Skip to main content
16. desember 2020

Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar

Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Strandir 1918, en útgáfan er samvinnuverkefni Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu og Sauðfjárseturs á Ströndum sem er safn og menningarmiðstöð í héraðinu. Með útgáfu bókarinnar er rekinn endahnútur á samnefnt samvinnuverkefni sem hefur staðið yfir frá árinu 2018.

Í kynningu á bókarkápu segir: "Árið 1918 var merkilegt ár í sögu þjóðarinnar. Ísland fékk fullveldi og ýmsir stórviðburðir settu svip á mannlíf og samfélag. Hér er athygli beint að viðburðum og daglegu lífi á Ströndum á þessum tíma, birtar dagbækur, ferðasögur og fræðigreinar. Fjallað er um líf og störf fólks í Strandasýslu fyrir rúmri öld, á tímum sem standa okkur býsna nærri. Samt er margt við daglegt amstur fólks fyrir 100 árum framandi í samtímanum." 

Ritstjóri bókarinnar Strandir 1918 er Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsnemi í þjóðfræði og hún er einnig höfundur greinar um barnamenningu í bókinni. Einnig skrifa þjóðfræðingarnir Eiríkur Valdimarsson og Jón Jónsson hjá Rannsóknasetrinu greinar í bókina um hversdagslíf, viðburði og veðurfar, og Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða um búskaparhætti og náttúru. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ritar formála að bókinni. Auk fræðigreina eru birtar heimildir frá þessum tíma í bókinni, ferðasaga eftir Guðmund Hjaltason alþýðufræðara sem fór fyrirlestraferð um Strandir 1917 og búnaðaryfirlit eftir Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra.  Þá eru brot úr tveimur dagbókum að finna í bókinni, annars vegar eftir Níels Jónsson á Grænhóli á Gjögri og hins vegar Þorstein Guðbrandsson á Kaldrananesi. Í dagbókunum fá lesendur tækifæri til að sjá hlutina með augum fólks sem sjálft upplifði þessa tíma.  

Bókin sem er 290 síður er einungis seld "beint frá safni". Hægt er að tryggja sér eintak með því að hringja í síma 693-3474, senda póst á saudfjarsetur@saudfjarsetur.is eða hafa samband á Facebook-síðu Sauðfjársetursins. Bókin kostar 4200 kr. og 500 kr. bætast við í sendingarkostnað. 

Mynd af höfundum frá útgáfuhófi