Skip to main content
29. september 2020

Vinna saman að nýjum lausnum á geymslu raforku

bílar í umferð

Háskóli Íslands og fyrirtækið Alor ehf. hyggjast stuðla að hraðari orkuskiptum á landi og í haftengdri starfsemi á Íslandi með því að vinna saman að því að þróa nýjar lausnir í geymslu á raforku. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Ísands, Valgeir Þorvaldsson, stjórnarformaður Alor ehf., og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, undirrituðu viljayfirlýsingu þessa efnis á dögunum.

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til næsta áratugar, sem miða að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, er kveðið á um orkuskipti en í þeim felst að nýta innlenda og endurnýjanlega orkugjafa í auknum mæli í samgöngum og atvinnulífi í stað innfluttra orkugjafa sem menga. 

Með samstarfi sínu vilja Háskóli Íslands og Alor leggja sitt af mörkum til að hraða orkuskiptum en Alor er ungt íslenskt fyrirtæki sem stofnað var með aðild spænskra og kanadískra vísindamanna. Fyrirtækið vinnur að því þróa og framleiða áljónarafhlöður (e. Aluminum-ion) með tækni sem fyrirtækið býr nú þegar yfir í gegnum samstarf sitt við Albufera Energy Storage (AES) og mun tæknin verða þróuð áfram í samstarfi við Alor og HÍ. Áljónarafhlöður hafa sambærilega orkunýtingu og liþíumjónarafhlöður og eru því mikilvægur þáttur í átt að sjálfbærara samfélagi. Kostir áls umfram liþíum eru m.a. að það er til í nægu magni enda þriðja algengasta frumefni í jarðskorpunni. Verð áls er lægra, af því stafar engin sprengihætta og það er enn fremur ekki eldfimt. Það er því auðvelt í flutningi og endurvinnsluaðferðir eru þekktar.

Tækniþekking og framleiðsla á nýrri kynslóð rafhlaðna mun skipa Íslandi í fremstu röð þjóða í baráttunni við loftlagsvána og styrkja græna ímynd þess. Verkefnið mun einnig skapa fjölda nýrra starfa, byggja upp þekkingu á Íslandi sem ekki er til staðar í dag og skapa gjaldeyri. Gert er ráð fyrir að meginhluti framleiðslunnar verði fluttur út til Evrópu og N-Ameríku.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni hyggjast Háskólinn og Alor byggja upp þekkingu og stuðla að nýsköpun og framþróun á sviði hönnunar og framleiðslu áljónarafhlaðna. Í því felst að skólinn mun í samstarfi við Alor koma upp aðstöðu og innviðum fyrir rannsóknir á hönnun, prófunum og nýtingu rafhlaðnanna en unnið er að fjármögnun aðstöðunnar í samstarfi Háskólans og Alor. Viljayfirlýsingin gerir einnig ráð fyrir að Alor styðji árlega 1-2 framhaldsnema til rannsókna á umræddu sviði.

Auk þeirra Jóns Atla Benediktssonar, Valgeirs Þorvaldssonar og Sigurðar Magnúsar Garðarssonar var Rúnar Unnþórsson, prófessor og forseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar, viðstaddur undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar. Rúnar verður tengiliður Háskóla Íslands vegna samstarfsins en hann situr ásamt Gylfa Magnússyni, prófessor við Viðskiptafræðideild, og Guðrúnu Pétursdóttur, dósent og forstöðumanni Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, í ráðgjafaráði stjórnar Alor.
 

Fulltrúar Háskóla Íslands og Alor eftir undirritun samningsins. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Sigurður Magnús Garðarsson, Valgeir Þorvaldsson og Rúnar Unnþórsson.