Styrkir til rannsókna á háhyrningum og landmótun jökla
Þrír styrkir hafa verið veittir úr Minningarsjóði Aðalsteins Kristjánssonar við Háskóla Íslands til rannsókna í raunvísindum. Styrkhafar eru Daniel Ben-Yehoshua, doktorsnemi í umhverfisfræði, Nína Aradóttir, doktorsnemi í jarðfræði, og Tatiana Marie Joséphine Marchon, doktorsnemi í líffræði. Heildarupphæð styrkja nemur 3 milljónum króna.
Tilgangur Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar er að veita nemendum og/eða fræðimönnum við Háskóla Íslands styrki til rannsókna í raunvísindum.
Doktorsverkefni Daniels Ben-Yehoshua fjallar um þróun óstöðugleika í fjallshlíðum við Svínafellsjökul. Markmið verkefnisins er að kortleggja um það bil 2 km langt sprungukerfi í norðurhlíð Svínafellsfjalls. Neðan við sprunguna er um eins ferkílómetra svæði sem er óstöðugt. Rannsóknir sýna að sprungukerfið hefur myndast á tímabilinu 2003 til 2007, á sama tíma og þynning jökulsins var hvað hröðust síðastliðin 130 ár. Frá árinu 2011 hefur jökullinn ekki þynnst mikið, meðal annars vegna skriðu sem féll á hann árið 2013. Frá árinu 2017 hefur lítil færsla mælst á hlíðinni en þó er mikilvægt að fylgjast náið með henni þar sem stór berghlaup á Íslandi hafa átt sér stað án langs aðdraganda. Niðurstöður Daniels benda til að hop og þynning jökla vegna loftslagsbreytinga hafi áhrif á stöðugleika brattra fjallshlíða í nágrenni jöklanna. Leiðbeinendur Daniels Ben-Yehoshua eru Sigurður Erlingsson, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, og Þorsteinn Sæmundsson, aðjunkt við Líf- og umhverfisvísindadeild.
Doktorsverkefni Nínu Aradóttur hefur það að markmiði að rannsaka ummerki eftir forna ísstrauma á Norðausturlandi og auka þar með skilning okkar á landmótun, útbreiðslu og hegðun þeirra í tíma og rúmi, auk þekkingar á þeim ferlum sem stýra og stuðla að auknum skriðhraða. Ísstraumar eru hraðskreiðir farvegir í stórum meginjöklum sem flytja megnið af þeim ís og seti sem jöklarnir skila af sér. Tilgátur hafa verið settar fram um ísstrauma í hinum íslenska meginjökli á síðasta jökulskeiði en takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á útbreiðslu þeirra og hegðun. Jökulræn landform og setlög frá Jökuldalsheiði norður til Þistilfjarðar hafa verið rannsökuð og kortlögð með margvíslegum jarð- og jarðeðlisfræðilegum aðferðum og útbreiðsla og lega landformanna benda til nokkurra ísstrauma sem hafa verið virkir á mismunandi tíma. Niðurstöður verkefnisins munu auka skilning okkar á virkni fornra ísstrauma á Íslandi og þróun íslenska ísaldarjökulsins á síðjökultíma ásamt því að auka þekkingu á jarðfræði svæðisins. Leiðbeinendur Nínu Aradóttur eru Ívar Örn Benediktsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun, og Ólafur Ingólfsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild.
Doktorsverkefni Tatiönu Marie Joséphine Marchon miðar að því að auka skilning okkar á því hvað mótar hljóðmerki hjá háhyrningum, hvort og hvernig þessi merki mótast af vistfræðilegum og félagslegum þáttum eða öðrum umhverfisþáttum. Það er vel þekkt að tveir samsvæða stofnar háhyrninga í Kyrrahafinu eru mjög sérhæfðir í fæðuvali. Í öðrum eru fiskætur en hinn veiðir spendýr sér til matar. Þessi sérhæfing hefur mótað félagsgerð hópanna og hljóðmerkjamál. Í Norður-Atlantshafi er þessu öðruvísi háttað, fæðuatferli háhyrninga og fæðuval er blandað og félagskerfin sveigjanlegri. Ekkert er vitað hvaða áhrif þetta hefur haft á kerfi hljóðmerkja hjá háhyrningum á því svæði. Í rannsóknarverkefni Tatiönu er kannað hvort greina megi sérhæfðan táknforða meðal hópa háhyrninga hér við land og hvernig samskiptin mótast af vistfræðilegum aðstæðum eins og aðgengi að fæðu. Við rannsóknirnar er beitt nýjustu aðferðum, svo sem söfnun gagna með hljóðupptöku- og sundritum og flokkun hljóðmerkja með hjálp tauganeta. Niðurstöður sem nú liggja fyrir gefa til kynna að kerfi hljóðmerkja mismunandi hópa háhyrninga við Ísland séu ekki eins. Vonast er til að niðurstöður þessarar rannsóknar varpi frekara ljósi á þætti sem móta þennan breytileika. Leiðbeinendur Tatiönu eru dr. Filipa Samarra hjá Rannsóknasetri HÍ í Vestmannaeyjum, dr. Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, og dr. Volker Deecke, dósent við University of Cumbria í Bretlandi.
Um sjóðinn
Minningarsjóður Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1978 með dánargjöf Aðalsteins Kristjánssonar. Hann bjó lengstum í Winnipeg í Kanada og síðast í Puente í Los Angeles í Kaliforníu. Aðalsteinn lést hinn 14. júlí 1949.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Sigurður S. Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, sem jafnframt er formaður stjórnar, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofnun, og Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor við Raunvísindadeild.
Minningarsjóður Aðalsteins Kristjánssonar er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans.
Myndir Kristins Ingvarssonar frá úthlutun styrkjanna í Hátíðasal má sjá hér að neðan.