Þróa leikjaforrit sem á að flýta fyrir greiningu á heilabilun

Fjórar vinkonur úr menntaskóla, sem nú stunda nám við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands, hafa tekið saman höndum og unnið að þróun leikjaforrits sem ætlað er að flýta fyrir greiningu á heilabilun. Verkefnið er afar gott dæmi um það hvernig ólíkar fræðigreinar eru nýttar í sameiningu til að leysa vanda en stöllurnar fjórar tóku þátt í nýsköpunarkeppninni Gullegginu fyrr í vetur sem reyndist þeim afar dýrmætt.
Að verkefninu standa þær Júlía Sóley Gísladóttir, Fehima Líf Purisevic, Ingibjörg Sigurðardóttir og Katla Rut Robertsdóttir Kluvers. „Við vissum af Gullegginu og langaði að taka þátt en vorum upprunalega ekki með hugmynd. Við hittumst og tókum smá „brainstorm session“ þar sem komu margar góðar hugmyndir upp úr dúrnum. Við erum vinkonur úr menntaskóla og allar nemar við HÍ eða LHÍ, ég og Fehima í læknisfræði, Júlía í vélaverkfræði og Ingibjörg í arkitektúr við LHÍ. Júlía kom með þá hugmynd að vinna áfram með verkefni sem hún hafði unnið að í vélaverkfræðinni, app til að flýta fyrir greiningu á heilabilun. Fehima gerði einmitt BS-verkefni í læknisfræði um heilabilun og okkur fannst þetta smellpassa fyrir Gulleggið, sameinaði bæði læknisfræðina og verkfræðina og var í heilsutæknigeiranum, eitthvað sem okkur langaði að skoða betur,“ segir Katla.
Vilja gera fólki kleift að fylgjast með hugrænni heilsu á skemmtilegan hátt
Heilabilun má oftast rekja til einhvers konar taugahrörnunarsjúkdóma og sá þekktasti og algengasti líklegast Alzheimer-sjúkdómur, en samkvæmt Alzheimer-samtökunum er talið að um 5.000-6.000 manns glími við heilabilun hér á landi. Það er því mikils að vinna að finna lausnir sem nýst geta stórum hópi fólks. Þær stöllur segja margt spennandi vera að gerast í rannsóknum tengdum heilabilun nú um stundir. Ný lyf séu að koma á markað og snemmgreining heilabilunar hafi sjaldan verið jafn raunhæf og núna.
Júlía Sóley kynnir hugmyndina fyrir dómnefnd og áhorfendum á Gullegginu fyrr á þessu ári. MYND/Gulleggið
„Okkar lausn, Viti, er er hugörvandi leikjaforrit sem notar leiki og þrautir til að flýta fyrir greiningu á heilabilun. Notendur spila daglega hugörvandi leiki og árangursniðurstöður gefa vísbendingar um þróun hugrænnar heilsu yfir tíma. Forritið mun byggjast á spálíkani sem ber niðurstöður saman við fyrri árangur og metur hvort óeðlileg hnignun á hugrænni færni sé að eiga sér stað. Með reglulegri notkun hjálpar forritið við að bera kennsl á ummerki snemmkominnar heilabilunar á einstaklingsmiðaðan hátt. Með Vita viljum við gera einstaklingum kleift að fylgjast með eigin hugrænni heilsu á skemmtilegan og aðgengilegan máta og vonumst jafnframt til þess að hægt verði að nota lausnina til að grípa fyrr inn í heilabilun,“ útskýrir Júlía Sóley.
Að sögn þeirra vinkvenna er forritið þó enn á frumstigi en Júlía vinnur nú að gerð meistaraverkefnis sem gengur út á smíði spálíkans sem metur áhættu einstaklinga á að greinast með Alzheimer-sjúkdóminn á næstu árum. Meðal annars með því að skoða frammistöðu í þrautum og leikjum líkt og Viti hyggst nota. „Mikilvægt er að leikirnir sem yrðu notaðir í Vita geti raunverulega gefið vísbendingar um hugræna hnignun. Til að slíkt sé hægt að staðfesta þarf fyrst að gera rannsóknir á leikjunum, sjá hvort að raunveruleg tengsl séu á milli árangurs notenda í leikjum og hugrænnar starfsemi,“ bendir Fehima á.
Þær stöllur segja að þegar hafi verið sýnt fram á slíkt fyrir ýmsa leiki, t.d. minnisleikinn Memory og spilaleikinn Solitaire sem mörg þekkja. „Með auknum fjölda notenda er hægt að bæta spálíkanið frekar. Eftir að það ferli er komið af stað eru möguleikarnir fjölmargir, heilabilun er vaxandi vandamál á heimsvísu og þörf er á skimunar- og snemmgreiningarúrræðum. Einnig eru miklar framfarir í lyfjaþróun fyrir heilabilun og lausn eins og okkar gæti gagnast við prófanir á gagnsemi slíkra lyfja,“ segir Katla.
Hér eru þær stöllur að æfa sig fyrir kynningu á hugmynd sinni fyrir úrslitin í Gullegginu. Í baksýn er kennimerki/logo hugmyndarinnar Vita.

Gulleggið nýttist vel til að laga galla í hugmyndinni
Nýsköpunarkeppnin Gulleggið hefur verið haldin um árabil og hefur í gegnum tíðina reynst ungum frumkvöðlum afar vel við þróun hugmynda sinna. Þær vinkonur bera keppninni afar góða söguna. „Gulleggið er stærsta nýsköpunarkeppni á landinu og er mjög aðgengileg og sniðug fyrir byrjendur í frumkvöðlaheiminum. Það er auðvelt að taka þátt og maður fær góða aðstoð við gerð umsókna inn í lokakeppnina. Þar er hægt að fínpússa hugmyndina og ræði kosti hennar og galla. Mesti skólinn felst ef til vill í því að koma auga á gallana og laga þá með teyminu. Það hafði því góð áhrif á verkefnið að fara í gegnum nýsköpunarhraðal Gulleggsins,“ segir Ingibjörg en verkefni þeirra komst í 10 teyma úrslit keppninnar í ár.
Aðspurðar um erfiðustu áskoranirnar í kringum verkefnið segja þær stöllur að þær hafi fljótt komist að því að jafn metnaðarfullt verkefni og þetta krefðist mikillar vinnu. „Tæknilegar útfærslur voru einnig margar. Við erum allar í fullu námi og það hefur verið krefjandi hvað verkefnið reyndist stórt í sniðum. Júlía vinnur nú að meistaraverkefni sem að skilar sér í mjög góðum fræðilegum grunni fyrir verkefnið og það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Annað sem var krefjandi voru að samstilla ólík sjónarmið úr heimi verkfræðinnar, læknisfræði, nýsköpunar og hönnunar. Einnig komu upp ýmis siðferðileg álitamál t.d. um eðli og gerð skimana, sem er eðlilegt þegar sjúkdómar og fólk eiga í hlut,“ bætir Ingibjörg við.
Aðstandendur hugmyndanna tíu sem komust í úrslit Gulleggsins. MYND/Gulleggið
Þverfræðilegt verkefni þar sem námið nýtist vel
Nám þeirra vinkvenna við HÍ og LHÍ hefur nýst þeim afar vel í verkefninu. „Júlía Sóley sá um forritunarhluta verkefnisins og tæknilegar hliðar, hún gerði jafnframt frumgerð af forritinu fyrir lokakeppni Gulleggsins. Við Katla erum á fimmta ári í læknisfræði og sáum um þróun hugmyndarinnar frá læknisfræðilegu sjónarmiði, fræðilega þekkingu um heilabilun og einkenni, greiningu og skimanir fyrir sjúkdómnum. Ég vann BS-verkefni undir handleiðslu Helgu Eyjólfsdóttur, öldrunarlæknis og kennara við HÍ, sem að var okkur innan handar við gerð verkefnisins. Ingibjörg hefur séð um um hönnunarhluta verkefnisins, útlit og notendaviðmót,“ segir Fehima um þetta þverfræðilega verkefni þar sem styrkleikar hverrar og einnar í teyminu eru nýttir afar vel.
Þegar talið berst að framtíðaráformum með Vita benda þær vinkonur á að verkefnið sé stórt í sniðum og þarfnist frekari þróunar áður en hægt væri að koma því til notenda. Ýmiss konar spennandi þróun eigi sér stað í tengslum við greiningu og meðferð heilabilunar um þessar mundir. „Verið er að þróa blóðpróf og myndgreiningartækni til að reyna að bera kennsl á snemmkomnar breytingar í heilabilun. Breytingarnar sem að benda til heilabilunar koma nefnilega oft fram löngu áður en greining á sér stað og þetta er tími sem mögulega væri hægt að grípa inn í og vinna með áhættuþætti eða nota ný lyf sem að stuðla að seinkun sjúkdómsins. Það verður hins vegar að koma í ljós hvort Viti verði með í þessari spennandi þróun þar sem við erum allar önnum kafnar í skóla og vinnu,“ segja þær vinkonur að endingu.
Júlía Sóley Gísladóttir, Fehima Líf Purisevic, Ingibjörg Sigurðardóttir og Katla Rut Robertsdóttir Kluvers standa saman að verkefninu Viti. MYND/Gulleggið