Skip to main content
11. desember 2024

Úttekt staðfestir alþjóðleg áhrif Jafnréttisskólans

Úttekt staðfestir alþjóðleg áhrif Jafnréttisskólans - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ný alþjóðleg útttekt á starfi Jafnfréttisskólans GRÓ GEST við Hugvísindasvið HÍ staðfestir að skólinn hefur haft umtalsverð áhrif á sviði aukin kynjajafnréttis á heimsvísu. Úttektin, sem unnin var af ráðgjafafyrirtækinu GOPA Worldwide Consultants, undirstrikar að áherslur skólans eru jafnframt í takt við áherslur Íslands í þróunarsamvinnu um aukið kynjajafnrétti og félagslegt réttlæti í lág- og meðaltekjulöndum. 

Alþjóðlegum jafnréttisskóla var komið á laggirnar árið 2009 og undanfarin tæp fimm á hefur hann verið hluti af GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Jafnréttissskólinn býður m.a. upp á diplómanám í alþjóðlegum jafnréttisfræðum og frá upphafi hefur 241 nemandi frá 38 löndum útskrifast frá skólanum. 

Úttekt GOPA byggist meðal annars á upplýsingum fyrrverandi nemenda Jafnréttisskólans um störf þeirra að lokinni útskrift og framlagi þeirra til umbóta á sviði jafnréttismála í heimalöndum sínum. Úttektin nær einnig til stuttra námskeiða sem Jafnréttisskólinn býður upp í samstarfslöndum eins og Malaví og Úganda og þess er getið hversu mikil áhrif þau hafa til umbóta í samfélögum.

Þá er þess getið hversu vel Jafnréttisskólinn nær til stórs hóps með fjölbreyttri nálgun á uppbyggingu þekkingar í málaflokknum. Starf skólans sé einkar skilvirkt þegar komi að þjálfun en alls hafi hún náð til 16.800 einstaklinga á árunum 2018-2023. Það megi ekki síst þakka opnum netnámskeiðum (MOOCs) á vegum Jafnréttisskólans sem þúsundir manna hafa sótt á undanförnum árum sér að kostnaðarlausu. Netnámskeiðin hafi ásamt diplómanáminu og stuttum námskeiðum í samstarfslöndum skólans haft í för með sér að Jafnréttisskólinn hefur markað sér sterka stöðu sem leiðandi afl á sviði menntunar um jafnrétti kynjanna á alþjóðavísu. 

Í úttektinni er einnig undirstrikuð sú nýstárlega nálgun sem Jafnréttisskólinn nýtir í störfum sínum og hvernig þjálfun fólks falli vel á áherslum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Nemendur í Jafnréttissskólanum séu vel nestaðir til þess að takast á við aðkallandi áskoranir í heiminum, eins og kynbundið ofbeldi, loftslagsbreytingar og efnahagslega valdeflingu. 
 

Starfsfólk Jafnréttisskólans 2018-2024. Frá vinstri: Védís Ólafsdóttir, Guðrún Eysteinsdóttir, Irma Erlingsdóttir, Anna Guðrún Aradóttir, Giti Chandra og Thomas Brorsen Smidt. MYND/Kristinn Ingvarsson

Þá hrósar GOPA Jafnréttisskólanum sérstaklega fyrir trausta eftirfylgni og mat á starfinu sem stuðli að stöðugum umbótum í skólastarfinu. Starfsemin sé skilvirk og ráðdeild sé í rekstri skólans sem gefi skólanum færi á að skapa ný tækifæri til vaxtar og nýsköpunar. Jafnréttisskólinn hafi frá stofnun leitað leiða til að víkka út starfsemina og þróa hana á grunni nýrrar þekkingar og aðferða og sé hornsteinn Íslands í baráttunni fyrir auknu jafnrétti kynjanna á alþjóðavettvangi. 

Aðstandendur GRÓ GEST eru að vonum glöð með niðurstöðuna. „Þessi viðurkenning hvetur okkur til að vinna áfram að því að bæta og víkka út okkar starf enn frekar til að tryggja að við verðum áfram í fararbroddi í menntun á sviði kynjajafnréttis sem byggist á nýsköpun og raunverulegum áhrifum. Námið fer fram við Háskóla Íslands og þessi viðurkenning undirstrikar mikilvægi samstarfs okkar við háskóla í lágtekjulöndum og á fyrrverandi átakasvæðum sem er kjarninn í starfi okkar. Margir af fyrrverandi nemendum okkar vinna að brautryðjendarannsóknum sem snerta þýðingarmikil viðfangsefni í heimalöndum þeirra og stuðla þannig að aukinni fræðilegri umræðu um jafnrétti kynjanna og félagslegt réttlæti. Þetta hvetur okkur til að dýpka samstarf okkar enn frekar og stuðla áfram að breytingum í gegnum menntun og rannsóknir,” segir Irma Erlingsdóttir, prófessor og forstöðumaður Jafnréttisskólans.

Úttekt GOPA má nálgast á vef utanríkisráðuneytisins en hún nær til allra fjögurra skólanna sem heyra undir GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu: Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans og Landgræðsluskólans.