Skip to main content
14. júní 2024

Verk um gildi tómstunda fyrir einstaklinga sem greinast með krabbamein og fígúruhekl verðlaunuð

Verk um gildi tómstunda fyrir einstaklinga sem greinast með krabbamein og fígúruhekl verðlaunuð - á vefsíðu Háskóla Íslands

Veittar voru tvennar viðurkenningar fyrir framúrskarandi lokaverkefni á Menntavísindasviði við hátíðlega athöfn þann 13. júní í Stakkahlíð, húsi Menntavísinda Háskóla Íslands. Veitt voru verðlaun úr tveimur sjóðum, annars vegar úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir framúrskarandi bakkalárverkefni á Menntavísindasviði og hins vegar úr Minningarsjóði Guðbjarts Hannessonar fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tómstunda- og félagsmálafræði á bakkalárstigi.

Anna Dís Árnasdóttir, hlaut að þessu sinni viðurkenningu úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir framúrskarandi lokaverkefni á bakkalárstigi. Lokaverkefnið er til B.Ed.-prófs, Skapandi fígúruhekl: Kennsluverkefni í formi vefsíðu fyrir nemendur á mið- og unglingastigi í grunnskóla. Leiðbeinandi var Ásdís Jóelsdóttir, lektor í textíl og hönnun við Menntavísindasvið.

Í umsögn dómnefndar segir:

„Þetta er mjög metnaðarfullt verkefni og vandaður vefur sem fylgir greinargerðinni. Mjög frumlegt viðfangsefni og gagnlegt. Bygging ritgerðarinnar er skýr, góð grein er gerð fyrir henni og rannsóknarspurning er vel afmörkuð. Kennsluefnið virðist vera vel hugsað og vel unnið, myndir skýrar og stuðningsefni eins og sjálfsmat og vinnuskýrslur góðar. Frábært að tengja við grunnþætti í aðalnámskrá — það smellpassar þar inn.“

Í greinargerð leiðbeinandans segir:

„Verkefnahugmyndin kviknaði við reynslu höfundar af verkefnavinnu í fígúruhekli í textílkennaranámi hans. Höfundur hafði einnig, í æfingakennslu á vettvangi í nokkrum skólum, kynnst kennslu í hekli. Í ljós koma að lítið er til af kennsluefni og námsbókum um aðferðina á íslensku og að lítið hefur verið skrifað um sögu heklsins á Íslandi. Höfundur taldi að mikil þörf væri á kennsluefni í fígúruhekli sem ætlað væri grunnskólanemendum og eftirfarandi rannsóknarspurningu var varpað fram: Hvernig er hægt að kenna skapandi fígúruhekl í grunnskólum og tengja það við hæfniviðmiðin í Aðalnámskrá grunnskóla? Í rannsókninni er borið saman hvernig fígúruhekl tengist hæfniviðmiðum í núgildandi Aðalnámskrá grunnskóla og þrepamarkmiðum í Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 1999, en þar kemur betur fram hvernig kennslu í hekli er háttað á hinum mismunandi aldursstigum.“

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs hélt ávarp í upphafi og las upp umsögn fyrir hönd dómnefndar. Jón Atli Benediktsson ávarpaði einnig samkomuna og afhenti verðlaunin.

--

Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir og Harpa Karen Antonsdóttir hlutu viðurkenningu úr Minningarsjóði Guðbjarts Hannessonar fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tómstunda- og félagsmálafræði á bakkalárstigi. Ritgerð Hallgerðar og Hörpu Karenar ber heitið Stundirnar í tóminu – Gildi tómstunda fyrir einstaklinga sem greinast með krabbamein. Leiðbeinandi var Steingerður Kristjánsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið.

Í umsögn dómnefndar segir:

„Ritgerðin byggir á fjölbreyttum og vönduðum heimildum sem varpa ljósi á og styðja við umfjöllunarefni þeirra sem er mikilvægi tómstunda og félagslegs stuðnings fyrir fólk í krabbameinsmeðferð. Rannsóknarspurningar eru vel ígrundaðar, settar fram af innsæi en þær voru: ,,Hvert er gildi skipulags tómstundastarfs fyrir fólk sem greinist með krabbamein?” annars vegar og hins vegar ,,Hvert er gildi skipulags tómstundastarfs fyrir andlega líðan/félagslegan stuðning eftir krabbameinsgreiningu?  Niðurstöður eru settar fram með skýrum hætti en einnig komast þær að þeirri sjálfstæðu niðurstöðu að á heilbrigðisstofnunum, s.s. sjúkrahúsum þar sem krabbameinsmeðferð fer fram, starfi tómstundaráðgjafi í teymi þeirra sem þjónusta krabbameinsgreinda einstaklinga. Með það fyrir augum setja þær fram tillögu um framkvæmd og reifa bæði ávinning og áskoranir tillögunnar. Þessi tillaga hvílir á styrkum stoðum þeirrar umfjöllunar sem þær leggja upp með, bæði í fræðilegu sem og notendavænu samhengi.Ritgerð þeirra sem hér er til umfjöllunar hefur afar mikilvægt hagnýtt gildi þar sem þær sýna fram má með sannfærandi hætti hversu mikilvægt starf tómstunda- og félagsmálafræðingar geta lagt af mörkum í þjónustu við krabbameinsgreinda einstaklinga.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands veitti verðlaunin og Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Menntavísindasvið hélt stutta tölu um Guðbjart Hannesson, gildi hans og nálgun í starfi.

Verðlaunahöfum er óskað innilega til hamingju.

Um Minningarsjóð Ásgeirs S. Björnssonar

Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar var stofnaður til minningar um Ásgeir sem var lektor í íslensku við Kennaraháskólann um árabil. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1989. Markmið sjóðsins er að efla ritsmíð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með því að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi B.Ed.-, BS- og BA-verkefni. Stjórn sjóðsins skipa: Heimir F. Viðarsson (MVS), formaður, Ólafur Páll Jónsson (MVS), Sigríður Ólafsdóttir (MVS) og Eiríkur Rögnvaldsson (fulltrúi Hagþenkis)

Um Minningarsjóð Guðbjarts Hannessonar

Minningarsjóður Guðbjarts Hannessonar var stofnaður til minningar um Guðbjart sem var skólastjórnandi, alþingismaður og frumkvöðull í að tengja félags- og tómstundamenntun við aðra uppeldismenntun en hann var með þeim fyrstu hér á landi sem sóttu sér formlega menntun sem tómstunda- og frístundafræðingur. Minningarverðlaun í hans nafni voru veitt í fyrsta sinn við brautskráningu Háskóla Íslands árið 2019. Stjórn Minningarsjóðsins skipa: Birna Guðbjartsdóttir, Sigurður Arnar Sigurðsson og Ársæll Arnarsson.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti MVS, Anna Dís Árnasdóttir, Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir og Harpa Karen Antonsdóttir, verðlaunahafar ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ. / Mynd: Gunnar Sverrisson.
Anna Dís Árnasdóttir, verðlaunahafi Minningarsjóðs Ásgeirs S. Björnssonar,  Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir og Harpa Karen Antonsdóttir, verðlaunahafar Minningarsjóðs Guðbjarts Hannessonar / Mynd: Gunnar Sverrisson.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti MVS, Ásdís Jóelsdóttir, lektor og leiðbeinandi verðlaunahafa, Anna Dís Árnasdóttir, verðlaunahafi Minningarsjóðs Ásgeirs S. Björnssonar ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ. Mynd: Gunnar Sverrisson.
Ársæll M. Arnarsson, prófessor, Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir og Harpa Karen Antonsdóttir, verðlaunahafar ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ. / Mynd: Gunnar Sverrisson.