Stýrir fjölþjóðlegu verkefni um félagsfærni ungra barna
Rannsóknastofa í menntunarfræðum ungra barna við Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Verkefnið ber heitið Félagsleg hæfni leikskólabarna sem lykill að fullgildri þátttöku (BE-CHILD) og snýst um samstarf háskóla, rannsóknastofnana, leikskóla og kennara um þróun náms og kennslu í félagsfærni barna á aldrinum 0-6 ára.
Háskóli Íslands leiðir verkefnið en rannsóknarhópurinn samanstendur af fræðimönnum frá sex Evrópuríkjum. Þátttökulönd auk Íslands eru Ítalía, Rúmenía, Búlgaría, Tékkland og Eistland og mun hópurinn vinna að verkefninu næstu tvö árin í samstarfi við valda leikskóla í hverju þátttökulandi. Af heildarstyrk til verkefnisins koma tæpar 38 milljónir króna í hlut Háskóla Íslands.
Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræði ungra barna, stýrir verkefninu fyrir hönd Háskólans en auk hennar vinnur Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, lektor í leikskólafræði, að verkefninu. „Félagsfærni er mikilvægur grunnur fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Börn þróa félagsfærni með því að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi leikskólans. Leikur er meginnámsleið barna þar sem þau þróa félagsleg tengsl við önnur börn. Kannaðir verða starfshættir í leikskólum og verða niðurstöðurnar nýttar til að þróa náms- og kennsluefni í félagsfærni fyrir leikskólakennara,“ lýsir Jóhanna.
Rannsóknastofa í menntunarfræðum ungra barna er afar öflug og er Erasmus+ styrkurinn mikil viðurkenning á starfi stofunnar sem hefur sérhæft sig í stöðu ungra barna um árabil. Innan stofunnar er einnig unnið að rannsóknaverkefnum um fullgildi (e. belonging) barna með fjölbreyttan bakgrunn með styrk frá NordForsk og verkefni um samfellu í námi barna með styrk frá Rannís. Á undanförnum árum hefur rannsóknastofan jafnframt unnið að samstarfsrannsóknum með leikskólum í nágrannasveitarfélögum. Þessa dagana vinnur stofan jafnframt að innleiðingu á menntastefnu Reykjavíkurborgar ─ Látum draumana rætast.