Skip to main content
4. júní 2024

Ungmenni með gott þrek glíma síður við einkenni þunglyndis og kvíða

Ungmenni með gott þrek glíma síður við einkenni þunglyndis og kvíða - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrek 15 ára ungmenna versnaði almennt á milli áranna 2003 og 2015 en þau ungmenni sem eru með gott þrek glíma síður við einkenni þunglyndis og kvíða og hafa betri líkamsímynd og sjálfsálit, sérstaklega stúlkur. Þetta kemur fram í nýbirtri vísindagrein Óttars Guðbjörns Birgissonar, doktorsnema við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði, í vísindatímaritinu PLOS ONE.

„Þetta er önnur greinin sem ég birti sem hluta af doktorsrannsókn minni þar sem ég skoða áhrif netsamskipta, eins og um samfélagsmiðla, á heilsu ungmenna,“ segir Óttar. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að líkamleg hreyfing sé hluti af geðrækt ungmenna og að hún hafi aldrei verið mikilvægari en nú þegar rannsóknir sýna að geðheilsa ungmenna versni hratt.

PLOS ONE er opið vísindatímarit og gefið út af Public Library of Science (PLOS). Tímaritið tekur við og birtir vísindagreinar frá fjölbreyttum fræðasviðum, þar á meðal líffræði, læknisfræði, verkfræði og fleiri greinum.  

„Greinin er nýbirt en ég kynnti frumniðurstöður hennar á ráðstefnu í París síðasta sumar við góðar undirtektir. Í fyrstu greininni sem ég birti í mínu doktorsnámi var áherslan á geðheilsu ungmenna og þar kom fram að hún er að versna og tengsl eru á milli netsamskipta og geðheilsu. Í þessari nýútkomnu grein lagði ég áherslu á að skoða sambandið milli þreks og geðheilsu og skoða hvort þrek hefði versnað á sama tíma og geðheilsa hefur versnað. Þriðja greinin er í smíðum en frumniðurstöður mínar benda til þess að aukin netnotkun hafi slæm áhrif á geðheilsu, bæði þegar ungmenni eru í tíunda bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Auk þess sýna þær í fyrsta sinn að það eru tengsl á milli aukinnar notkunar samfélagsmiðla og verra þreks,“ segir Óttar. 

Áður en Óttar hóf doktorsnám starfaði hann sem sálfræðingur á heilsugæslum í nokkur ár. „Í gegnum störf mín á heilsugæslum hef ég verið drifinn áfram af því að skilja hvað gæti mögulega skýrt versnandi geðheilsu ungs fólks. Miklar umræður hafa verið á meðal sálfræðinga og fræðimanna um geðheilsu ungs fólks og margar tilgátur hafa verið settar fram. Sú sem hefur fengið hvað mestan hljómgrunn eru áhrif samfélagsmiðla. Því meira sem ég skoðaði þetta því fleiri vísbendingar sá ég um að það væri eitthvað til í þessu,“ segir Óttar. 

Hann bætir við að sem foreldri hafi hann auðvitað líka áhyggjur af versnandi heilsu ungmenna. „Ég á son sem er hluti af Z-kynslóðinni og tvö önnur börn sem tilheyra þeirri kynslóð sem kölluð er alfa-kynslóðin. Loks er ég líka mikill áhugamaður um tækni og vísindi og er almennt jákvæður fyrir notkun tækni. Þar sem samfélagsmiðlar og snjallsímar og nú gervigreindin er að verða alltumlykjandi tel ég að það hafi aldrei verið mikilvægara en núna að rannsaka þetta vel og læra að nota tæknina til góðs í stað þess að láta tæknina nota okkur,“ segir Óttar. 

Niðurstöður áðurnefndrar greinar í PLOS ONE styðja enn fremur niðurstöður annarra fræðimanna um að að þrek (í þessu tilviki mælt með hlutlægum hætti á þrekhjóli) sé að versna hjá ungu fólki á 21. öld. „Aðrar heilsufarsmælingar hafa sýnt að og ofþyngd og offita er að aukast en nú höfum við góð gögn um að þrek sé líka að versna. Þessi hluti rannsóknarinnar er líka þýðingamikill fyrir næstu grein hjá mér þar sem ég skoða þátt netsamskipta í þessari þróun,“ segir Óttar að lokum.
 

Óttar Guðbjörn Birgisson