Skip to main content
27. október 2020

Tæplega 2.200 á sumarnámskeiðum HÍ

""

Tæplega 2.200 manns nýttu sér þau fjölbreyttu námskeið sem Háskóli Íslands bauð upp á í sumar til þess að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins á atvinnulíf í landinu. Næstum fjórðungur nemendanna sótti nám í íslensku sem öðru máli sem undirstrikar ríkan vilja fólks af erlendum uppruna til að læra íslensku.

Háskólar landins ákvaðu í samstarfi og með stuðningi stjórnvalda að bjóða upp á sumarnámið en markmiðið með því var að sporna gegn atvinnuleysi meðal ungs fólks og efla menntun. Fyrirséð var að hefðbundin sumarstörf nemenda í háskólum stæðu ekki til boða í sama mæli og áður vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Alls bauð Háskóli Íslands upp á 123 námskeið á öllum fimm fræðasviðum skólans á tímabilinu 2. júní til 15. ágúst í sumar. Þau voru í senn ætluð núverandi nemendum í grunn- og framhaldsnámi, nýnemum sem hófu nám í haust og öðrum þeim sem vildu auka þekkingu sína og efla sig í starfi. Námskeiðin voru þannig ýmist metin til eininga innan skólans eða almenn námskeið án eininga. Meðal námskeiðanna sem nemendum bauðst að skrá sig í voru alþjóðleg netnámskeið innan edX-samstarfsnetsins, sem Háskóli Íslands tekur þátt í, en skráningar í þau voru nærri 1.300. 

Samanlagðar skráningar í námskeið Háskólans reyndust rúmlega 5.000 sem þýðir að hver nemandi skráði sig í rúmlega tvö námskeið að meðaltali. Konur voru á bak við um 2/3 skráninga og þá reyndist langstærstur hluti sumarnema undir fertugu, eða um 83 prósent.

Mikill áhugi á íslenskunámi

Í hópi skráðra sumarnema var um fjórðungur með erlendan ríkisborgararétt og stór hluti þess hóps nýtti sér úrval af námskeiðum í íslensku sem öðru máli. Í boði var allt frá námskeiðum fyrir algjöra byrjendur upp í námskeið sem var ætlað að þjálfa nemendur fyrir háskólanám á íslensku. Alls voru haldin sextán námskeið í íslensku sem öðru máli og settu þeir stóru hópar sem þau sóttu mark sitt á háskólasvæðið í allt sumar. Skráningar í námskeiðin reyndust nærri 900 og á bak við þær voru rúmlega 500 nemendur af 75 þjóðernum. Aðsóknin sýnir þá miklu þörf sem er fyrir ódýrt og gott nám í íslensku sem öðru máli en umfram allt sýnir hún þó vilja og áhuga fólks af erlendum uppruna til að læra íslensku. 

Háskólinn átti einnig í samstarfi við Keili og Endurmenntun um sumarnámskeið. Í fyrrnefnda skólanum voru rúmlega 40 nemendur í sumarnámi í Háskólabrú og hjá Endurmenntun voru skráningarnar 1.100 í 34 námskeið. 

Nemendur og kennarar í íslensku sem öðru námi