Tvö sæmd fálkaorðu á þjóðhátíðardaginn

Guðrún Pétursdóttir, prófessor emerita við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, og Þorsteinn Loftsson, prófessor emeritus við Lyfjafræðideild, voru sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á hátíðlegri athöfn á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Alls fengu 15 Íslendingar orðuna að þessu sinni.
Guðrún Pétursdóttir ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, við afhendingu fálkaorðunnar á Bessastöðum 17. júní. MYND/Forsetaembættið/Eyþór Árnason
Guðrún Pétursdóttir hlýtur fálkaorð fyrir störf í þágu sjálfbærni, jafnréttis- og mannúðarmála. Hún lauk BA-prófi í sálarfræði frá Háskóla Íslands árið 1975, MA-prófi í lífeðlisfræði frá Oxford-háskóla árið 1977 og doktorsprófi í taugalífeðlisfræði frá Oslóarháskóla árið 1991.
Snemma á ferliunum vann Guðrún að rannsóknum tengdum þáttum erfða og umhverfis í heilsufari og þroskun taugakerfisins á fósturskeiði, m.a. við námsbraut í hjúkrunarfræði við HÍ. Hún venti svo kvæði sínu í kross og tók við starfi forstöðumanns Sjávarútvegsstofnunar HÍ, sem sinnti framhaldsnámi og rannsóknum á mörgum sviðum sjávarútvegs. Hún varð svo forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða (nú Sjálfbærnistofnun HÍ) þegar stofnunin varð til við samruna Sjávarútvegsstofnunar og Umhverfisstofnunar HÍ ár 2005 og gegndi því starfi samhliða störfum við Hjúkrunarfræðideild til ársins 2021.
Rannsóknir Guðrúnar hafa í seinni tíð beinst að áhrifum orkumannvirkja á náttúruna, áhrifum hnattrænnar hlýnunar á sjávarbyggðir og áhrifum umhverfisbreytinga og náttúruhamfara á samfélög. Hún stýrði m.a. norræna öndvegissetrinu NORDRESS þar sem saman komu á sjöunda tug norrænna sérfræðinga til rannsókna á viðnámsþrótti einstaklinga og samfélaga við náttúruhamförum. Einnig hefur hún stýrt samvinnu nemenda listaháskóla og umhverfisvísindamanna í norrænu verkefni sem kallast KONNECT.
Guðrún hefur enn fremur gegnt fjölbreyttum trúnaðarstörfum innan og utan HÍ eins og lesa má um á vefsíðu hennar.
Þorsteinn Loftsson ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, við afhendingu fálkaorðunnar á Bessastöðum 17. júní. MYND/Forsetaembættið/Eyþór Árnason
Þorsteinn Loftsson hlýtur fálkaorðu fyrir frumkvöðlastarf í lyfjavísindum og nýsköpun. Hann lauk fyrrihlutaprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 1972, kandídatsprófi í sömu grein frá Kaupmannahafnarháskóla þremur árum síðar, MS-prófi í lyfjaefnafræði árið frá Kansas-háskóla árið 1978 og doktorsprófi í sömu grein frá sama skóla ári síðar. Þorsteinn hóf störf við Háskóla Íslands árið 1979 sem lektor, varð dósent árið 1983 og prófessor árið 1986.
Á ferli sínum sem vísindamaður hefur Þorsteinn Loftsson fengist við ýmis viðfangsefni en þekktastur er hann fyrir rannsóknir á svokölluðum sýklódextrínum sem eru hringlaga fásykrungar sem má til dæmis nota við að auka vatnsleysanleika fituleysanlegra lyfja. Þorsteini og samstarfsfólki hefur meðal annars tekist að búa til nanóagnir úr sýklódextrínum sem auðvelda flutning lyfja yfir lífrænar himnur. Fyrir tilstilli þessarar uppgötvunar hefur verið hægt að ferja lyf í augndropum frá yfirborði augans í bakhluta þess í stað þess að sprauta lyfinu í augað með tilheyrandi óþægindum fyrir þá sem eru með augnsjúkdóma.
Á grundvelli þessara uppgötvana stofnaði Þorsteinn ásamt Einari Stefánssyni, prófessor emeritus í augnlækningum við Háskóla Íslands, fyrirtækið Oculis sem nú er skráð á hlutabréfamarkað bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Fyrir þessa uppgövun komust þeir félagar einnig í úrslit Evrópsku uppfinningaverðlaunanna 2023. Þorsteinn hefur komið að stofnun fleiri lyfjaþróunarfyrirtækja, eins og Cyclops og Lipid Pharmaceuticals, og eftir hann liggur fjöldi stórmerkilegra uppfinninga á sviði lyfja- og læknisfræði en þeim til verndar hafa tugir einkaleyfa verð skráðir í fjölmörgum þjóðlöndum.
Þorsteinn er afar afkastamikill vísindamaður og hefur birt yfir 300 ritrýndar greinar og nokkrar bækur. Þá hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar á ferlinum, þar á meðal heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 2015 en þau eru veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu fræðasviði og miðlað þekkingu til framfara í íslensku þjóðfélagi. Auk þess er Þorsteinn einn örfárra Íslendinga sem komist hafa á sérstakan lista yfir þá vísindamenn sem hafa mest áhrif á sínu vísindasviði í heiminum.
Guðrún Pétursdóttir, prófessor emerita við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, og Þorsteinn Loftsson, prófessor emeritus við Lyfjafræðideild, voru sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á hátíðlegri athöfn á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn 17. júní. MYNDIR/ Forsetaembættið/Eyþór Árnason