Skip to main content
17. febrúar 2016

Varði doktorsritgerð um vald og virkni ritdóma

""

Auður Aðalsteinsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína, Bókmenntagagnrýni á almannavettvangi. Vald og virkni ritdóma á íslensku bókmenntasviði, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Andmælendur voru Dagný Kristjánsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild, og Gestur Guðmundsson, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild. Aðalleiðbeinandi Auðar var Ástráður Eysteinsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, en í doktorsnefnd voru auk hans Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Jón Ólafsson, bæði prófessorar við Íslensku- og menningardeild.

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor og deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stýrði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands 12. febrúar síðastliðinn.

Um efni ritgerðarinnar

Í ritgerðinni er fjallað um vald ritdómara og virkni ritdóma á íslensku bókmenntasviði sem og í alþjóðlegu samhengi, allt frá upphafi fjölmiðlunar til samtímans. Sýnt er fram á að vald ritdómarans er ætíð ótraust og að hann á sífellt á hættu að vera ásakaður um að misnota það, enda felst þetta vald í að rofin eru mörk hinna ýmsu samfélagssviða og hefðbundinna andstæðupara eins og fræðaheims og fjölmiðla, lista og fræða, fræða og afþreyingar, hins persónulega lífs og almannavettvangs, fagurfræði og pólitíkur, listar og markaðar, lögmætrar valdbeitingar og stjórnleysis.
Íslenskir ritdómar urðu til á mörkum bókmenntasviðsins, fræðasviðsins og fjölmiðlasviðsins, undir miklum áhrifum frá stjórnmálasviðinu og hinni ýmsu pólitík, ekki síst kynjapólitík, og síðar sívaxandi áhrifum frá markaðslögmálum efnahagssviðsins. Þarna mynduðu ritdómar sérstakt svæði sem ber einkenni af samþættingu og átökum allra þessara sviða. Í rannsókninni er fjallað um þessa skörun sviða í ritdómum og athygli sérstaklega beint að því hvaða áhrif hún hefur á virkni þeirra á bókmenntasviðinu.

Um doktorsefnið

Auður Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1972. Hún hefur lokið BA- gráðu og MA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún er nú ritstjóri Hugrásar, vefrits Hugvísindasviðs.

F.v.: Sveinn Yngvi Egilsson, Dagný Kristjánsdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir, Gestur Guðmundsson og Guðmundur Hálfdanarson.
F.v.: Sveinn Yngvi Egilsson, Dagný Kristjánsdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir, Gestur Guðmundsson og Guðmundur Hálfdanarson.
+1

F.v.: Sveinn Yngvi Egilsson, Dagný Kristjánsdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir, Gestur Guðmundsson og Guðmundur Hálfdanarson.