Sveinbjarnardætur varpa ljósi á sögu kvenna á nítjándu öld
Lifir minningin um guðfræðinginn Sveinbjörn Egilsson, rektor Lærða skólans í Reykjavík, í þýðingu hans á kviðum Hómers úr forngrísku? Margir minnast hans reyndar frekar fyrir að snara Snorra-Eddu yfir á latínu en sumir tengja skáldið Sveinbjörn við uppþot sveina úr Lærða skólanum sem fóru að honum með orðið pereat eitt að vopni. Forsenda pereatsins var sú að Sveinbjörn vildi þröngva skólapiltum til að ganga í bindindisfélag skólans. Það hefur gjarnan notið lítillar lýðhylli að þröngva fólki til að neita sér um áfengi á Íslandi.
Þegar spurt er að afrekum er ekkert einhlítt svar en oft er það þannig líka að afkomendur og afrek þeirra halda gjarnan nafni forfeðranna á lofti. Skyldi minningu Sveinbjarnar Egilssonar að einhverju marki vera flaggað af afkomendum hans? Vissulega urðu synirnir þekktir, þó helst snilldarteiknarinn Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal sem einnig var skáld og vann eina fegurstu bók Íslands um fugla. Hann skrifaði að auki Heljarslóðarorrustu og orti „Niðar foss í djúpum dal, dimmum fram úr hamrasal,“ sem margir Íslendingar þekkja.
Minna hefur hins vegar farið fyrir sex dætrum Sveinbjarnar og Helgu Benediktsdóttur, eiginkonu hans. Þær voru þó allar afkastamiklar og áttu merkilega ævi en því miður hefur framlag þeirra til menningarsögunnar ekki farið mjög hátt og ræður kynið þar vafalítið miklu. Líka sú staðreynd að þær ólust upp við aðrar aðstæður og fátæklegri möguleika en bræður þeirra nutu.
Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn, ætlar nú að varpa ljósi á afrek og líf þeirra systra í nýrri rannsókn. „Þegar ég fór að kynna mér lífshlaup systranna komst ég að því að þarna voru á ferðinni merkilegar konur og sögur sem snerta svo til alla þætti íslenskrar menningarsögu,“ segir Soffía Auður sem varði doktorsritgerð í bókmenntafræði árið 2016.
„Þær varpa ljósi á ýmsa mikilvæga þætti í sögu íslenskra kvenna á 19. öld. Gegnum þessar sögur má greina viðamikla þætti menningararfsins er varða konur og hlutskipti þeirra á þessum tíma.“
Dætur Sveinbjarnar og Helgu voru þær Þuríður (1823-1899), Guðrún (1831-1916), Kristín (1833-1879), Sigríður (1835-1879), Valborg Elísabet (1838-1870) og Guðlaug Ragnhildur (1843-1866).
Menningarlegt hlutskipti kvenna á nítjándu öld
Sjálfsákvörðunarréttur kvenna, nauðungargiftingar, barnadauði, tvírætt kynferði, hjónaskilnaðir, ríkidæmi og fátækt, heilsa kvenna, handavinna þeirra sem annars vegar list og hins vegar úrræði til afkomu. Allt þetta er á meðal þess sem saga systranna varpar ljósi á. Spurningar um sjálfsmynd, sjálfstæði, kynhlutverk og eigið áhrifavald liggja þarna til grundvallar.
„Með því að bera sögur systranna saman við sögur bræðra þeirra er hægt að skoða ólíkt uppeldi stúlkna og drengja, ólíka möguleika kvenna og karla til menntunar, ferðalaga, sjálfstæðis og fleira. Grundvallarrannsóknarspurningin varðar kynhlutverk og hvaða möguleika konur áttu til að njóta hæfileika sinna og lifa hamingjuríku lífi í samfélagi 19. aldar á Íslandi.“
Soffía Auður segir að markmið rannsóknarinnar sé að skoða hlutskipti og möguleika íslenskra kvenna á 19. öld með því að rannsaka og greina heimildir, birtar og óbirtar, sem tengjast þessari þekktu menningarfjölskyldu.
„Þótt systranna sé sjaldan getið í heimildum hafa frumrannsóknir leitt ýmislegt afar áhugavert í ljós. Rannsóknin hefur falist í að kanna og greina fjölskyldubréf og aðrar heimildir sem finnast um fjölskylduna, tengja þær íslenskri menningarsögu og koma þekkingu á framfæri.“
Sjálfsskilningur þjóðar gegnum sögu og bókmenntir
„Rannsóknir eru gríðarlega mikilvægar, án þeirra myndi okkar þoka lítið áfram í þekkingu og skilningi,“ segir Soffía Auður. „Rannsóknir á sögu, bókmenntum og menningu efla sjálfsskilning þjóða auk þess sem lífsgæði felast í því að geta notið ávaxta rannsókna vandaðra fræði- og vísindamanna.“
Soffía Auður er svo sannarlega með þessari frumlegu rannsókn að auka skilning okkar á eigin sögu, á sjálfum okkur og þeirri menningu sem við erum sprottin úr. Ekki síst menningarsögu kvenna. Hún upplýsir að allt hafi þetta hafist á undarlegri frásögn af einni dætranna, Guðrúnu, sem hún las í bók eftir Málfríði Einarsdóttur frá Munaðarnesi.
„Um Guðrúnu höfðu spunnist ýmsar kjaftasögur og ég hafði áhuga á að grafast fyrir um ástæður þeirra. Einnig þekkti ég til sögu elstu systurinnar, Þuríðar Kúld. Báðar þessar systur áttu sér ótrúlega merkilegar og harmrænar sögur. Ég fékk upp úr þessu áhuga á að kanna ævi allra systranna sex,“ segir hún.
Soffía Auður hefur nú þegar birt grein sem byggist á rannsókninni, nánar tiltekið í 2. hefti Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar, 2017. Titill hennar er Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans? Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur.
Nú vinnur Soffía að grein um Þuríði Sv. Kúld, elstu dótturina. „Ætlunin er að birta fleiri greinar og síðan bók þar sem sögu allra systranna er fléttað saman við íslenska menningarsögu. Rannsókn af þessu tagi tekur þó langan tíma því leit að heimildum og lestur á þeim er seinleg vinna,“ segir Soffía Auður.