Taka þátt í norrænu tengslaneti um velferðartækni
Velferðarkerfi Norðurlandanna eru byggð upp á svipaðan máta og ljóst að hlutfall aldraðra í löndunum fer hækkandi, samfara því að viðvarandi og vaxandi skortur er á starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Gert er ráð fyrir auknu álagi á velferðarþjónustu á komandi árum og því mikilvægt að leita leiða til að gera þjónustuna bæði árangursríka og hagkvæma. Aukin áhersla á forvarnir og virkni eldra fólks er mikilvægur þáttur í því.
Með notkun velferðartækni er hægt að styðja við frelsi, sjálfstæði og reisn eldri einstaklinga og því mikilvægt að rannsaka hvaða leiðir eru árangursríkastar við innleiðingu á þjónustu með aðstoð velferðartækni. Velferðartækni felur í sér hvers konar tæknilausnir sem geta stutt við öryggi, virkni, þátttöku og sjálfstæði eldri einstaklinga og þeirra sem glíma við fötlun.
Rannsóknir á viðhorfum og reynslu notenda á velferðartækni eru tiltölulega nýjar af nálinni á Norðurlöndunum. Norrænt tengslanet um rannsóknir á velferðartækni með áherslu á sjónarhorn notenda var sett á laggirnar 2019 á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (e. Nordic Welfare Centre) í Stokkhólmi og samanstendur það af um 90 rannsakendum frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Hlutverk tengslanetsins er að leiða saman rannsakendur m.a. til að sækja um í rannsóknarsjóði og styðja við aukna þekkingamiðlun. Í stýrihópi tengslanetsins eru frá Íslandi þau Atli Ágústsson og Steinunn A. Ólafsdóttir, lektorar við námsbraut í sjúkraþjálfun, og Halldór S. Guðmundsson, dósent við Félagsráðgjafadeild. Verkefnastjóri tengslanetsins er Bengt Andersson sem starfar hjá Norrænu velferðarmiðstöðinni en löndin skiptast á að vera í forsvari í samræmi við formennsku landanna í norrænu ráðherranefndinni.
Stýrihópurinn hittist í Stokkhólmi dagana 3. og 4. desember síðastliðinn þar sem m.a. voru kynntar niðurstöður tveggja rannsókna sem eru í gangi. Fyrri daginn hitti hópurinn jafnframt tvo ráðherra í öldrunarmálum í gegnum Teams, þær Anna Tenje frá Svíþjóð og Mette Kirkegaard frá Danmörku, þar sem þær gerðu stuttlega grein fyrir hvernig velferðartækni er nýtt í þjónustu við eldra fólk í löndunum tveimur og þeirra sýn á framtíðina. Í framhaldinu fóru fram umræður um hvernig velferðartækni getur stutt við skipulag stjórnvalda á þjónustu við eldra fólk í nútíð og framtíð og hvernig tengslahópurinn getur með rannsóknum sínum lagt af mörkum.
Síðari daginn hitti hópurinn svo þrjá fulltrúa stjórnvalda: Aleksi Yrttiaho fré Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti í Finnlandi, Berglindi Magnúsdóttir frá heilbrigðisráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu hér á landi og Bjørnar Alexander Andreassen frá Landlæknisembætti Noregs. Þau ræddu við hópinnum hvers konar rannsóknir þau teldu styðja við þjónustu við eldra fólk í framtíðinni.
Í samtölunum við ráðherrana og fulltrúa stjórnvalda frá löndunum fimm kom fram ákall eftir niðurstöðum rannsókna á hnitmiðaðan og auðskiljanlegan hátt. Öll löndin glíma við skort á starfsfólki í heilbrigðis- og félagþjónustu en mikilvægt er að kynna velferðartækni sem leið til að bæta þjónustu og möguleika til að bæta heilsu, líðan og lífsgæði eldri einstaklinga. Mikilvægt er að norrænu ríkin standi saman og miðli reynslu og árangri íhlutanna þannig að við getum lært hvert af öðru.
Dagskránni lauk með því að stýrihópurinn lagði drög að starfsáætlun fyrir starfsárið 2025 þar sem m.a. verður lögð áhersla á að undirbúa vettvang fyrir rannsakendur til að koma niðurstöðum á framfæri á hnitmiðaðan hátt og vinna með möguleika á auknu samstarfi við Japan.