Sumarnámskeið á Húsavík í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða
Tuttugu og fimm nemendur frá ýmsum löndum tóku þátt í sameiginlegu vettvangsnámskeiði Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík og Háskólaseturs Vestfjarða um Aðferðir við rannsóknir á sjávarspendýrum dagana 28. maí til 6. júní. Sumarnámskeiðið hefur lengi verið fastur liður í starfi setursins á Húsavík og nemendur komið víða að.
Námskeiðið er hluti af námskeiðum Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ. Nemendur Háskólaseturs Vestfjarða eru jafnan stór hluti hópsins og var nú í ár í fyrsta sinn gert samkomulag um formlegt samstarf Háskóla Íslands og Háskólaseturs Vestfjarða um námskeiðið þar sem meðal annars er tiltekið að ákveðnum fjölda nemenda á námsbraut um Haf- og strandsvæðastjórn við Háskólasetrið skuli tryggður aðgangur að námskeiðinu.
Námskeiðið veitir nemendum einstakt tækifæri til að kynnast aðferðum sem notaðar eru við rannsóknir á villtum hvölum og er kennslan bæði í formi fyrirlestra og vettvangsvinnu um borð í bátum hvalaskoðunarfyrirtækja og setursins. Meðal þess sem fjallað er um í fyrirlestrum eru hvalategundirnar sem er að finna fyrir Norðurlandi og fræðilegur bakgrunnur aðferða sem notaðar eru við rannsóknir á sjávarspendýrum. Þá fá nemendur fjölbreytta þjálfun og fræðslu á vettvangi, m.a. um myndgreiningu einstakra hvala, stofnstærðarmat, atferlisgreiningu og hvernig hljóðnemum er beitt á mismunandi hátt. Hluti af náminu er að skipuleggja og vinna rannsóknarverkefni með þeim gögnum sem aflað er á staðnum og til eru í gagnasöfnum rannsóknasetursins. Þrátt fyrir snjókomu þá gekk námskeiðið afar vel og fluttu nemendur glæsilegar kynningar á afrakstri sinnar vinnu í Hvalasafninu á Húsavík sl. fimmtudag.
Auk dr. Marianne H. Rasmussen, forstöðumanns Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, voru kennarar og leiðbeinendur á námskeiðinu dr. Ole Lundquist og dr. Charla Basran, starfsmaður setursins. Þá tóku nokkrir doktorsnemar Marianne þátt í kennslu og þjálfun nemenda.