Stuðla að grænni skólum með stafrænum frásögnum
„Verkefnið miðar að því að breyta viðhorfum nemenda og hvetja þá til að grípa til róttækra aðgerða gegn loftslagsvandanum í sínum eigin samfélögum og mynda tengsl við skóla erlendis. Þannig geta nemendur með sameiginlegu átaki haft áhrif á sviði loftslagsbreytinga víða um heim,“ segja þær Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent við HÍ, og Jóna Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt við sömu stofnun. Fyrir hönd HÍ stýra þær alþjóðlegri rannsókn á sviði umhverfisvitundar sem hlaut á dögunum nærri 50 milljóna króna styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.
Rannsóknin er hönnuð í því skyni að styðja við kennara og nemendur í grunn- og framhaldsskólum í baráttunni gegn loftslagsvánni. „Markmið ActGreenStory (AGS) rannsóknarinnar er að þróa námsefni þar sem stafrænar frásagnir verða notaðar til að vekja áhuga nemenda á loftslagsbreytingum. Þetta ber með sér þekkingaröflun, allt frá því að vekja athygli nemenda á umhverfismálum til raunverulegra athafna. Þannig hvetjum við til lausna á samfélagslegum vandamálum, örvum gagnrýna hugsun, sköpun og hæfni til stafrænnar vinnslu,“ útskýrir Rannveig. Sögur tengdar verkefninu verða búnar til og þeim dreift til hagsmunaaðila í grænu samfélagi innan Evrópu til að knýja fram frekari aðgerðir í loftslagsmálum.
Þróa aðferðir í takt við nýja tíma
Rík áhersla er á að kennarar og nemendur tengist öðrum skólum og grænum aðgerðasinnum í ferlinu. Að sögn Rannveigar verða afurðir verkefnisins aðgengilegar á opnu netsvæði sem hvetur til samskipta. „Stefnt er að því að því að skapa netsamfélag um alla Evrópu sem samanstendur af meira en þúsund kennurum, nemendum, skólum, stefnumótendum, félagasamtökum, foreldrum og hagsmunaaðilum til að leggja sitt af mörkum við að móta herferð fyrir loftslagsbreytingar.“
Rannsóknin hefst í byrjun næsta árs og áætlað er að niðurstöður liggi fyrir um mitt árið 2024. „Ávinningurinn er fyrst og fremst fólginn í stuðningi við kennara til að þróa nýjar kennsluaðferðir í takt við nýja tíma. Þannig verða kennarar færari um að tileinka sér margvíslega nýsköpun í starfi, eins og lausnaleitarnám, nemendavirkni, stafrænar frásagnir og fleira,“ segir Jóna Guðrún að lokum og bætir því við að aukin umhverfisvitund nemenda sé eitt af lykilverkefnum menntakerfisins til næstu ára.