Skip to main content
4. desember 2025

Standa að fyrstu langtímarannsókninni á knattspyrnustúlkum á Íslandi

SKORA-rannsóknin er fyrsta langtímarannsókn sinnar tegundar á stúlkum í knattspyrnu á Íslandi.

Á Menntavísindasviði er stundaður fjöldinn allur af rannsóknum og eru efnistökin afar fjölbreytt. Við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda eru margar rannsóknir tengdar íþrótta- og heilsufræði og ein þeirra nefnist SKORA - Stúlkur, knattspyrna og rannsókn á atgervi.

Þann 26. nóvember síðastliðinn fór rannsóknarteymið á bak við SKORA-rannsóknina og kynnti hana fyrir starfsfólki og þjálfurum hjá Knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ. Um stað- og streymisfund var að ræða en um 80 manns mættu í rauntíma og/eða fylgdust með upptöku en var boð sent á hátt í 2.500 starfandi þjálfara um allt land. 

SKORA-rannsóknin er fyrsta langtímarannsókn sinnar tegundar á stúlkum í knattspyrnu á Íslandi. Markmiðið er að kanna líkamlegan þroska, frammistöðu, andlega og félagslega líðan ungra knattspyrnustúlkna og hvernig þessir þættir tengjast þjálfun og þróun í íþróttinni. Í rannsókninni er stúlkum fylgt eftir frá 11-12 ára aldri og gögnum safnað með mælingum á líkamlegu atgervi, knattspyrnuprófum og spurningalistum. 

Að SKORA stendur stór hópur fræðafólks af Menntavísindasviði, þau Erlingur Sigurður Jóhannsson prófessor, Rúna Sif Stefánsdóttir lektor, Vaka Rögnvaldsdóttir dósent, Gréta Jakobsdóttir dósent og Sigurður Skúli Benediktsson, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði, ásamt fræðafólki frá Noregi og Svíþjóð.

Rúna Sif er einn af fyrirliðum rannsóknarinnar. „Í rannsókninni er verið að skoða atgervi knattspyrnustúlkna, frammistöðufærni, andlega og félagslega líðan, svefn og svefnbreytur, æfingaumhverfi, æfingaáráttu, áhrif kynþroska á tíðni meiðsla og brottfall stúlkna úr knattspyrnu á Íslandi,“ segir Rúna Sif.

Vorið 2024 var 222 knattspyrnustúlkum á tólfta ári úr tíu liðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu boðin þátttaka í SKORA-rannsókninni og samþykktu 150 að taka þátt. Þeim verður svo aftur boðin þátttaka við 14 og 16 ára aldur.

„Mælingar fóru fram á þrjá vegu: við tókum röntgenmynd af vinstri úlnlið til að meta líffræðilegan þroska á grundvelli beinaldurs, gerðum svokallaða DXA-mælingu sem segir bæði til um beinþéttni og fitudreifingu í líkamanum og lögðum fyrir þær sérhannaðan spurningalista fyrir þeirra aldur um bakgrunnsþætti, t.a.m. aldur, æfingaaldur í knattspyrnu, fjölda skipulagðra æfinga, andlega líðan (frammistöðukvíða, líðan og líkamsímynd), svefn, meiðslatíðni, lifnaðarhætti og kynþroska,“ segir Rúna Sif og ítrekar mikilvægi þessa rannsóknarefnis þar sem gríðarlega lítið sé vitað um stúlkur á þessum aldri í íþróttum. 

Vonast er til að niðurstöður rannsóknarinnar geti stutt við markvissari þjálfun, betri forvarnir og aukinn skilning á þáttum sem hafa áhrif á áframhaldandi þátttöku stúlkna í knattspyrnu.

Vert er að benda á viðtal við Rúnu Sif Stefánsdóttur í Menntavísindavarpinu frá 18. desember 2024 þar sem hún ræðir SKORA-rannsóknina. 

Vorið 2024 var 222 knattspyrnustúlkum á tólfta ári úr tíu liðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu boðin þátttaka í SKORA-rannsókninni MYND/Kristinn Ingvarsson
Vorið 2024 var 222 knattspyrnustúlkum á tólfta ári úr tíu liðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu boðin þátttaka í SKORA-rannsókninni MYND/Kristinn Ingvarsson
Vorið 2024 var 222 knattspyrnustúlkum á tólfta ári úr tíu liðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu boðin þátttaka í SKORA-rannsókninni MYND/Kristinn Ingvarsson