Skip to main content
20. október 2021

Styrkur til rannsóknar á forvarnargildi Vináttuverkefnis Barnaheilla

Styrkur til rannsóknar á forvarnargildi Vináttuverkefnis Barnaheilla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsókn á áhrifum Vináttuforvarnarverkefnis Barnaheilla gegn einelti á samskipti í barnahópum hefur hlotið styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar við Háskóla Íslands. Styrkhafi er Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Heildarupphæð styrksins nemur 1,3 milljónum króna.  

Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort áhersla verkefnisins á skólabrag sem einkennist af öryggi, jákvæðni og heilbrigði hafi forvarnargildi, stuðli að góðum samskiptum og dragi úr samskiptaörðugleikum og einelti. Sérstök áhersla verður lögð á að meta áhrif verkefnisins á börn með erlendan bakgrunn.

Vináttuverkefni Barnaheilla hefur náð töluverðri útbreiðslu í skólum á Íslandi frá árinu 2014. Um 60% leikskóla styðjast við verkefnið í starfi sínu, um 25% grunnskóla frá árinu 2018 og nokkur frístundaheimili einnig. Markmiðið með Vináttuverkefni Barnaheilla er að skapa góðan skólabrag og skapa þannig öruggt, jákvætt og heilbrigt umhverfi fyrir börn og reyna að draga úr fjölda bæði þeirra sem verða fyrir einelti og þeirra sem leggja aðra í einelti. 

Tímabært er að skoða hvort sú heildarnálgun og námsefnið sem stuðst er við í verkefninu skili árangri. Því verða fyrirliggjandi gögn, svo sem spurningalistar sem leikskólakennarar hafa svarað og niðurstöður foreldra- og starfsmannakannana valinna skóla, skoðuð og spurningalisti sendur til þeirra leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili sem hafa sótt námskeið Barnaheilla um verkefnið. Vonir standa til að niðurstöður rannsóknarinnar veiti kennurum, skólastjórnendum, börnum og foreldrum vísbendingar um þá þætti sem ýta undir forvarnargildi góðs skólabrags með sérstaka áherslu á að börn með erlendan bakgrunn upplifi sig virka þátttakendur í öllu skólastarfi.

Um sjóðinn

Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður með veglegri peningagjöf Margaretar og Bents 25. september árið 2001. Árið 2007 bættu þau hjón um betur og lögðu til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Sjóðurinn er einn þriggja sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Með stofnun þessara þriggja sjóða hafa Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson gefið háskólanum samtals 60 milljónir króna.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild, en hún er jafnframt formaður stjórnar, Ársæll Már Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið, og Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent í félagsráðgjöf við Félagsráðgjafardeild.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 

Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, tók við styrknum á rektorsskrifstofu í vikunni. Með henni á myndinni eru Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild og formaður stjórnar Styrktarsjóðs Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar. MYND/Kristinn Ingvarsson