Skip to main content
23. desember 2024

Þróa nýjar aðferðir til að bæta varðveislu torfbæja

Þróa nýjar aðferðir til að bæta varðveislu torfbæja - á vefsíðu Háskóla Íslands

Torfbæir eru einn helsti byggingar- og menningararfur Íslendinga. Þeir hafa sumir staðið í hundruð ára og gefa okkur innsýn inn í líf forfeðra okkar. Nú á dögum eru þetta helst safngripir sem ber að vernda og það getur verið flókið. Torf getur verið óútreiknanlegt byggingarefni, þar til núna. Í nýrri rannsókn er nefnilega í fyrsta sinn verið að greina torfbæi með aðferðum byggingarverkfræðinnar. 

Vilja fylgjast með mörgum húsum í einu

Dórótea Höeg Sigurðardóttir, lektor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, vinnur ásamt fleiri sérfræðingum við HÍ og Þjóðaminjasafnið að rannsókn sem á að auka skilning okkar á byggingareðlisfræði og burðarþoli torfbæja með það að markmiði að bæta varðveislu þeirra. Þetta eru sérfræðingar í íslenskum byggingararfi, varðveislu bygginga, byggingarverkfræði, byggingareðlisfræði, mælitækni í byggingum og efnisfræði bygginga. Verkefnið er bæði unnið á rannsóknarstofu og á vettvangi.

torfbaer

Dórótea að störfum við einn torfbæjanna. MYND/Úr einkasafni

„Þetta er samstarfsverkefni milli Þjóðminjasafns Íslands og Háskóla Íslands. Þau sem sem voru yfir húsasafninu hjá Þjóðminjasafninu vantaði byggingatæknilegar ráðleggingar og að geta búið til einhvers konar aðferðir til þess að geta fylgst með mörgum húsum í einu og geta forgangsraðað hvaða húsum þyrfti að viðhalda á hverjum tíma,“ segir Dórótea um upphaf samstarfsins.

Um allan heim má finna einhvers konar moldarbæi og torfbæir eru ekki alíslensk fyrirbæri en Dórótea segir enga vera af sama meiði og þá íslensku. Rannsóknir hafi verið gerðar á gömlum byggingarhefðum í löndum Evrópusambandsins en að enginn hafi byggt nákvæmlega eins og Íslendingar.

Munur á torbæjum eftir landshlutum

Rannsóknin er sú fyrsta á íslenskum torfbæjum þar sem reynt er að nota aðferðir byggingarverkfræðinnar til þess að greina þá. Markmiðið er að þróa aðferðir til að vakta ástand torfbæja til þess að hægt sé að byggja ákvarðanir um viðhald þeirra á gögnum. Þetta er gert með því að mæla raka og hitastig ásamt því að skoða hreyfingar á timburgrindinni í húsunum með þrívíddarskanna með það fyrir augum að skoða ástandið á torfinu og átta sig betur á byggingarefninu. Markmiðið er einnig að þróa þessar aðferðir við mælingar svo hægt sé að fylgjast með mörgum húsum í einu og viðhalda þeim á árangursríkari hátt.

Verkefnið hlaut styrk í upphafi árs 2024 og á vormánuðum voru sett upp mælitæki á Keldum á Rangárvöllum. Það sama var gert að Laufási í Eyjarfirði í október og þar er því búið að safna gögnum í um mánuð. Dórótea bendir á að áhugavert sé að kanna muninn torfbæjum á ólíkum landssvæðum og segir að helsta ástæða þess að hafi byrjað á húsum bæði fyrir norðan og sunnan hafi verið sú að þar sé munur á þykkt á torfi og hvernig uppbyggingin á þaki sé ólík.

torfbaer

Dórótea segir að munurinn á torfbæjunum snúist að einhverju leyti um veðurfar. „Það er hægt að byggja úr meira torfi fyrir norðan því þar eru veturnir venjulega kaldari og ekki eins umhleypingasamir. Torfið heldur því formi sínu betur. Fyrir sunnan eru bæirnir oftast úr grjóti og torfi og menn reyna að þekja stærstan hluta þeirra með torfþekju til þess að vernda gegn vatni en fyrir norðan er þurrara og kaldara þannig að það er ekki eins mikil þörf á að passa að moldin skolist ekki burt,“ bendir hún á.

Verkefnið er tiltölulega nýfarið af stað og því ekki komnar niðurstöður. „Við sjáum í frumgreiningu að það var mjög blautt sumar og torfið er mjög blautt. En annars höfum við ekki farið í neinar dýpri greiningar enn þá. Við erum helst að safna gögnum áður en við förum í miklar greiningar.“
 

Rannsóknin er sú fyrsta á íslenskum torfbæjum þar sem reynt er að nota aðferðir byggingarverkfræðinnar til þess að greina þá. Markmiðið er að þróa aðferðir til að vakta ástand torfbæja til þess að hægt sé að byggja ákvarðanir um viðhald á torfbæjum á gögnum. Þetta er gert með því að mæla raka og hitastig ásamt því að skoða hreyfingar á timburgrindinni í húsunum með þrívíddarskanna með það fyrir augum að skoða ástandið á torfinu og átta sig betur á byggingarefninu.

Lifandi byggingarefni sem þarf að viðhalda

Eiginleikar torfs sem byggingarefnis eru ekki eins þekktir og margra annarra efna. Torf er að mestu leyti mold með miklum rótarflækjum og er efsta lag torfsins lifandi gras. Hér er því á ferðinni lifandi byggingarefni og gerir Dórótea fastlega ráð fyrir að sjá hreyfingar í því en ekki er vitað nákvæmlega hver hraði hreyfinganna er. Fyrstu skannanir með þrívíddarskanna hafa gefið hópnum ákveðna mynd en fleiri skannanir verða gerðar vor, sumar og haust 2025 og þá verður hægt að bera saman myndir. Verkefnið er að sögn Dóróteu til þriggja ára en aðferðirnar sem er verið að þróa gætu nýst miklu lengur að hennar sögn.

Dórótea bendir á að ef burst er látin standa óáreitt er áætlað að hún hrynji á um þrjátíu árum. „Flestir þessir bæir sem eru í eigu Þjóðminjasafnsins eru hefðarsetur. Þetta eru oft prestsetur þannig að langflest húsin sem enn þá eru til voru hús þar sem ríkt fólk bjó. Mjög lítill hluti þessara húsa er „upprunalegur“ því það er alltaf verið að halda þeim við. Það þarf að byggja þau upp með mjög jöfnu millibili. Það er þekkt að þeir sem bjuggu í þessum húsum endurbyggðu hluta þeirra á nánast hverju ári en þurftu fyrst að taka efni niður og byrja upp á nýtt. Þannig að það er ekki mikið af þessum húsum sem eru upprunalega, þannig séð. Byggingarhefðin er upprunaleg og útlitið sömuleiðis en sjálf efnin eru það ekki,“ bendir hún á.

Aðrar áskoranir sem fylgja því að torfbæir séu safngripir

Dórótea segir verkefnin vera mikilvægt fyrir vísindin en ekki síður menningu Íslands. „Fyrir vísindin er þetta mjög áhugavert verkefni til að skilja torf sem byggingarefni. Viljum við kannski nota það meira? Viljum við skilja betur einangrunareiginleika þess? Eiginleikana til þess að veita burt vatni?“ spyr Dórótea.

Hún bendir á að um mikilvægan menningararf fyrir íslenskt samfélag sé að ræða og áríðandi sé að þau sem að beri ábyrgð á honum kunni að fara með hann og halda honum við svo að sú þekking glatist ekki. „Það býr enginn í þessum húsum lengur. Þetta eru safngripir. Það breytir líka að vissu leyti hegðun hússins af því að það er ekki sama hitastigið inni í húsunum og áður. Þau eru líklega blautari. Það er þurrara þegar fólk býr í húsinu og það er eldað í því,“ bendir hún á.

kennsla

Dórótea við kennslu í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

Dórótea segist spennt að sjá hvað kemur úr verkefninu og vonast til þess að á grundvelli rannsóknarinnar verði hægt að búa til handbók um íslenska torfbæinn og hvernig á að umgangast hann á aðgengilegu formi.

Höfundur greinar: Ísabella Sól Ingvarsdóttir, BA-nemi í blaðamennsku

Dórótea Höeg Sigurðardóttir