Skip to main content
9. september 2025

Þrír sérfræðingar til liðs við inngildingarverkefni opinberra háskóla

Þrír sérfræðingar til liðs við inngildingarverkefni opinberra háskóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír sérfræðingar í innflytjenda- og menntamálum, þau Artem Ingmar Benediktsson, Hrafnhildur Kvaran og Lara Wilhelmine Hoffmann, hafa gengið til liðs við verkefnið „Inngilding í íslensku háskólasamfélagi“. Hlutverk þeirra er m.a. að þróa mótttökuáætlanir, stuðning, fræðslu og inngildingarstefnu með það fyrir augum að fjölga nemendum með erlendan bakgrunn í háskólanámi.

Verkefnið fékk styrk árið 2024 úr Samstarfi háskóla, sjóði á vegum ráðuneytis háskólamála sem ætlað er að styðja við aukið samstarf háskólanna í landinu. Háskóli Íslands leiðir samstarf opinberu háskólanna í verkefninu, sem miðar að því að auka þátttöku og jafna tækifæri innflytjenda og nemenda með erlendan bakgrunn í háskólanámi. 

Með ráðningu sérfræðinga sem búa yfir víðtækri reynslu af innflytjenda- og menntamálum undirstrika háskólarnir mikilvægi þess að efla inngildingu í háskólasamfélaginu. 

Artem Ingmar Benediktsson hefur sterkan bakgrunn í menntavísindum og tungumálum og hefur starfað sem rannsakandi og kennari í Noregi og á Íslandi. Hann er með doktorsgráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands. Í verkefninu mun hann leggja áherslu á þróun móttökuáætlana, stuðningsúrræða og fræðslu.  

Hrafnhildur Kvaran býr yfir víðtækri reynslu af málefnum innflytjenda og flóttafólks eftir störf hjá Rauða krossinum, velferðarráðuneytinu og Landspítalanum. Hrafnhildur er doktorsnemi í menntavísindum og mun í verkefninu vinna að gerð inngildingarstefnu og aðgerðaáætlunar fyrir háskólana. Hrafnhildur og Artem hafa starfsaðstöðu hjá Háskóla Íslands. 

Lara Wilhelmine Hoffmann hefur verið ráðin til starfa við verkefnið hjá Háskólanum á Akureyri. Hún er með doktorspróf í félagsfræði og hefur víðtæka reynslu af rannsóknarstörfum tengdum innflytjendum og samfélagsþátttöku þeirra. Hún hefur einnig kennt við háskóla víða á Íslandi og sinnt verkefnastjórn í fjölmörgum samfélagsverkefnum tengdum þátttöku innflytjenda. Lara mun í verkefninu vinna að fræðslu og stuðningi við starfsfólk háskólanna. 

Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, hitti þau Artem og Hrafnhildi ásamt fulltrúum úr stýrihópi verkefnisins fyrir helgi og fékk kynningu á verkefninu. Rektor lagði áherslu á mikilvægi málaflokksins og fjölbreytileika í háskólasamfélaginu og sagðist spennt að fylgjast með afrakstri samstarfsins og að hefja vinnu á grundvelli þess.

Með ráðningum þeirra Artems, Hrafnhildar og Löru bætist dýrmæt þekking og reynsla í hópinn sem stendur að verkefninu sem mun vafalaust nýtast vel við mótun stefnunnar og útfærslu aðgerða sem stuðla að fjölbreyttara og inngildandi háskólasamfélagi. Gert er ráð fyrir niðurstöðum úr verkefninu haustið 2026.