Skip to main content
3. júní 2019

Toshizo Watanabe sæmdur hinni íslensku fálkaorðu 

""

Toshizo Watanabe, stofnandi Watanabe-styrktarsjóðsins við Háskóla Íslands, var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 22. maí sl. Orðuna fékk Watanabe fyrir framlag sitt til eflingar fræða- og menntasamstarfi milli Íslands og Japans en fálkaorðan er æðsta heiðursmerki sem íslenska ríkið veitir einstaklingum.  

Toshizo Watanabe færði Háskóla Íslands peningagjöf að upphæð þrjár milljónir Bandaríkjadala árið 2008 og þá var Watanabe-styrktarsjóðurinn við Háskóla Íslands stofnaður. Árið 2018 lagði Watanabe tvær milljónir dala til viðbótar í sjóðinn og er höfuðstóll hans því fimm milljónir dala, jafnvirði um 600 milljóna króna. Í kjölfar þessa myndarlega viðbótarframlags hefur verið hægt að auka verulega fjölda styrkja sem veittir eru úr sjóðnum ár hvert en alls hafa 90 nemendur og vísindamenn hlotið styrk úr sjóðnum frá því að fyrst var úthlutað úr honum árið 2011.

Watanabe-styrktarsjóðnum er ætlað að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans en fyrir tilstilli hans hafa stúdentar við Háskóla Íslands fengið tækifæri til að stunda nám við japanska háskóla og japanskir stúdentar sótt nám við Háskólann. Sjóðurinn hefur einnig styrkt fræðimenn við Háskóla Íslands til rannsóknardvalar í Japan og sömuleiðis starfssystkin við japanska háskóla til dvalar hér og þannig stuðlað að auknu rannsóknasamstarfi milli Íslands og Japans á ýmsum fræðasviðum.

Tilkoma sjóðsins hefur styrkt verulega samskipti og samvinnu milli japanskra háskóla og Háskóla Íslands. Í Háskólanum er boðið upp á nám í japönsku og japanskri menningu við Mála- og menningardeild á Hugvísindasviði en flestir nemendur í japönsku taka hluta námsins í einum af þeim tuttugu japönsku háskólum sem Háskóli Íslands hefur tvíhliða samning við. Fjöldi nemenda í japönsku hefur næstum þrefaldast frá stofnun Watanabe-styrktarsjóðsins og eru þeir nú um 100 talsins. Er það skýr vitnisburður um áhrif sjóðsins á samskipti þjóðanna tveggja. Þrettán námsmenn frá Háskóla Íslands eru nú í skiptinámi í Japan og 15 japanskir nemendur stunda nú nám við Háskólann. Þá hafa 44 vísindamenn og og nemendur í framhaldsnámi (meistara- og doktorsnámi) á fjölbreyttum fræðasviðum verið styrktir til að sinna fræðastörfum og taka þátt í rannsóknasamstarfi, bæði til að fara frá Háskóla Íslands til Japan og frá Japan hingað til lands í sömu erindagjörðum.

Forsaga stofnunar Watanabe-sjóðsins er einkar áhugaverð. Toshizo Watanabe, sem er frumkvöðull og einn af aðstandendum Nikken-fyrirtækisins í Bandaríkjunum, sótti á yngri árum skiptinám  við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum. Þar kynntist hann Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Watanabe vildi endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamla skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.

Toshizo Watanabe situr í stjórn sjóðsins ásamt ásamt Má Mássyni, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, sem er formaður stjórnar, og Kristínu Ingvarsdóttur, dagskrárstjóra í Norræna húsinu. 

Háskóli Íslands óskar Toshizo Watanabe til hamingju með fálkaorðuna og þakkar innilega fyrir velvild og rausnarskap í garð Háskóla Íslands.
 

Toshizo Watanabe, stofnandi Watanabe-styrktarsjóðsins við Háskóla Íslands, tekur við íslensku fálkaorðunni úr hendi Guðna T. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Bessastöðum á dögunum.
Toshizo Watanabe ásamt forseta Íslands, rektor Háskóla Íslands, eiginkonu sinni og sendiherra Japans á Íslandi.
""