Skip to main content
9. júlí 2024

Stelpur og kennarar diffra í ágúst  

Stelpur og kennarar diffra í ágúst   - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stærðfræðisumarbúðirnar Stelpur diffra fara fram í fjórða sinn í Háskóla Íslands dagana 12.-16. ágúst og að þessu sinni fá áhugasamir þátttakendur einnig smá innsýn í eðlisfræði. Aðstandendur búðanna bjóða auk þess í fyrsta sinn upp á stærðfræðibúðir fyrir kennara í framhaldsskólum sem tækifæri til símenntunar og samtals sín á milli. 

Stelpur diffra er hugarfóstur Nönnu Kristjánsdóttur, sem útskrifaðist með BS-gráðu í hagnýttri stærðfræði frá Háskóla Íslands í júní. Búðirnar setti hún á laggirnar sumarið fyrir sitt fyrsta ár í námi við HÍ í samstarfi við tvo kennara sína, þær Önnu Helgu Jónsdóttur, prófessor í tölfræði, og Bjarnheiði Kristinsdóttur, lektor í stærðfræði og stærðfræðimenntun.  

Búðirnar hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár en í þeim gefst áhugasömum stelpum og stálpum á framhaldsskólaaldri tækifæri til að kafa ofan í stærðfræði og styrkja um leið sjálfsmynd sína innan fræðanna. Markmið búðanna er ekki síst fjölga stelpum og stálpum sem leggja fyrir sig stærðfræði og tengdar greinar um leið og ljósi er varpað á það hversu víða stærðfræðin kemur við sögu í samfélaginu. 

„Allt var skemmtilegt!“

Í búðunum er fengist við ýmsar undirgreinar stærðfræðinnar í gegnum fyrirlestra, þrautir og verkefni auk þess sem stærðfræðimenntaðar konur, sem starfa á ýmsum stöðum í samfélaginu, heimsækja þátttakendur og kynna fyrir þeim fjölbreytt atvinnutækifæri sem bíða stærðfræðimenntaðra. Skráðar stelpur og stálp kynnast einnig frægum stærðfræðikonum og geta um leið undirbúið sig fyrir þátttöku Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna ef áhugi er fyrir því.  

Óhætt er að segja að þátttakendur í búðunum kunni vel að meta þær en um það vitna umsagnir nemendanna: 

  • „Allt var skemmtilegt! Geggjað að læra eitthvað nýtt“ 
  • „Stærðfræðin var náttúrulega mjög skemmtileg og fólkið sem var þarna, kennararnir sem voru að kynna og sjá um námskeiðið voru líka mjög skemmtilegar og næs“ 
  • „Mér fannst verkefnin hæfileg. Mjög gaman og gott fyrir sjálfstraustið að geta leyst erfið keppnisdæmi!“ 
  • „Ég hef aldrei hitt svona marga sem finnst stærðfræði skemmtileg og áhugaverð“ 
  • „Kennslan var öðruvísi en ég er vön miðað við hvernig kennt er í skólum. Mér finnst að ef það væri kennt svona í skólum væri það miklu betra umhverfi til að vera betri í náminu sínu og að hafa meiri áhuga á því sem maður er að læra“ 
  • „Þegar ég leysi stærðfræðiverkefni núna í vetur þá langar mig að hvetja stelpurnar með mér í bekk að vinna saman að heimadæmum og tala um hugmyndir“   

„Þegar ég var að vinna að BS-verkefninu skoðaði ég líka aðeins námsval stúlkna í MH með tilliti til eðlisfræði og þar var mikill munur á. Stúlkur voru mun ólíklegri til að taka suma eðlisfræðiáfanga. Þess vegna ákváðum við að bæta smá eðlisfræði inn í búðirnar en með þessu vekjum við vonandi áhuga hjá þátttakendum á þeim áföngum sem eru í boði í framhaldsskólunum,“ segir Nanna. MYND/Kristinn Ingvarsson

Stúlkur í framhaldsskóla ólíklegri til að velja stærðfæði- og eðlisfræðiáfanga 

Nanna hefur þróað búðirnar síðustu ár og brennur fyrir því að jafna kynjahlutföllin innan stærðfræðinnar. Það endurspeglast m.a. í því að í lokaverkefni sínu til BS-prófs rýndi Nanna í námsval nemenda í menntaskólastærðfræði með tilliti til kyns og þeirra kerfisbreytinga sem urðu á framhaldsskólastiginu á síðasta áratug. Niðurstöður hennar leiddu m.a. í ljós að stúlkur eru ólíklegri til að velja stærðfræðiáfanga á efri hæfniþrepum og að hlutfall stúlkna sem innritast í verkfræði- og raungreinar í háskóla hefur lítið breyst frá aldamótum. 

„Þegar ég var að vinna að BS-verkefninu skoðaði ég líka aðeins námsval stúlkna í MH með tilliti til eðlisfræði og þar var mikill munur á. Stúlkur voru mun ólíklegri til að taka suma eðlisfræðiáfanga. Þess vegna ákváðum við að bæta smá eðlisfræði inn í búðirnar en með þessu vekjum við vonandi áhuga hjá þátttakendum á þeim áföngum sem eru í boði í framhaldsskólunum,“ segir Nanna. Hún bætir við að kynningin á eðlisfræði verði vonandi í formi fyrirlesturs og eðlisfræðitilrauna í stað stærðfræðiverkefna á lokadegi búðanna fyrir þau sem hafa áhuga á því. 

Kennarar diffra í fyrsta sinn

En eðlisfræðin er ekki eina nýjungin hjá Nönnu og samstarfskonum hennar því þær hyggjast einnig bjóða kennurum í framhaldsskólum upp á sambærilegar búðir, Kennarar diffra. „Kennarabúðirnar verða vikuna fyrir venjulegu búðirnar, það er dagana 6.-9. ágúst. Þær munu samanstanda af fjögurra daga dagskrá sem er svipuð þeirri sem við bjóðum upp á í búðunum sjálfum,“ segir Nanna enn fremur.  

„Markmiðið með kennarabúðunum er að veita kennurum rými og tíma til að læra nýja stærðfræði utan þess sem kennt er í framhaldsskólum eða rifja hana upp, að búa til vettvang þar sem kennarar geta hist og rætt saman um starf sitt og pælingar sínar og að kynna verkefnið Stelpur diffra betur fyrir kennurum,“ bætir Nanna við. 

Nánari upplýsingar um stærðfræðibúðirnar Stelpur diffra og skráningarsíðu má finna á vef verkefnisins. Upplýsingar um kennarabúðirnar og skráningu í þær má nálgast með að senda póst á info@stelpurdiffra.is