Snjallræði verði áfram vettvangur samfélagslegrar nýsköpunar
Fulltrúar Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands undirrituðu í dag samning um áframhaldandi samvinnu um samfélagslega viðskiptahraðalinn Snjallræði. Verkefni sem þróuð hafa verið innan hraðalsins hafa nú þegar haft margvísleg jákvæð áhrif á samfélagið.
Samfélagshraðalinn Snjallræði er samstarfsverkefni Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands en að hraðlinum kemur einnig öflugt net annarra samstarfsaðila. Snjallræði styður við öflug teymi á sviði samfélagslegra lausna og frumkvöðlastarfsemi sem byggist á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það geta verið lausnir sem snúa að heilbrigðisþjónustu og vellíðan, bættu menntakerfi, endurnýtanlegri orku, samgöngumálum og matarsóun, svo dæmi séu tekin. Hraðallinn ýtir þannig undir nýsköpun sem tekst á við áskoranir samtímans og er mikilvægur vettvangur fyrir einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki sem leggja sjálfbærni til grundvallar í sinni kjarnastarfsemi og vilja leiða mikilvægar samfélagsbreytingar.
Höfði friðarsetur og Icelandic Startups hafa umsjón með hraðalinum en einn af meginþáttum hraðalsins grundvallast á fjórum tveggja daga hönnunarsprettum sem Svafa Grönfeldt og samstarfsfélagar hennar frá MIT designX sjá um að leiða í samstarfi við innlenda sérfræðinga á sviði samfélagslegrar nýsköpunar. Snjallræði útvegar aðstandendum verkefnanna einnig áframhaldandi þjálfun og ráðgjöf yfir ríflega fjögurra mánaða tímabil, vinnuaðstöðu í Grósku – hugmyndahúsi og aðgang að neti mentora sem leiðbeina frumkvöðlunum, miðla af reynslu sinni og styðja teymin áfram.
Skrifað var undir samninginn í Grósku, miðpunkti nýsköpunar á háskólasvæðinu, en það gerðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, en Höfði friðarsetur heyrir undir stofnunina. Samningurinn er til tveggja ára og kveður á um að borgin styðji Snjallræði um tíu milljónir króna hvort ár.
Frá því að hraðallinn var settur á laggirnar árið 2018 hefur stór hópur samfélagslegra frumkvöðla nýtt vettvanginn til þess að þróa hugmyndir sínar áfram og koma þeim í framkvæmd úti í samfélaginu. Hugmyndirnar hafa m.a. snúist um ný stuðningsúrræði fyrir fólk með fíknisjúkdóma og geðrænan vanda, nýjar og sjálfbærar leiðir til matræktar, smáforrit til að stuðla að jafnari skiptingu heimilisstarfa, hugbúnað til að styðja fyrirtæki á vegferð sinni til aukinnar sjálfbærni og lyfjaþróun fyrir ung börn í Malaví.
Meðal þeirra verkefna sem þegar hafa haft töluverð jákvæð samfélagsleg áhrif eru Bergið Headspace, sem er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri, Tré lífsins, sem vinnur að því að koma á fót bálstofu og Minningargarði í Garðabæ, og Electra, sem hefur m.a. unnið með SÁÁ að þróun hugbúnaðar sem aðstoðar skjólstæðinga meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi.
Við undirritun samningsins um Snjallræði var jafnframt ritað undir tvo aðra samstarfssamninga milli Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar sem snerta nýsköpun. Annars vegar er um að ræða stofnun og rekstur nýsköpunarstofu menntunar sem verður starfrækt á Vísindagörðum Háskóla Íslands og hins vegar samstarf um starfsþróun, rannsóknir og nýsköpun menntamála. Framkvæmd beggja samninga verður í höndum skóla- og frístundasviðs borgarinnar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.