Skip to main content
31. mars 2025

Stjórnmálafræðinemar standa fyrir fundi um málefni flóttafólks

""

Þrír nemendur í námskeiðinu „Fólk á flótta: Orsakir, viðbrögð og afleiðingar “ í grunnnámi við Stjórnmálafræðideild HÍ standa fyrir hádegisfundi þriðjudaginn 1. apríl kl. 12-13 í fyrirlestrasal Eddu. Þar er ætlunin að ræða áskoranir Íslands og annarra smáríkja í málefnum flóttafólks með fjórum núverandi og fyrrverandi þingmönnum. Fundurinn, sem er öllum opinn, er lokaverkefni nemendanna í námskeiðinu og er haldinn í samstarfi við Stjórnmálafræðideild.

„Fundurinn er hugsaður fyrir alla þá sem hafa áhuga á þessum málaflokki. Þetta er stór málaflokkur sem er fyrirferðamikill í umræðunni þessi misserin og við hvetjum áhugasama að mæta, hlusta á þetta fyrirtaksfólk og taka þátt í umræðunni, spyrja þau spjörunum úr og vonandi læra eitthvað í leiðinni,“ segir Signý Pála Pálsdóttir stjórnmálafræðinemi sem stendur fyrir fundinum ásamt þeim Bergi Bjartmarssyni og Steinari Inga Kolbeins.

nemendur

Að fundinum standa stjórnmálafræðinemarnir Signý Pála Pálsdóttir, Bergur Bjartmarsson og Steinar Ingi Kolbeins.

Sem fyrr segir er fundurinn hluti af námskeiði við Stjórnmálafræðideild sem Eva Bjarnadóttir kennir. „Einum hópi í námskeiðinu var boðið upp á það að halda hádegisfund sem lokaverkefni og skrifa skýrslu upp úr honum. Við báðum um að fá að halda fund og vorum svo heppin að fá að gera það,“ Signý um tilurð fundarins. 

Gestirnir á fundinum koma úr fjórum mismunandi stjórnmálaflokkum og munu þau flytja stutta framsögu og taka í kjölfarið þátt í pallborðsumræðum um málefnið. Gestir eru þau:

  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og þingmaður Viðreisnar
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrv. ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins
  • Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins
  • Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, fyrrv. þingmaður Pírata og sjálfstætt starfandi lögmaður

„Allt er þetta fólk með reynslu og þekkingu á málaflokknum og hefur staðið í ströngu á pólitíska sviðinu að ræða meðal annars þessi mál. Það er því mikið ánægjuefni fyrir okkur og nemendur háskólans að geta sótt þennan fund og heyrt hvað þetta málsmetandi fólk hefur að segja,“ segir Bergur.

Yfirskrift fundarins er „Áskoranir íslands og annara smáríkja í málefnum flóttafólks“. Aðspurður hvort áskoranir lítilla ríkja í málefnum flóttafólks séu aðrar en þeirra sem stærri eru segir Steinar að ljóst sé að margir telji svo vera. „Allir þeir sem fylgjast vel með stjórnmálaumræðunni vita að síðastliðin ár hafa fá mál fengið jafn mikla athygli og umræðu eins og útlendingamálin. Síðan höfum við séð umræðuna þróast hratt undanfarið, sem dæmi má nefna umræðuna um Breiðholt og hvernig sumir tengja það við stefnu Íslands í mótttöku flóttafólks á meðan aðrir frábiðja sér slíkan málflutning. Ég og við sem stöndum að fundinum töldum að minnsta kosti að það væri að líkindum salur fyrir nákvæmlega þetta umræðuefni á þessum tímapunkti og við sjáum það enda á þriðja hundrað manns búnir að bregðast við viðburðinum á Facebook,“ segir Steinar enn fremur. 

Fundurinn er sem fyrr segir öllum opinn meðan húsrúm leyfir.
 

""

Þrír nemendur í námskeiðinu „Fólk á flótta: Orsakir, viðbrögð og afleiðingar “ í grunnnámi við Stjórnmálafræðideild HÍ standa fyrir hádegisfundi þriðjudaginn 1. apríl kl. 12-13 í fyrirlestrasal Eddu. Þar er ætlunin að ræða áskoranir Íslands og annarra smáríkja í málefnum flóttafólks með fjórum núverandi og fyrrverandi þingmönnum.