Vill bæta skipulag sjálfbærrar landbúnaðarframleiðslu
„Sýn og markmið hafa verið sett um sjálfbæra þróun við landnotkun og matvælaframleiðslu hér á landi, en ekki er ljóst hvaða leið er greiðust að þeim markmiðum. Í rannsókninni sem ég vinn nú að greini ég hvaða leiðir hafa reynst árangursríkastar víða um lönd og setur fram tillögur um hvernig aðlaga megi þær að íslenskum aðstæðum.“
Þetta segir Salvör Jónsdóttir um doktorsrannsókn sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Í rannsókninni er fengist við þætti í náttúru- og félagsvísindum með það markmiði að bæta framleiðslukerfi í landbúnaði. Í rannsókninni er hugað sérstaklega að fæðuöryggi hérlendis, m.a. í ljósi þess heimsfaraldurs sem nú geisar.
Betri samþætting landnotkunar og framleiðslu
Salvör hefur unnið við skipulagsmál í áratugi en fyrir fáeinum árum hóf hún að starfa við skipulag matvælakerfis í Bandaríkjunum. Þar heillaðist hún algerlega af málaflokknum og fékk sterka löngun til að sökkva sér dýpra í hann. Doktorsverkefnið er afrakstur þess áhuga.
„Í rannsókninni er ég að kanna hvort og hvernig megi samþætta aðferðir í skipulagi matvælakerfisins annars vegar og aðferðir í skipulagi landnotkunar hins vegar til að stuðla að sjálfbærri landbúnaðarframleiðslu á Íslandi,“ segir Salvör.
„Ég rýni fræðigreinar og rit um matvælakerfi og skipulag þess lands sem ætlað er til landbúnaðar með tilliti til sjálfbærrar þróunar. Þá rýni ég einnig stefnuskjöl hagaðila um landbúnaðarmál. Að auki tek ég viðtöl við lykilhaghafa í þessum málaflokki og greini þau.“
Salvör segir að viðhorf, hefð og pólitískar ákvarðanir ráði landnotkun hér eins og víðast hvar. „Í doktorsritgerðinni verða ályktanir um hvort og hvernig samþætta megi skipulag landnotkunar og matvælakerfis á Íslandi grundvallaðar á greiningu á íslenskum aðstæðum og reynslu annarra þjóða.“
Landbúnaður í sátt við umhverfi og samfélag
Salvör segir að með verkefninu vilji hún styrkja matvælaframleiðslu byggða á landbúnaði þannig að hún geti gengið í sátt við umhverfi og samfélag.
„Þau verkfæri sem ég kann best á tilheyra hefðbundinni skipulagsfræði en matvælakerfið og aðferðir sem notaðar eru við greiningu og skipulag þess veita mér sjónarhorn á viðfangsefnið sem spyrja krefjandi spurninga sem ég vil finna svör við.“
Salvör segir að án rannsókna verði engar framfarir en áhugi hennar hefur einkum beinst að hagnýtum rannsóknum. „Þær eru sérstaklega mikilvægar núna þegar við neyðumst til að endurhugsa hvernig við nýtum umhverfið.“
Salvör segir að niðurstöður rannsóknarinnar séu enn óbirtar en vísbendingar séu um að hlutur landnotkunar sé vanræktur þegar matvælaframleiðsla er skipulögð. „Viðtölin sem ég hef tekið við haghafa benda til þess að áhugi sé á að bæta núverandi kerfi hvað þetta varðar.“
Aðalleiðbeinandi Salvarar í doktorsverkefninu er Guðrún Gísladóttir, prófessor, við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Aðrir leiðbeinendur eru Bryndís Marteinsdóttir, verkefnastjóri hjá Landgræðslunni, Alfonso Morales prófessor og Lindsey Day-Farnsworth verkefnastjóri, bæði við Háskólann í Wisconsin-Madison.