Skip to main content
2. janúar 2021

Þrjú úr Háskóla Íslands hlutu fálkaorðuna á nýársdag

Þrjú úr Háskóla Íslands hlutu fálkaorðuna á nýársdag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor emerita við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við sama svið, hlutu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til fræða og vísinda við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag. Alls hlutu 14 Íslendingar heiðursmerkið að þessu sinni. 

Jón Atli Benediktsson hlýtur orðuna fyrir framlag til alþjóðlegra vísinda og nýsköpunar á sviði fjarkönnunar og stafrænnar myndgreiningar og störf í þágu háskólamenntunar.

Jón Atli Benediktsson

Jón Atli Benediktsson ásamt forsetahjónunum, þeim Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, á Bessastöðum. MYND/Gunnar Vigfússon

Jón Atli lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1984, M.S.E.E. prófi frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum 1987 og doktorsprófi í rafmagnsverkfræði 1990 frá sama skóla. Hann hóf störf sem lektor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands árið eftir en árið 1994 fékk hann framgang í starf dósents og í starf prófessors árið 1996. Hann var aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands og forstöðumaður Miðstöðvar framhaldsnáms frá árunum 2009-2015, formaður vísindanefndar háskólaráðs á árunum 1999-2005 og formaður gæðanefndar háskólaráðs 2006-2015.

Jón Atli, sem verið hefur rektor Háskóla Íslands frá árinu 2015, er höfundur meira en 400 fræðigreina og bókarkafla á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar en hún felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Mikið er vitnað til verka Jóns Atla og þá hefur hann fengið margvíslegar viðurkenningar á alþjóðavettvangi og hér heima fyrir rannsóknir sínar.

Nánar um vísindastörf Jóns Atla

Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor emerita við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hlýtur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknir og miðlun þekkingar um mál og málnotkun, málþroska barna og þróun læsis. 

Hrafnhildur Ragnarsdóttir

Hrafnhildur Ragnarsdóttir ásamt forsetahjónunum, þeim Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, á Bessastöðum. MYND/Gunnar Vigfússon

Hrafnhildur státar af BA-gráðum bæði frá Macalester College í St. Paul Minnesota í Bandaríkjunum og Université d´Aix-Marseille í Frakklandi. Hrafnhildur lauk meistaraprófi í sálfræði frá síðarnefnda skólanum árið 1974 og doktorsprófi í sömu grein frá sama skóla árið 1990.

Hrafnhildur hefur gegnt fastri stöðu sem fræðimaður, fyrst við Kennaraháskóla Íslands og síðar Menntavísindasvið, frá árinu 1976. Hún gegndi fjölmörgum ábyrgðarstöðum fyrir Kennaraháskóla Íslands á sínum starfsferli. Hún sat m.a. lengi í skólaráði, var aðstoðarrektor og stofnaði og veitti forstöðu fyrstu rannsóknarstofu skólans. Hún sat einnig i stjórn Rannís, ESF og NorFa um árabil. 

Eftir sameiningu KHÍ og HÍ stofnaði Hrafnhildur Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi barna og unglinga. Hrafnhildur hefur dvalið langdvölum við erlenda háskóla og lengi verið í eldlínunni í rannsóknum á sviði þroska- og sálmálvísinda hér á landi. Hrafnhildur er afkastamikill fræðimaður og hefur birt ótal greinar í íslenskum og erlendum tímaritum og bókum.

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hlýtur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til knattspyrnu kvenna og baráttu gegn einelti. 

Vanda Sigurgeirsdóttir

Vanda Sigurgeirsdóttir ásamt forsetahjónunum, þeim Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, á Bessastöðum. MYND/Gunnar Vigfússon

Vanda lauk meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræð frá Háskóla Íslands árið 2003 og leggur nú stund á doktorsnám í félagsráðgjöf við skólann þar sem viðfangsefnið er einelti. Hún hefur um árabil verið í hópi helstu sérfræðinga landsins á því sviði og unnið bæði með skólum, sveitarfélögum og fleiri aðilum að því að uppræta þennan vágest. Vanda hefur fengið viðurkenningar fyrir störf sín á sviði eineltis- og samskiptamála. Þá er Vanda einn eigenda fyrirtækisins KVAN sem sérhæfir sig í þjálfun félags-, samskipta-, leiðtoga- og vináttufærni fólks.

Vanda var á árum áður í hópi fremstu íþróttakvenna landsins og á að baki landsleiki í bæði knattspyrnu og körfuknattleik. Þá hefur hún starfað sem knattspyrnuþjálfari í um þrjá áratugi og var m.a. fyrsta konan til þess að þjálfa karlalið hér á landi árið 2001.

Háskóli Íslands óskar þeim Jóni Atla, Hrafnhildi og Vöndu innilega til hamingju með fálkaorðuna.
 

Hrafnhildur Ragnarsdóttir, Jón Atli Benediktsson og Vanda Sigurgeirsdóttir