Skip to main content
6. desember 2024

„Vegurinn upp og vegurinn niður er einn og hinn sami“ 

„Vegurinn upp og vegurinn niður er einn og hinn sami“  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Afar vel sótt sviðsþing Menntavísindasviðs var haldið á Reykjavík Nordica Hilton fimmtudaginn 27. nóvember síðastliðinn. Yfirskrift þingsins var: Sagan okkar, starfsumhverfi á nýjum vinnustað. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, ávarpaði þingið í upphafi. Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, flutti erindið Hvað er góð vinnustaðamenning? og í kjölfarið leiddi Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, prófessor við Viðskiptafræðideild, hópavinnu starfsfólks. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, ávarpaði samkomuna og Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki og deildarforseti Deildar menntunar og margbreytileika, sleit þinginu en Lára Rún Sigurvinsdóttir, mannauðsstjóri Menntavísindasviðs, stýrði sviðsþingi.

Í ávarpi sínu fagnaði Kolbrún Þ. Pálsdóttir því að þingið væri að þessu sinni helgað því að ræða starfsumhverfi og vinnumenningu, enda gæfi flutningur í Sögu tilefni til að móta saman sýn og áherslur á hvernig vinnustað við viljum skapa á nýjum stað. Þá tilkynnti Kolbrún sínu nánasta samstarfsfólki um framboð sitt til rektors.

Sigrún fjallaði í erindi sínu um hvað skapi góða vinnustaðamenningu og að miklu skipti að við séum öll meðvituð um viðhorf, gildi og grunnreglur, um hvernig við tölum, skrifum, komum fram og gerum hlutina. Hún benti á að hvert og eitt okkar geti tekið þátt í forystu í hlutverkum sínum og haft góð áhrif. Sigrún nefndi jafnframt leiðir til að rækta traust og virðingu á vinnustað; hlustun, gagnsæi, skýrar væntingar, endurgjöf, hvatningu, að framlagi allra sé fagnað og mikilvægi færni til að tala um ágreining. Ekki síst ræddi hún mikilvægi sálræns öryggis á vinnustöðum. Í kjölfar erindis Sigrúnar leiddi Gylfi hópavinnu á borðum; í fyrstu var hver og einn þátttakandi beðinn um að gefa vinnustaðnum einkunn. Því næst var spurt hvernig Menntavísindasvið gæti orðið framúrskarandi vinnustaður og hvað hægt væri að gera strax daginn eftir til hækka einkunn vinnustaðarins upp í einkunnina níu.  

„...að gefa okkur tíma til að kynnast betur, heilsast þegar við hittumst og bulla meira saman.“ 

Samkvæmt Láru Rún, mannauðsstjóra Menntavísindasviðs er vinnustaðamenning hjartsláttur hvers vinnustaðar og grunnurinn að því hvernig starfsfólk upplifi vinnudaginn.

„Efling góðrar vinnustaðamenningar á sér ekki stað án framlags okkar allra. Vinnustaðamenning rammar inn hvernig við tökumst á við áskoranir og náum árangri saman. Hún hefur ekki aðeins áhrif á vellíðan starfsfólks heldur einnig hvort Menntavísindasvið sé eftirsóknarverður vinnustaður og námsstaður. Hópavinna á borðum gekk vel. Þátttakendur voru beðnir um að gefa vinnustaðnum einkunn og fékk Menntavísindasvið 7,5 í meðaleinkunn, sem Gylfi taldi ágætis einkunn. Þó nokkuð samræmi var á milli þess sem hóparnir töldu mikilvægast að gera svo Menntavísindasvið verði enn betri vinnustaður. Hóparnir nefndu til dæmis aukna samvinnu og liðsheild með traust og inngildingu að leiðarljósi. Leggja áherslu á  að minna álag í starfinu, auka jákvæða endurgjöf og hvatningu og á sama tíma draga úr tortryggni og neikvæðni. Nefnt var einnig að við þyrftum að gefa okkur tíma til að kynnast betur, heilsast þegar við hittumst og bulla meira saman. „Þá virðumst við öll vilja að Menntavísindasvið verði samfélag starfsfólks og nemenda sem einkennist af vönduðum samskiptum, vinsemd, virðingu og fagmennsku,“ segir Lára Rún og bendir jafnframt á að umræðan á þinginu og gögn úr hópavinnunni verði nýtt til stefnumótunar og aðgerða sem snúa að eflingu vinnustaðamenningar og bættu starfsumhverfi á Menntavísindasviði.    

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpaði þingið í lokin og sagði að þessi flutningur Menntavísindasviðs væri sögulegur þar sem um stærstu framkvæmdir og breytingar innan HÍ undanfarin ár væri að ræða. Jafnframt hrósaði hann starfsfólki Menntavísindasviðs og öðru starfsfólki HÍ sem kemur að verkefninu fyrir seiglu og sveigjanleika. 

„Á öllum hæðum verður unnið af kappi, hugsað af kappi, skrifað af kappi, rökrætt af kappi, reiknað af kappi, kennt af kappi.“ 

Ólafur Páll Jónsson, prófessor og deildarforseti, sleit þinginu með ræðu þar sem hann setti flutning Menntavísindasviðs í Sögu og þær breytingar sem sviðið hefur gengið í gengum undanfarin ár, í samhengi við orð og kenningar heimspekinga til forna. Það er við hæfi að enda á nokkrum vel völdum textabrotum úr ræðu Ólafs: „Herakleitos, sem uppi var í Grikklandi um kynslóð áður en Sókrates fór að mæla þar göturnar og pönkast í fólki, sagði að ekkert væri varanlegt nema breytingin. Hann orðaði þessa kenningu svo, að enginn stigi tvisvar í sömu ána því sífellt streymdi nýtt vatn um fætur manns. Þessi forna kenning virðist hafa sannast á okkur: Heimurinn er eitt flæði og ekkert er varanlegt nema breytingin. 

Þegar við hugsum um þær linnulausu breytingar sem við (á Menntavísindasviði) höfum gengið í gegnum, þá virðist með sanni mega segja að á Menntavísindasviði Háskóla Íslands sé breytingin eini fastinn í tilverunni. En breytingin er auðvitað ekki bara í húsnæði og staðsetningu. Eins og vatnið í ánni streymir áfram sí-nýtt, þá streyma sífellt nýir nemendur um ganga og kennslustofur þessara bygginga sem okkur hafa hýst – og reyndar streyma nemendurnir núna líka hjá fyrir augum okkar á flötum skjáum. Ekkert er varanlegt nema breytingin. Er nema von að stundum heyrist lágvært dæs úr horni.“ 

Starfsfólk og nemendur Menntavísindasviðs hafa sýnt sveigjanleika og þolgæði varðandi kennsluhúsnæði. „Á þessu misseri sem nú er að ljúka hefur ekki alltaf verið fyrirsjáanlegt hvaða húsnæði stæði okkur til boða næstu viku, eða jafnvel næsta dag. Af skapandi hug og samstarfsvilja – og rúmlegu dassi af þolgæði – hefur þetta þó blessast, svona nokkurn veginn að minnsta kosti. Ég sagði „samstarfsvilja“ en mig langar að bæta við: samstarfshæfni. Við erum komin að lokum misserisins og það er ekki bara til marks um að við vildum vinna saman að lausn vandamála sem stundum virtust spretta upp eins og gorkúlur, heldur líka að okkur tókst það. Það var ekki bara svo að við vildum leysa málin, við leystum málin. Vilji og hæfni fara ekki alltaf saman, þetta vitum við og m.a. þess vegna leggjum við svo ríka áherslu á að nám verði að vera verklegt.  

Kómeníus vissi að vilji og hæfni fara ekki endilega saman. Í Stóru kennslufræðinni, sem hann skrifaði á fyrri hluta 17. aldar, segir hann á einum stað: „Handverksmenn halda ekki eintómum kenningum að lærlingum sínum; þeir láta þá vinna án tafar svo að þeir fái lært að hamra járn með því að hamra járn, að skera út með því að skera út, að mála með því að mála, að stökkva með því að stökkva. Þess vegna ættum við, í skólum, að kenna nemendum að skrifa með því að skrifa, að tala með því að tala, að syngja með því að syngja, að hugsa með því að hugsa, o.s.frv. svo að skólarnir geti einfaldlega orðið verkstæði þar sem unnið er af kappi. Þetta er ágætis áminning fyrir okkur. Saga, þetta hús sem við erum að fara að flytja inn í á vormánuðum, var einu sinni hótel. Þar svaf fólk og át og gerði eflaust sitthvað fleira. Nú á það að verða verkstæði þar sem unnið verður af kappi. Í kjallaranum verður smíðað og púlað af kappi, á jarðhæðinni leikið af kappi, á annarri hæð verður spilað og sungið, ofið og saumað, og eldað af kappi, og þannig gæti ég haldið áfram að lýsa verkstæðinu Sögu. Á öllum hæðum verður unnið af kappi, hugsað af kappi, skrifað af kappi, rökrætt af kappi, reiknað af kappi, kennt af kappi. En kapp er best með forsjá. Svo við endum nú ekki öll yfirkeyrð og útbrunnin, þá þurfum við líka að muna eftir því að slæpast svolítið, hangsa svolítið, stoppa við kaffivélina og kjafta svolítið, segja sögur, og taka okkur góðan tíma í hádeginu til að næra bæði líkama og sál. Við skulum ekki gleyma að bulla svolítið og hlæja saman. Djúpt traust skapast ekki á milli fólks nema það hlæi aðeins saman. Eina réttlætingin fyrir opnum rýmum er möguleikinn á að verða tuflað af hvellum og smitandi hlátri annars staðar í rýminu. 

En þar sem ég sat á kontórnum í Bolholti, fann ég strax fyrir því að vinnurýmið markaðist ekki bara af fjórum veggjum og víðáttum fræðanna. Ég var umlukinn fólki sem hafði skoðun á því sem ég var að gera – og kannski enn meiri skoðun á því sem ég var ekki að gera. Þetta var ekki bara vegna þess að ég hafði stóran glugga sem sneri beint út að Valhöll. Um leið og ég skrifaði eitthvað um menntamál, þá var ég kominn inn á gafl hjá stærstu starfsstétt landsins, kennarastéttinni, sem nú stendur í stappi við að fá menntun sína og vinnu metna að verðleikum. Ég var líka orðinn hluti af stærsta kerfi ríkisins, skólakerfinu, sem er eitt af því sem kosið verður um á laugardaginn. Og svo var ég kominn í hugmyndafræðileg átök, ekki bara við fólk í fræðunum heldur líka við allskyns sjálfskipaða spekinga úti í bæ. 

En þá mundi ég líka eftir hinni kenningunni hans Herakleitosar – ekki þessari um flæðið og ána, heldur kenningunni um andstæðurnar. Hann sagði nefnilega líka: „Vegurinn upp og vegurinn niður er einn og hinn sami“. Vissulega þurfti að sækja ýmislegt á brattann – og oft finnst okkur að leiðin liggi óþarflega mikið upp í móti og almenningsálitið ekki alltaf að hvetja okkur í þessu klifri. En leiðin upp í móti er líka leiðin niður í móti. Vegna þess að fólk hefur skoðun á því sem við erum að gera, vegna þess að við fáum ekki að stunda fræðin í öruggu skjóli fyrir almenningsálitinu, vegna þess að bæði leikir og lærðir eru til í að hampa því sem við segum eða rífa það niður, eftir því hvernig vindurinn blæs, þá erum við líka í beinum tengslum við þjóðina. Það sem við segjum hefur vigt. Um leið og annað fólk er inni á okkar kontór, jafnvel skimandi yfir báðar axlir, þá erum við líka inni á hvers manns heimili, í hverri kennslustofu í landinu, á hverjum leikskóla – svo ekki sé nú talað um flóhellur internetsins. Þannig er okkar vinnurými. Þetta er mjög opið rými. Er nema von að stundum heyrist lágt dæs úr horni. En með því að dæsa saman, eins og við höfum verið að gera í dag, þá verður þetta allt í lagi. Sennilega bara harla gott, eins og segir í gamalli bók. Takk fyrir.“

Frá vinstri: Sigrún Gunnarsdóttir, Ólafur Páll Jónsson, Lára Rún Sigurvinsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Kolbrún Þ. Pálsdóttir og Gylfi Dalmann. /Mynd: Kolbrún Kristín Karlsdóttir.
Sviðsþing var afar vel sótt. /Mynd: Kolbrún Kristín Karlsdóttir.
Starfsfólk Menntavísindasviðs í hópavinnu um vinnustaðamenningu sviðsins. /Mynd: Kolbrún Kristín Karlsdóttir.