Skip to main content
5. nóvember 2019

Stuðla að gæðakennslu í grunnskólum á Norðurlöndum

Stakkahlíð

„Meginmarkmiðið með rannsókninni er að stuðla að gæðakennslu í grunnskólum á Norðurlöndum,“ segir Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor í menntastjórnun við Háskóla Íslands, sem nú tekur þátt í viðamikilli samanburðarrannsókn á kennslu. Verkefnið, sem ber heitið QUINT (Quality in Nordic Teaching) er hluti af norrænu öndvegissetri og hlaut fyrir nokkru 25 milljónir norskra króna í styrk frá Nordforsk, jafnvirði nærri 340 milljóna íslenskra króna.

Skólastofan mikilvæg uppspretta rannsókna

„Gagnasöfnun er þegar hafin en margvíslegum gögnum hefur verið safnað í 120 kennslustundum á unglingastigi í tíu íslenskum grunnskólum,“ lýsir Anna Kristín en hún hefur rannsakað gæði skólastarfs og hið manngerða umhverfi skólanna um árabil.  Skipaður hefur verið faghópur kennara sem mun rýna saman í gögnin ásamt rannsakendum en á meðal þess sem safnað hefur verið eru myndbandsupptökur, ljósmyndir, svör nemenda við spurningalistum og viðtöl við kennara. Sambærilegum gögnum er safnað á hinum Norðurlöndunum. 

Í rannsókninni verður leitað svara við eftirfarandi spurningum: 

  1. Hvernig hafa kennsluhættir áhrif á nám nemenda?
  2. Hvernig geta myndbandsupptökur úr skólastofum nýst í kennaramenntun og starfsþróun kennara?
  3. Hvernig getur tæknin nýst til að þróa ný form af samstarfi rannsakenda og fólks af vettvangi?

 
Hefur mikla þýðingu fyrir íslenskt skólastarf

„Rannsóknin hefur mikla þýðingu fyrir íslenskt skólastarf af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi liggja fyrir vandaðar upplýsingar um nám og kennslu í íslenskum skólum, sem ekki hafa verið til áður. Í öðru lagi verða unnar samanburðarrannsóknir milli Norðurlandanna sem hefur verið unnt að gera með gögnum sem safnað er með hefðbundnum bekkjarathugunum. Í þriðja lagi má nefna að gögnin verða notuð til að þróa nýtt form í starfsþróun kennara og verður myndaður faghópur kennara sem mun rýna saman í gögnin ásamt rannsakendum,“ segir Anna Kristín og bætir við að þannig verði til hópur kennara sem öðlast sérfræðiþekkingu á gæða kennsluháttum sem tryggir útbreiðslu. „Síðast en ekki síst má nefna þann ávinning sem fæst með svo nánu samstarfi við færustu sérfræðinga á Norðurlöndum á þessu sviði og aðgang að öflugu stuðningskerfi sem öndvegissetrið bíður upp á.“

Verkefnið er leitt af Háskólanum í Osló og nær til fimm ára. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eru meðal þeirra átta háskóla á Norðurlöndunum sem standa að verkefninu. Fulltrúar Menntavísindasviðs í verkefninu eru auk Önnu Kristínar, Berglind Gísladóttir lektor, Kristín Jónsdóttir lektor, og Jóhann Örn Sigurjónsson doktorsnemi. 

Hægt er að fræðast nánar um QUINT-rannsóknina á vef verkefnisins og Twitter.
 

„Meginmarkmiðið með rannsókninni er að stuðla að gæðakennslu í grunnskólum á Norðurlöndum,“ segir Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor í menntastjórnun við Háskóla Íslands, sem nú tekur þátt í viðamikilli samanburðarrannsókn á kennslu. Verkefnið, sem ber heitið QUINT (Quality in Nordic Teaching) er hluti af norrænu öndvegissetri og hlaut fyrir nokkru 25 milljóna norskra króna styrk frá Nordforsk. MYND/ Kristinn Ingvarsson