Skip to main content
17. nóvember 2021

Varði doktorsritgerð um ímyndir og aðdráttarafl í Nonnabókunum

Varði doktorsritgerð um ímyndir og aðdráttarafl í Nonnabókunum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Helga Birgisdóttir hefur varið doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Saga Nonna. Ímyndir og aðdráttarafl í Nonnabókum Jóns Sveinssonar. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Dagnýjar Kristjánsdóttur, prófessors emerita í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en auk hennar voru í doktorsnefnd Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði, og Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

Andmælendur við vörnina voru dr. Sumarliði R. Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands og Turið Sigurðardóttir, prófessor emerita í bókmenntum við Fróðskaparsetur Færeyja. Gauti Kristmannsson, varaforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 16. nóvember. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).

Um rannsóknina

Í ritgerðinni eru Nonnabækurnar túlkaðir með því að beita aðferðum sjálfsævisagnafræða. Sýnt er fram á hvernig Nonnabækurnar hverfast um þrjú meginsvið, en það eru bernska, þjóðerni og trú. Gerð er grein fyrir lykilhugtökum í barnabókmenntarannsóknum, hugmyndinni um „barnið“ í vestrænu samfélagi ásamt því að gerð er stutt grein fyrir upphafi barnabókaútgáfu. Þessi umfjöllun myndar fræðilegan grundvöll greiningar á Nonnabókunum. Sjálfsmyndasköpun Jóns Sveinssonar og persónusköpun Nonna eru rannsakaðar og athygli beint að þeim þætti sjálfsmyndar er snýr að upprunanum þar sem landið, þjóðin og norðrið eru í brennidepli.

Um doktorinn

Helga Birgisdóttir lauk B.A.-próf í íslensku við Háskóla Íslands og M.A.-prófi í íslenskum bókmenntum við sama skóla ásamt því að hafa lokið námi til kennsluréttinda. Hún starfar sem aðjúnkt í kennslu íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Frá vinstri: Ólöf Garðarsdóttir, Sumarliði R. Ísleifsson, Dagný Kristjánsdóttir, Helga Birgisdóttir, Sveinn Yngvi Egilsson, Turið Sigurðardóttir, Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Gauti Kristmannsson.