Skip to main content
5. nóvember 2021

Þurfum að nýta styrkleika og áhugasvið nemenda í stærðfræðinámi

Þurfum að nýta styrkleika og áhugasvið nemenda í stærðfræðinámi - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Við þurfum að hlusta á nemendur okkar og hjálpa þeim að gera sér grein fyrir skilningi sínum á stærðfræði. Mikilvægt er nemendur fái að nýta sér styrkleika sína í náminu og vinna saman að því að leysa verkefni. Opin verkefni þar sem leita þarf upplýsinga, rannsaka og vinna úr gögnum til að finna lausn eru dæmi um viðfangsefni sem allir nemendur geta tekið þátt í að leysa, hver á sínum forsendum,“ segir Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent við HÍ, en hún er ein skipuleggjenda alþjóðlegrar ráðstefnu um stærðfræðinám fyrir alla sem hófst í gær.  

Á dagskrá eru 36 erindi í ellefu málstofum, þrír lykilfyrirlestrar og vinnustofur. Flytjendur koma frá öllum Norðurlöndum auk Þýskalands og Hong Kong. Markmiðið með ráðstefnunni er að rannsakendur og kennarar komi saman til að ræða um hvernig við getum tryggt jafnan aðgang allra að gæðastærðfræðinámi. Í ár er sérstök áhersla á að vinna í anda fjórða markmiðs Sameinuðu þjóðanna sem miðar að því að allir öðlist jafnan rétt til menntunar fyrir 2030.      

Edda Óskarsdóttir, dósent við HÍ, situr einnig í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar. Hún flytur  lykilfyrirlestur á ráðstefnunni í dag sem fjallar um hvernig mennta þurfi kennara til að kenna fjölbreyttum hópi nemenda. „Þetta á við kennslu almennt og líka í tengslum við stærðfræði,“ segir Edda, sem varði doktorsritgerð við HÍ um skipulag sérkennslu og stuðnings árið 2017.  

Kennarinn þarf að þekkja nemendur sína vel 

Margar leiðir eru færar til að skipuleggja árangursríka sérkennslu í stærðfræði að sögn Eddu. „Það er mikilvægt að hafa í huga að allir nemendur hafa styrkleika á einhverju sviði sem hægt er að nýta til að styðja þá í að takast á við það sem reynist þeim erfitt í námi. Þannig þarf kennarinn að þekkja nemendur sína vel, átta sig jafnvel á styrkleikum þeirra og áhuga og á því sem þeir eiga erfiðara með og hafa ekki áhuga á. Kennslan, hvort sem um sérkennslu eða almenna kennslu er að ræða, snýst þá um að stefna að ákveðnu marki og fara leiðir að markinu sem bæði ögrar nemandanum en vekur áhuga hans um leið. Byggja þarf á því sem nemandinn kann og er öruggur með.“   

Þegar sérkennsla í stærðfræði er skipulögð skal hafa nemendur með í ráðum þannig að þeir sjái tilganginn með því að fá aðstoð. „Það felst mikill ávinningur í því að nemendur setji sér sjálfir markmið. Helst ætti að reyna að hafa fjölbreytta hópa saman í stuðningi og passa upp á að enginn nemandi sé sá sem alltaf er tekinn út úr hópnum. Ef kostur er, þá á að reyna að láta nemendur læra hver af öðrum, styðja hver annan og vinna saman að lausn verkefna. Þannig græða allir,“ lýsir Edda.  

Jónína Vala bætir við að kennarar þurfi að huga vel að námsumhverfinu og tryggja að allir nemendur hafi aðgang að námsgögnum og tækjum sem styðja þá við námið. „Upplýsingatækni og hlutbundin gögn ættu að vera aðgengileg öllum nemendum. Þeir þurfa að læra að nota tækin til að leysa verkefni, rannsaka og gera tilraunir sem auðvelda þeim að dýpka skilning sinn á stærðfræði.“   

Um NORSMA 

Að ráðstefnunni standa norrænu samtökin NORSMA: Nordic research network on special needs education in mathematics sem voru stofnuð árið 2003 af fræðimönnum innan tveggja fagsviða, stærðfræði og sérkennslu. Samtökin standa fyrir ráðstefnum annað hvert ár á Norðurlöndum og í þetta sinn fer ráðstefnan fram á Íslandi þótt hún sé í raun stafræn. Þann 6. nóvember stendur kennurum til boða að taka þátt í þremur vinnustofum um fjölbreytt efni sem stuðla að betri stærðfræðimenntun í leik- og grunnskólum.  

Nánari upplýsinga á norsma10.hi.is

Frá vinstri: Jónína Vala Kristinsdóttir og Edda Óskarsdóttir, báðar dósentar við HÍ. MYND/Samsett