Skip to main content
26. júní 2024

Þriðja árs læknanemi við HÍ fær styrk til rannsóknar við Cambridge-háskóla

Þriðja árs læknanemi við HÍ fær styrk til rannsóknar við Cambridge-háskóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Baldvin Fannar Guðjónsson, þriðja árs nemi í læknisfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr Menntasjóði Læknadeildar. Styrkurinn er veittur vegna vinnu að BS-rannsóknarverkefni við Cambridge-háskóla. Heildarstyrkupphæð nemur 350.000 krónum. 

Rannsóknarverkefni Baldvins Fannars ber heitið „Hagræðing vefjameðhöndlunar og gervigreindartóla fyrir háhraða sjálfvirka mýelíngreiningu“. 

Mýelín eða mýli gegnir lykilhlutverki í því að taugaboð berist hratt um líkamann. Það myndar nokkurs konar slíður eða hjúp utan um langa taugaþræði í líkamanum, ekki síst svokallaða taugasíma. Niðurbrot mýelíns er miðlægt í ýmsum taugasjúkdómum eins og heila- og mænusiggi (MS-sjúkdómnum). 

Rafeindasmásjárskoðun hefur mikið verið nýtt til rannsókna á mýelíni en með þeirri aðferð má taka háupplausnarmyndir sem þarf til að sjá nákvæma byggingu mýelíns. Útlínuteikning í höndum reynist enn best til þess að mæla fjölda mýelíneraðra taugaþráða, þvermál tauga og þykkt mýelíns. Þetta er hins vegar mjög tímafrekt ferli sem takmarkar getu vísindamanna til þess að rannsaka og skilja betur þroskun og starfsemi mýelíns, niðurbrot þess og enduruppbyggingu. Með sjálfvirkri mýelíngreiningu á rafeindasmásjármyndum má mögulega opna nýjar leiðir til rannsókna tengdum líffræði mýelíns og stærri gagnasettum og draga úr hlutdrægni vísindamanna. Í verkefninu skoðaði Baldvin hvort gervigreindartólið AxonDeepSeg (ADS) gæti nýst í slíka mýelíngreiningu auk þess sem hann mat áhrif mismunandi aðferða við svokallað vefjasteypingu á árangur þess. 

Í ljós kom að besta líkan ADS-gervigreindarartólsins, þjálfað á hefðbundinni aðferð við vefjasteypingu, greindi 94.9% tauga rétt en jafnframt að aðferðir við vefjasteypingar hafa áhrif á árangur tólsins við mýelíngreiningu, þar sem bættar aðferðir auka nákvæmni módelsins. Notkun bættra aðferða við vefjasteypingar gæti aukið möguleika ADS sem áreiðanlegs verkfæris fyrir greiningu mýelíns með miklum afköstum.

Leiðbeinandi Baldvins var Ragnhildur Þóra Káradóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Cambridge-háskóla, og meðleiðbeinandi var Sebastian Timmler, nýdoktor við Cambridge-háskóla. Verkefnið var unnið í Cambridge við Wellcome-MRC Cambridge Stem Cell Institute á rannsóknarstofu Ragnhildar Þóru Káradóttur.

Um sjóðinn

Menntasjóður Læknadeildar var stofnaður árið 2019  og hefur það markmið að styðja nemendur í Læknadeild til náms, rannsókna eða símenntunar erlendis ásamt því að styrkja fyrirlestrahald eða fræðslustarf í læknavísindum hérlendis. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Sjóðurinn grundvallast á safni sjóða sem tengjast Læknadeild og læknavísindum og voru sameinaðir. Sjóðirnir eru: Legat Guðmundar Magnússonar prófessors og Katrínar Skúladóttur (1922), Minningarsjóður John McKenna Pearson (2001) og Starfssjóður Læknadeildar (1987).
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar.
 

Baldvin Fannar Guðjónsson, þriðja árs nemi í læknisfræði við Háskóla Íslands, ásamt Sædísi Sævarsdóttur, prófessor og varadeildarforseta Læknadeildar, og Jóni Atla Benediktssyni rektor.
Gestir við afhendingu viðurkenningarinnar. Frá vinstri: Sædís Sævarsdóttir, varaforseti Læknadeildar, Guðjón Baldursson, faðir Baldvins, Francesca Perry-Poletti, unnusta Baldvins, Bryndís Guðjónsdóttir, móðir Baldvins, og Jón Atli Benediktsson rektor.