Verðum að nálgast læsi af virðingu og alúð
„Kennarar geta farið fjölbreyttar leiðir við að kenna lestur og börn fara ólíkar leiðir við að læra lestur. Rannsóknir sýna að læsi og lestrarnám er háð ýmsum þáttum. Í því samhengi er mikilvægt að viðurkenna fjölbreyttar aðferðir og fjölbreyttan barnahóp,“ sagði Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, við setningu ráðstefnunnar Fjölbreyttar leiðir til læsis, sem haldin var við Háskóla Íslands í gær, á alþjóðadegi læsis. Fullt var út úr dyrum á ráðstefnunni en hátt í þrjú hundruð þátttakendur hlýddu á erindi kennara, fræðimanna og sérfræðinga úr mismunandi fræðigreinum.
Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar voru þrír. Noella Mackenzie, dósent við Charles Sturt háskóla í Ástralíu, reið á vaðið með fyrirlestrinum From Sign Creation to Sign Use: Children Learn to Write þar sem hún fjallaði um þróun ritunar frá óformlegu kroti til formlegrar ritunar. Því næst tók Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, til máls en hún hefur um árabil rannsakað málþroska og málnotkun barna og unnið frumkvöðlastarf á því sviði. Í fyrirlestri sínum greindi hún frá viðamikilli langsniðsrannsókn á íslenskum börnum um undirstöður lesskilnings á leikskólaárunum. Niðurstöðurnar sýna m.a. að mælingar á orðaforða ungra barna í leikskóla geta haft forspárgildi um námsgengi og nýtast því til að styðja þau í lestrarnámi. Jón Torfi Jónasson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, batt endahnútinn með erindinu Skilningur, mál, læsi og lestur. Hann lagði áherslu á ólíkar hugmyndir um læsi og setti umræður um málaflokkinn hérlendis í erlent samhengi. Þá sagði hann að nálgast ætti læsi af virðingu og alúð en hugtakið hefur verið sett í æðsta sess skólastarfs og því þurfi að tryggja að það þjóni menntun ungs fólks.
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, sleit ráðstefnunni og hvatti til aukinnar umræðu um menntamál í samfélaginu.
Enn fremur voru fjórar málstofur á ráðstefnunni þar sem viðfangsefni voru af ólíkum toga. Þar var t.d. fjallað um gagnvirkan lestur, læsi í leikskólum, mikilvægi orðaforða, nýtt lestrarnámskeið, viðhorf barna til lestrar og tækni og ýmsar árangursríkar aðferðir í námi og kennslu.
Í tengslum við ráðstefnuna gaf Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun út sérrit um læsi með sex ritrýndum greinum. Ritstjórn skipuðu Þórunn Blöndal, fyrrverandi dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Meðal umfjöllunarefna í ritinu eru læsi byrjenda, orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál, læsi í leikskólum og tengsl orðaforða og lestrarfærni við gengi nemenda í lesskilningshluta PISA.
Óhætt er að segja að ráðstefnan hafi tekist vel og blásið leik- og grunnskólakennurum, sem og öðrum gestum, anda í brjóst við að efla læsis- og lestraraðferðir í skólum landsins.