreytt svið verkfræði, náttúruvísinda, hugvísinda, félagsvísinda og heilbrigðisvísinda.
Þá hlutu 14 doktorsnemar af 91 umsækjanda styrk úr Rannsóknasjóði Íslands og tengjast 12 verkefnanna Háskóla Íslands og samstarfsstofnunum. Doktorsverkefni styrkþega hverfast m.a. um neðanjarðarlífríki Surtseyjar, þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi í hestum, mannauð, tæknibreytingar, félagslegt skipulag og framleiðni í íslenskum sjávarútvegi, uppreisnargjarnar og ógnvænlegar konur í íslenskum sögnum, gæði kennslu í stærðfræði á Íslandi og á Norðurlöndum, viðbrögð jarðvegsferla við beitarfriðun á norðlægum slóðum og aukið þol kísilþörungs gagnvart háu CO2 og öðrum streituáhrifum.
Yfirlit yfir styrkt verkefni úr Rannsóknasjóði Íslands má nálgast á vef Rannís.