Stafræn námsgögn og menntatækni í brennidepli hjá Nýsköpunarstofu menntunar hjá HÍ
Stafræn námsgögn og menntatækni í brennidepli hjá Nýsköpunarstofu Menntunar hjá Háskóla Íslands – sænsk aðferðafræði prófreynd í samstarfi við skóla, rannsakendur og fyrirtæki.
Nýsköpunarstofa menntunar er samstarfsverkefni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, atvinnulífs og fræðasamfélags. Hún styður nýsköpun og frumkvöðlastarf í menntun, bæði í formlegu og óformlegu námsumhverfi. Áherslan er á innleiðingu og mat á menntatæknilausnum og stafrænum námsgögnum, auk þess að kanna hvernig stafræn tól geta stutt við fjölbreytt starf í menntageiranum með tilliti til inngildingar.
Nú í haust stendur Nýsköpunarstofan fyrir tilraunaverkefni í samstarfi við sænska rannsóknastofnun Ifous til að auka gæði við þróun og notkun stafrænna námsgagna í íslenskum skólum.
Ifous eru rekin sem frjáls félagasamtök og voru stofnuð af sveitarfélögum og skólasamfélagi í Svíþjóð. Þau þjóna því hlutverki að vera landsvettvangur fyrir rannsókna- og þróunarvinnu í skólum og settu í því samhengi upp vettvanginn Swedish Edtest þar sem skólafólk, rannsakendur og menntatæknifyrirtæki vinna saman að því að prófa, meta og þróa stafrænar kennslulausnir út frá raunverulegum kennsluþörfum og fræðilegum grunni.
Swedish Edtest aðferðafræðin er þróuð út frá kenningum um nám og nýsköpunarstarf í menntakerfinu. Markmiðið er að styðja kennara í að meta og ræða gagnrýnið um stafræn kennslugögn og notkun þeirra í skólum.
Tilgangurinn er ekki að finna bestu, öruggustu eða réttu lausnirnar, heldur að skapa sameiginlegan vettvang fyrir kennara, fyrirtæki og rannsakendur til að efla gagnkvæman skilning á notkun stafrænnar kennslutækni í þágu nemenda. Með því að stuðla að gagnrýnni og upplýstri umræðu vonumst við til að sjá aukin gæði og hagræðingu í vali, áhættumati og endurbótum á þessum lausnum.
Í ljósi þess að breytingar liggja fyrir á Íslandi varðandi fyrirkomulag á útgáfu námsgagna sem og aukið framboð stafrænna námsgagna (frumvarp í vinnslu) mun þurfa skilvirkari leiðir til að sjónarmið kennara og skólastjórnenda komist til skila útfrá þörfum nemenda. Í verkefninu er leitast við að þróa leiðir til að styðja við upplýstar ákvarðanatökur og skilvirkt samtal milli ólíkra fagaðila því spurningunum um hvenær og hvernig stafræn námsúrræði virka best í kennslustofunni er ekki svarað á einfaldan hátt. Menntatæknifyrirtæki þurfa betri skilning á kennsluaðferðum til að þróa viðeigandi og gagnlegri vörur.
Tilraunaverkefnið verður í tveimur íslenskum skólum nú í haust undir forystu Önnu Åkerfeldt, Ifous og Stokkhólmsháskóla, Johannu Karlén frá Swedish Edtech Industry og Ástu Olgu Magnúsdóttur verkefnastjóra hjá Nýsköpunarstofunni.
Verkefnið hlaut styrk úr Þróunarsjóði námsgagna og er hluti af átaki til að efla samstarf milli kennara, fræðimanna, stefnumótenda og fyrirtækja. Niðurstöðurnar munu nýtast í stefnumótun varðandi val á stafrænum námsgögnum í samræmi við aðstæður á Íslandi.
Karin Hermansson, framkvæmdastjóri Ifous, er ánægð með samstarfið. "Við hlökkum til að deila reynslu okkar af Edtest-verkefninu í Svíþjóð. Fyrir okkur snýst þetta fyrst og fremst um að veita kennurum verkfæri til að taka upplýstar ákvarðanir í kennslunni sinni. Tilraunaverkefnið með Háskóla Íslands gefur okkur einnig dýrmæta innsýn sem hjálpar okkur að halda áfram að bæta aðferðafræðina hjá Edtest," segir Karin.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti menntavísindasviðs við Háskóla Íslands, fagnar samstarfinu. "Við sjáum mikið gildi í því að skapa sterkari tengsl milli kennara og menntatæknifyrirtækja. Það tryggir að þau verkfæri sem notuð eru í kennslustofum séu bæði skilvirk og markviss. Samstarfið við Ifous gefur okkur tækifæri til að koma á tilraunavettvangi þar sem við getum prófað og aðlagað menntatækni að einstökum þörfum íslenskra skóla," segir Kolbrún.
Björn Gunnlaugsson, skólastjóri Laugarnesskóla sem tekur þátt í tilraunaverkefninu. "Við í Laugarnesskóla fögnum þessu verkefni og hlökkum til samstarfsins, enda hefur lengi verið þörf fyrir úrræði af því tagi sem hér er verið að þróa. Kennarar kalla eftir skýrum upplýsingum um gagnsemi stafrænna kennslulausna og það er mikilvægt að koma til móts við þær óskir."
Forsaga verkefnisins
Samstarfið er afrakstur fyrri funda og ráðstefna á vegum Háskóla Íslands, þar sem fulltrúar frá Ifous og Swedish Edtech Industry hittu íslenska rannsakendur og menntatæknifyrirtæki, opinberar stofnanir og ráðuneyti. Umræðurnar snerust meðal annars um hvernig hægt væri að styrkja Norrænt samstarf við þróun og notkun stafrænnar kennslutækni.
Samstarfið byggir einnig á þátttöku Ifous í EU-verkefninu EmpowerEd, sem miðar að því að skapa betri skilyrði fyrir þróun og samstarf innan menntatæknigeirans í Evrópu.