Þróunarverkefni um hópleiðsögn í meistaranámi í HÍ
Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði lýkur um þessar mundir þróunarverkefni um námssamfélag og hópleiðsögn í lokaverkefnum meistaranema. Oddný Sturludóttir doktorsnemi og Jakob Frímann Þorsteinsson og Eygló Rúnarsdóttir, aðjunktar í tómstunda- og félagsmálafræði, segja hér frá tilurð, ávinningi og niðurstöðum þróunarverkefnisins.
Meistaranemum í tómstunda- og félagsmálafræði hefur fjölgað verulega frá árinu 2018 en námsbrautin sjálf er ung að árum, fámenn og flest leiðbeinenda með takmarkaða reynslu af leiðsögn meistaranema. „Meistaraverkefni nemenda okkar eru fjölbreytt og metnaðarfull enda eru þau mörg hver öflugir leiðtogar af vettvangi og hokin af reynslu. Lokaverkefnin þeirra eru því mikilvægur liður í að skapa nýja þekkingu, styrkja stöðu vettvangs og efla fagmennsku. Ein helsta áskorun meistaranema hefur þó verið að takast á við 30 eininga lokaverkefni sem tafið hefur mörg þeirra í náminu. Með þessar áskoranir í huga sóttum við í námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði um styrk til kennslumálasjóðs með það að markmiði að þróa námssamfélag um hópleiðsögn meistaraverkefna til að efla bæði leiðbeinendur og meistaranema í ferlinu við að móta og skrifa lokaverkefni,“ segir Oddný Sturludóttir doktorsnemi sem ásamt Jakobi Frímanni Þorsteinssyni, aðjunkt og nýdoktor, og Eygló Rúnarsdóttur aðjunkt sóttu um og hlutu 4.m.kr. styrk frá Kennslumálasjóði árin 2022-2024.
Styrkurinn nýttist á tvo vegu; annars vegar til þróunar á samstarfi námsbrautarinnar við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands og prófessora úr tveimur deildum Menntavísindasviðs sem hafa undanfarin ár þróað hópleiðsögn með myndun námssamfélags meistaranema um lokaverkefni sín og þróun netverks háskólakennara, nemenda og fagvettvangs um rannsóknarritgerðir framhaldsnema í tómstunda- og félagsmálafræði.
„Rannsóknir hafa líka sýnt að tengslanet nemenda skiptir öllu máli til að sporna gegn brotthvarfi úr námi“
Eygló segir hópleiðsögn meistaranema byggja á hugmyndum um lærdómssamfélög og fjölbreyttar auðlindir nemenda og kennara. „Nemendur okkar búa yfir reynslu sem er fjölbreytt og í námssamfélaginu hafa nemendur fengið rými til að deila reynslu, viðhorfum sínum og miðla sinni fræðilegu þekkingu. Í námssamfélaginu höfum við öll upplifað að bjargráðum okkar hefur fjölgað, leiðsögnin hefur eflst og þar með trú leiðbeinenda og nemenda á eigin getu,“ segir Eygló og Jakob Frímann bætir við: „Í námssamfélagi nemenda og leiðbeinenda getur skapast nokkurs konar „milli“rými þar sem gefst tækifæri til að fara í könnunarleiðangur um menningu og viðhorf gagnvart lokaverkefnum, hlutverk bæði nemenda og leiðbeinenda og sýn á tengsl lokaverkefna, fræðasamfélags og vettvangs. Augljós ávinningur námssamfélags meistaranema er vitanlega sá að einangrun nemenda er rofin og stuðningur eykst þeirra á milli. Það á mjög vel við okkar nemendur, sem eru félagsverur sem hafa valið sér þennan vettvang því þeir þrífast á félagslegum samskiptum og samveru. Rannsóknir hafa líka sýnt að tengslanet nemenda skiptir öllu máli til að sporna gegn brotthvarfi úr námi,“ segir Jakob og bendir á að í ferlinu hafi jafnframt verið tekin til skoðunar siðferðileg álitamál í námssamfélagi nemenda og leiðbeinenda þar sem valdastaðan sé ólík og því mikilvægt að hlusta eftir röddum nemenda.
Þróunarverkefnið hófst haustið 2022 og í desember 2024 höfðu 26 meistarasmiðjur verið haldnar með þátttöku 17 nemenda. Oddný, Jakob Frímann og Eygló leiddu verkefnið fyrir hönd námsbrautarinnar og söfnuðu fjölbreyttum gögnum jafnt og þétt frá upphafi verkefnisins en teymið var jafnframt leiðbeinendur margra meistaranema.
„Nemendur upplifa umhyggju af hálfu leiðbeinenda“
„Mentorar verkefnisins, prófessorarnir Karen Rut Gísladottir, Hafdís Guðjónsdóttir og Svanborg Rannveig Jónsdóttir, sameinuðust í samtali með okkur leiðbeinendum með aðferðafræði starfstengdrar sjálfsrýni sem leiðarljós. Starfstengd sjálfsrýni (e. self-study) getur verið leið háskólakennara til að styrkja sig í leiðsögn og gera hana öflugri. Með þessari rýni höfum við greint gildi og ávinning námssamfélagsins, bæði fyrir okkur leiðbeinendur en einnig fyrir nemendur okkar,“ segir Eygló.
Gögnum var safnað með fjölbreyttum hætti, m.a. með upptökum og skjölum frá vinnu- og samráðsfundum leiðbeinenda og mentora og fundum leiðbeinenda með Kennslumiðstöð Háskóla Íslands. „Gögnin sem fönguðu sjónarmið nemenda eru m.a. rýnihópaviðtöl sem Kennslumiðstöð leiddi, svokallaðir mánudagspóstar nemenda til leiðbeinenda og útgöngumiðar nemenda úr samveru í meistarasmiðjum námssamfélagsins. „Ljósmyndir, Fésbókarsíða námssamfélagsins og leiðarglærur úr meistarasmiðjum varpa einnig ljósi á ferlið. Við höfum þemagreint þessi gögn og stefnum á að birta fræðigreinar um þetta ferðalag á næstu tveimur árum“ segir Jakob Frímann.
„Niðurstöður verkefnisins leiða í ljós að þátttaka nemenda í námssamfélaginu styður faglega, námslega og félagslega við þau sjálf í ferlinu, frá verkefnahugmynd til lokaskila. Nemendur upplifa umhyggju af hálfu leiðbeinenda og tilgreina sérstaklega mikilvægi þess að geta nýtt sér ólíka styrkleika þeirra. Þeir upplifa námssamfélagið sem öruggt rými sem grípi þá þegar sjálfsefinn gerir vart við sig. Hvað okkur sjálf varðar þá hefur þátttaka í námssamfélaginu eflt trú okkar á eigin getu í leiðsögn og dregið úr óöryggi gagnvart leiðsagnarhlutverkinu,“ segir Oddný og Eygló bætir við: „Niðurstöðurnar benda líka til þess að við sem leiðbeinendur höfum stigið inn í hugmyndir um hópleiðsögn í námssamfélagi með því að sýna bæði berskjöldun og auðmýkt, með væntingar til bæði nemenda og leiðbeinendateymisins, af umhyggju fyrir nemendum og af eldmóði fyrir hinum unga fagvettvangi tómstunda- og félagsmálafræðinnar. Við vonum að þróunarverkefnið varpi skýru ljósi á mikilvægi þess að festa námssamfélag um meistaraverkefni í sessi innan háskólasamfélagsins. Það væri til hagsbóta fyrir nemendur, kennara og háskólasamfélagið í heild sinni.“
Niðurstöður verkefnisins voru kynntar í tveimur erindum á málstofu um háskólakennslu á Menntakviku þann 27. september 2024. Erindið „Að festa námssamfélag um meistaraprófsverkefni í sessi – fyrir hverja og af hverju?“ má kynna sér hér og erindið „Að stíga inn í hugmyndir um hópleiðsögn – reynsla leiðbeinenda í tómstunda- og félagsmálafræði af þróunarverkefni um námssamfélag“ má kynna sér hér. Erindi teymisins á ráðstefnu Kennsluakademíu opinberu háskólanna þann 21. nóvember 2024 má kynna sér hér.