Skip to main content
23. desember 2024

Svæfingum barna vegna tannaðgerða fjölgaði með gjaldfrjálsum tannlækningum

Svæfingum barna vegna tannaðgerða fjölgaði með gjaldfrjálsum tannlækningum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tæplega 5.700 svæfingar voru gerðar á börnum vegna tannaðgerða á árunum 2004-2017. Meirihluti barnanna var á aldrinum 0-6 ára en fæstar svæfingar voru gerðar í aldurshópi 12-18 ára. Fjöldi svæfinga jókst í kjölfar innleiðingar samnings Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um gjaldfrjálsar tannlækningar barna 18 ára og yngri. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Margrétar Huldar Hallsdóttur, tannlæknis og sérfræðings í tannréttingum, en hún lauk meistaragráðu í tannlæknisfræði frá Háskóla Íslands snemma á árinu. 

„Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa tíðni tilfella, tegund meðferðar, aldursdreifingu og samsetningu þess hóps barna á Íslandi sem hefur þurft á svæfingu að halda vegna vandamála tengdum tönnum eða munnholi. Eins skoðaði ég áhrif efnahagshrunsins árið 2008 og samnings við Sjúkratryggingar Íslands um nánast gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir börn á tíðni svæfinga þeirra vegna tannaðgerða,“ segir Margrét Huld.

Kveikjan að rannsókninni fengin úr breskum sjónvarpsþætti

Áhugi Margrétar Huldar liggur fyrst og fremst á sviði tannréttinga en á milli þess sem hún hóf meistaranám sitt við HÍ og lauk því fluttist hún til Danmerkur og sérmenntaði sig í tannréttingum.

Meistararannsókn hennar mætti telja til samfélagstannlækninga en aðspurð um kveikjuna að rannsókninni segir Margrét Huld að um það leyti sem hún var að velta fyrir sér rannsóknarefni fyrir meistaraverkefni sitt hafi hún séð breskan sjónvarpsþátt sem fjallaði um svæfingar barna þar í landi, meðal annars vegna tannaðgerða. „Þá fór ég að velta því fyrir mér hvernig þessum málum væri háttað hér á landi, en verandi tannlæknir hafði ég fengið spurningar frá hinum og þessum varðandi svæfingar barna á Íslandi vegna tannaðgerða og fannst miður að geta hvergi nálgast þær upplýsingar á auðveldan og aðgengilegan hátt.“

Bar saman reikninga frá tannlæknum og svæfingalæknum

Um er að ræða megindlega, lýsandi rannsókn sem byggist á tölulegum gögnum sem safnað hafði verið í öðrum tilgangi (e. secondary data analysis) og voru fengin á rafrænu formi frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ). „Söfnun gagnanna var framkvæmd með aðstoð starfsmanna forritunarfyrirtækis sem alla jafna vinnur gögn fyrir SÍ en ég lét útbúa skapalón svo hægt væri að sækja nákvæmlega þær upplýsingar sem þurfti. Gögnin samanstóðu af öllum tannlæknareikningum barna, 0-18 ára, sem höfðu þegið tannlæknaþjónustu í svæfingu milli 2004 og 2017,“ segir Margrét.

Helstu breytur sem gögnin voru skoðuð út frá voru aldur, kyn, ár sem tannaðgerð fór fram, fjöldi tannlækna og svæfingalækna sem kom að aðgerðunum, heilsufarsástand barnanna (hvort um væri að ræða börn með sérþarfir) , tegund tannaðgerða og kostnaður SÍ. Sjúklingum var jafnframt skipt í þrjá aldurshópa: 0-6 ára, 6-12 ára og 12-18 ára.

Fyrir hvert barn sem gekkst undir tannaðgerð í svæfingu mátti finna tvo aðskilda reikninga í gögnum SÍ; einn reikning frá tannlækni og annan frá svæfingalækni. Ekki var hægt að sjá af tannlæknareikningi hvort tannaðgerð fór fram í svæfingu eða ekki og eins var ekki hægt að sjá á reikningi frá svæfingalækni hvers konar aðgerð hefði verið framkvæmd. „Þar af leiðandi þurfti að keyra þessa tvo gagnagrunna saman, reikninga tannlæknis og reikninga svæfingalæknis. Gögn í samanburðarhópi samanstóðu af öllum tannlæknareikningum barna sem innihéldu sömu aðgerðanúmer og skráð voru á reikningum í svæfingahópi,“ útskýrir Margrét.

Auk Margrétar komu að rannsókninni leiðbeinendur hennar, þau Eva Guðrún Sveinsdóttir, sérfræðingur í barnatannlækningum og lektor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands, Sigríður Rósa Víðisdóttir, tannlæknir og lektor við Tannlæknadeild HÍ, og Sigurður Rúnar Sæmundsson, sérfræðingur í barnatannlækningum.

Áhugi Margrétar Huldar liggur fyrst og fremst á sviði tannréttinga en á milli þess sem hún hóf meistaranám sitt við HÍ og lauk því fluttist hún til Danmerkur og sérmenntaði sig í tannréttingum. MYND/Samsett

Fimm tannfyllingar hjá hverju barni í svæfingu að meðaltali 

Niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir og voru birtar í meistararitgerð Margrétar Huldar fyrr á árinu. Alls voru 5.678 svæfingar gerðar á börnum vegna tannaðgerða á árunum 2004-2017. Meðalaldur barna í svæfingu á tímabilinu var lægstur 5,92 ár og hæstur 7,49 ár. Meirihluti barnanna var á aldrinum 0-6 ára en fæstar svæfingar voru gerðar í aldurshópi 12-18 ára. Í aldurshópunum 0-6 ára og 6-12 ára var hlutfall drengja yfirleitt hærra en í aldurshópi 12-18 var hlutfall stúlkna oftar hærra. Meðalfjöldi tannúrdrátta eða annarra skurðaðgerða í munni var 1,52 tennur og meðalfjöldi tannfyllinga í svæfingu hjá hverju barni var 5,17. Fjöldi úrdreginna tanna í svæfingu hjá hverju barni var mestur í aldurshópi 12-18 ára en minnstur í aldurshópi 0-6 ára. Öfugt var farið um fjölda tannfyllinga í hverju barni á sama tímabili; hann var mestur í aldurshópi 0-6 ára og minnstur í hópi 12-18 ára.

Fjöldi svæfinga jókst í kjölfar innleiðingar samnings SÍ og Tannlæknafélags Íslands um gjaldfrjálsar tannlækningar barna yngri en 18 ára. Innleiðingin hófst 2013 og tók samningurinn í fyrstu til 15-17 ára barna. Síðan bættust fleiri árgangar við þar til innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar 2018. „Af fjöldatölum er hægt að sjá hvenær tiltekinn aldurshópur var innleiddur á samninginn og í sumum tilfellum hvernig hæsta toppi var náð innan hvers aldurshóps að ákveðnum tíma liðnum. Þó er ekki hægt að draga ályktun um áhrif efnahagshrunsins árið 2008 á fjölda svæfinga,“ útskýrir Margrét Huld.

Upplýsingar um tannaðgerðir mættu vera aðgengilegri

Aðspurð um samfélagslegt og vísindalegt gildi niðurstaðnanna segir Margrét Huld að niðurstöður lýðheilsurannsókna megi almennt nýta til þess að meta meðferðarþörf hverju sinni og gera viðeigandi ráðstafanir ef þörf krefur. Hingað til hefur verið hægt að nálgast upplýsingar um fjölda svæfinga barna vegna tannaðgerða hjá Sjúkratryggingum Íslands en frekari samantekt á eðli aðgerða eða breytilegri samsetningu barnahópsins hafði ekki verið gerð áður.

„Með niðurstöðunum úr þessari rannsókn má fylgjast með því hvaða áhrif þættir eins og því sem næst gjaldfrjáls tannlæknaþjónusta hefur á tíðni tannlæknaheimsókna og tannaðgerða almennt og hvort samsetning sjúklingahópsins breytist með árunum. Óskandi er að aðgengi að gögnum sem þessum, hvort sem þau eru að fullu unnin eða ekki, verði betra í framtíðinni. Ýmsar opinberar stofnanir hafa nú þegar slíka gagnabanka tiltæka þar sem auðvelt er að nálgast tölulegar upplýsingar af ýmsu tagi. Þetta má bæta þegar kemur að upplýsingum varðandi tannheilsu á Íslandi,“ segir Margrét Huld að lokum.

Tannlæknabakki og Margrét Huld