Skip to main content
25. febrúar 2022

Stafræni háskóladagurinn er á morgun

Stafræni háskóladagurinn er á morgun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (25. febrúar 2022):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Þótt sólin hækki hratt á himni og varpi ljóma sínum á snjóinn er því miður ekki hægt að segja að það sé bjart yfir heimspólitíkinni. Stjórnvöld víða um heim eru nú að bregðast við ógnvænlegri stöðu í Austur-Evrópu og fræðafólk skólans hefur lagt sig fram um að rýna í þessa óvæntu þróun síðustu daga. Hugur minn er hjá öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna átakanna og því starfsfólki og nemendum HÍ sem eiga rætur í Úkraínu og eiga þar skyldfólk og ástvini. Stöndum þétt saman og hugum vel hvert að öðru.

Í dag er boðuð þau tíðindi að allar reglur um sóttvarnir hafi verið afnumdar. Nándarmörk eru ekki lengur við lýði og grímuskylda er felld niður. Þetta gerir að verkum að við getum komið saman að nýju í byggingum Háskólans eins og háttaði fyrir daga heimsfaraldurs. Þetta er sannarlega langþráð stund og hvet ég nemendur til að koma aftur á háskólasvæðið.  Munum þó að taka tillit hvert til annars og ekki síst til þeirra sem vilja fara að öllu með gát. Þótt við getum loks óhikað notið þeirrar aðstöðu og þjónustu sem er í boði á háskólasvæðinu, sótt kennslu og starfsstöðvar ásamt því að hitta vini og kunningja, þá skulum við muna að huga áfram að hreinlæti til að draga úr líkum á smiti.

Háskóladagurinn árvissi er á morgun. Þá sameinast allir háskólar landsins um að kynna fjölbreytt framboð sitt í grunnnámi næsta vetur. Að þessu sinni er dagurinn að öllu leyti stafrænn en það var ákveðið sameiginlega af stjórnendum háskólanna fyrir nokkru í ljósi þeirrar flóknu stöðu sem við höfum búið við undanfarin tvö ár. Háskólar landsins taka samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og vilja ekki einungis tryggja öryggi nemenda og starfsfólks heldur einnig allra þeirra sem vilja kynna sér gífurlega fjölbreytt og öflugt nám á háskólastigi. 

Á morgun kynnum við í Háskóla Íslands allt framboð okkar í grunnnámi milli klukkan 12 og 15. Þá gefst áhugasömum m.a. tækifæri til þess að spjalla við nemendur HÍ í öllum námsleiðum í grunnnámi. Það er ekki lítils virði fyrir áhugasöm að eiga gott spjall við þau sem þekkja námið hvað best, nemendur skólans. Fyrir þetta framlag ykkar, kæru nemendur, er ég einstaklega þakklátur. Kannanir sýna ótvírætt að námsánægja er mikil innan HÍ og það er einkar ánægjulegt að segja frá því að þrátt fyrir þær miklu áskoranir sem við höfum glímt við í vetur er gríðarleg ánægja nýnema með námið í skólanum. 

Á Stafræna háskóladeginum verður líka hægt að spjalla við kennara, fá ráð um val á námi og upplýsingar um umsóknarferli og skiptinám, spjalla við Stúdentaráðsliða og kynna sér alls kyns aðra þjónustu. Það er gert í gegnum netspjall HÍ sem er að finna á vefsíðunni okkar. Þar er hægt að velja um að spjalla við fulltrúa frá náms- og starfsráðgjöf, þjónustuborði, nemendaskrá, alþjóðasviði, upplýsingatæknisviði eða einhverju af fræðasviðum skólans. Allt þetta stendur til boða á morgun.

Háskóli Íslands mun í framhaldi af Stafræna háskóladeginum bjóða upp á gönguferðir í litlum hópum um háskólasvæðið. Þar geta áhugasöm kynnst svæðinu, byggingum og allri aðstöðu í fylgd með nemendum skólans. Hægt er að bóka ferð í Háskólagönguna á vef HÍ.

Ég vil þakka af öllu hjarta þeim fjölmörgu sem komið hafa að undirbúningi Háskóladagsins. Ykkar vinna er gríðarlega mikilvæg, ekki bara fyrir HÍ, heldur fyrir samfélagið allt. 

Fréttabréf Háskólavina kom út í vikunni og er það efnismikið að vanda, en þar kemur m.a. við sögu ný þáttaröð á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um rannsóknir og nýsköpun í HÍ, nýútskrifaður Háskólavinur, rannsóknir á tilurð nýrra ferðamannastaða með fókus á gosstöðvarnar á Reykjanesi og samband lyga og dulinna skoðana. Þá er forvitnast um hvað leikskólabörn segja um langa dvöl sína á leikskólum og viðtal við doktorsnema sem vill stuðla að öruggri og árangursríkari lyfjanotkun. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur efni fréttabréfsins. 

Góða helgi. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

""