„Undirbúningstími mestur þar sem leikskólakennarar eru flestir“
„Áhrif undirbúningstíma á fagmennsku leikskólakennara og gæði leikskólastarfs“ er heiti nýrrar ritrýndar greinar sem birtist í Netlu á dögunum. Greinin segir frá rannsókn sem unnin er af Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng), en henni er ætlað að auka og efla rannsóknir á menntun og uppeldi ungra barna á aldrinum 0 - 8 ára og vera vettvangur fræðaþróunar á því sviði. Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið fer fyrir rannsókninni ásamt Kristínu Karlsdóttur, Margréti S. Björnsdóttur og Söru Margréti Ólafsdóttur.
„Kveikjan að rannsókninni er að skoða þann tíma sem ætlaður er leikskólakennurum til undirbúnings starfsins en sá tími var lengdur töluvert, frá því sem áður var, í kjarasamningum árið 2020. Er sá tími sem afmarkaður er til undirbúnings starfsins orðinn því sem næst sambærilegur þeim tíma sem grunnskólakennarar fá til undirbúnings, sem var eitt af markmiðum samningsins. Því fannst okkur áhugavert að skoða hvaða áhrif það hefur á fagmennsku leikskólakennara og gæði leikskólastarfs að þeir verji tíma sínum í auknum mæli í undirbúning starfsins,“ segir Anna Magnea sem segir mjög fáar rannsóknir hafi verið gerðar á undirbúningstímum í leikskólum, bæði hérlendis og erlendis, en markmið þessarar rannsóknar sé að varpa ljósi á fyrirkomulag undirbúningstíma í íslenskum leikskólum og forgangsröðun verkefna sem unnin eru í undirbúningstímum.
Hvað kom mest á óvart við niðurstöðurnar?
„Samkvæmt kjarasamningi er undirbúningstíma leikskólakennara úthlutað til einstakra félagsmanna
í Félagi leikskólakennara en ekki til leikskólans eða leikskóladeildar. Hefur það fyrirkomulag í för
með sér að fjöldi undirbúningstíma er mestur þar sem leikskólakennarar eru flestir. Þar sem fáir
leikskólakennarar eru við störf eru tímar til undirbúnings fæstir. Það hefur í för með sér ójöfnuð
milli leikskóla sem sumir viðmælendur höfðu áhyggjur af. Þar sem sömu kröfur eru gerðar til
allra leikskóla um fagmennsku í starfi, áætlanagerð og mat á starfi er mikilvægt að huga að því
að hver leikskóli fái lágmarksundirbúningstíma óháð fjölda félagsmanna í Félagi leikskólakennara,“ segir Anna Magnea.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar fór undirbúningstími yfirleitt fram utan deildar og sjaldnast í samvinnu við aðra. Töldu viðmælendur að mikil tölvuvinna fylgdi undirbúningi starfsins og að sú vinna þyrfti að fara fram utan deildar. Þetta fyrirkomulag var ekki að öllu leyti í samræmi við hugmyndir viðmælenda um framtíðarfyrirkomulag undirbúningstíma sem þeir töldu að ætti að vera eins og hver önnur starfsemi í leikskólanum og gæti meðal annars farið fram inni á deild þar sem leikskólakennarar fylgdust með börnum, handleiddu samstarfsfólk og huguðu að námsumhverfi barnanna.
Hvaða þýðingu hefur rannsóknin fyrir leikskólakennarastarfið?
„Með stöðugum breytingum í samfélaginu og auknum kröfum um fagmennsku og gæði í leikskólastarfi þurfa leikskólakennarar töluverðan tíma til að skipuleggja, ígrunda og meta
starf sitt og útfæra á faglegan hátt fyrirmæli menntalaga og þá stefnu sem birtist í aðalnámskrá, skólastefnu viðkomandi sveitarfélags og skólanámskrá leikskólans. Í þessu sambandi skal einnig
minnst á áhrif fækkunar leikskólakennara á síðastliðnum árum og aukna þörf fyrir handleiðslu og leiðsögn starfsfólks leikskóla sem hvílir á herðum leikskólakennara,“ segir Anna Magnea og bætir við að þar sem leikur er meginnámsleið ungra barna er stuðningur leikskólakennara við leik barna mikilvægur og að feta þurfi þann milliveg að gæta jafnvægis milli viðfangsefna sem stýrt er af leikskólakennurum annars vegar og sjálfsprottins leiks barna hins vegar.
Í greininni kemur einnig fram að margir viðmælendur hafi haft áhyggjur af að minni viðvera leikskólakennara inni á deild með börnunum gæti haft áhrif á gæði starfsins. Deildarstjórarnir hefðu jafnvel skipulagt það sem ætti að gerast á meðan þeir væru í undirbúningi. Jafnframt kemur fram að minna megi á að gæði leikskólastarfs ráðist aðallega af því hvernig samskipti og umönnun fari fram í daglegu starfi og þeim námsaðstæðum og viðfangsefnum sem börn fá tækifæri til að fást við yfir daginn.