Verðlaunaðir fyrir bestu vísindagreinina á sviði fjarkönnunar
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, og þrír samstarfsmenn hans voru á dögunum verðlaunaðir fyrir bestu vísindagreinina í alþjóðlega vísindatímaritinu International Journal of Image and Data Fusion árin 2016-018.
Tímaritið birtir greinar á sviði fjarkönnunar og úrvinnslu stafrænna fjarkönnunarmynda og verðlaunar annað hvert ár framúrskarandi grein sem birst hefur í tímaritinu. Með þessu vill ritstjórn þess hvetja vísindamenn og sérfræðinga til að deila nýjum rannsóknarniðurstöðum á þessu sviði með starfssystkinum sínum. Við val á bestu greininni er m.a. horft til frumleika og hugmyndaauðgi við rannsóknarvinnu, gæða og nákvæmni í rannsóknaraðferðum og prófunum og þess hvaða gildi og áhrif rannsóknin hefur á fræðasviðinu.
Greinin sem verðlaunuð er ber titilinn „A novel hierarchical clustering technique based on splitting and merging“ og birtist í tímaritinu árið 2016. Þar er fjallað um nýja aðferð við flokkun fjarkönnunargagna sem er notuð til að greina yfirborðsgerðir á jörðinni. Fjarkönnun felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Þannig má t.d. fylgjast með úrbreiðslu hrauns í gosum, breytingum á gróðri og jöklum, uppskeru, nútímalandbúnaði og skógrækt svo eitthvað sé nefnt.
Aðferðin í greininni byggist á svokölluðum sjálfbeindum lærdómi (svokallaðri klösun, e. clustering) þar sem notast er við sjálfvirka aðferð til að sameina og skipta upp klösum (e. clusters) sem fást eftir sjálfbeinda lærdóminn. Eru flokkunarniðurstöðurnar sem fást í greininni mjög góðar í samanburði við aðrar aðferðir.
Auk Jóns Atla eru þeir Jayavelu Senthilnath og Deepak Kumar, sem starfa við Indian Institute of Science í Bangalore, og Xiaoyang Zhang, sem starfar við Ríkisháskólann í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum, höfundar verðlaunagreinarinnar. Þess má geta að Jón Atli og samstarfsmenn hans við Háskóla Íslands hlutu einnig verðlaun tímaritsins fyrir bestu greinina árin 2012-2013.
Vísindamenn og nemendur við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á rannsóknir tengdar fjarkönnun og að þróa nýjar aðferðir við úrvinnslu fjarkönnunarmynda. Skólinn stendur mjög framarlega á því sviði samkvæmt Shanghai-listanum svokallaða, lista yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum.