Skólastofa 21. aldar formlega opnuð við setningu Menntakviku
Menntakvika, árleg ráðstefna Menntavísindasviðs, var sett við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni í gær á Alþjóðadegi kennara. Við sama tilefni var nýtt kennslurými á Menntavísindasviði, skólastofa 21. aldarinnar, tekið formlega í notkun.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, fluttu ávörp við setninguna og töluðu m.a. um að stórauka þurfi fjárframlög ríkisins til menntamála. Þá sé nauðsynlegt að bregðast við manneklu í leik- og grunnskólum og tryggja að öll börn hafi aðgang að frístundastarfi.
„Hlutverk Háskóla Íslands er að þjóna íslensku samfélagi og er stuðningur og samstarf við íslenskt menntakerfi meðal okkar brýnustu viðfangsefna. Menntakvika hefur skapað sér sess sem mikilvægasti farvegur Háskólans fyrir miðlun á þekkingu og rannsóknum sem snúa að starfi tengdum öllum skólastigum,“ sagði Jón Atli enn fremur. Ávarp rektors má nálgast í heild sinni hér.
Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, tók einnig til máls og talaði sérstaklega um góða samvinnu KÍ og Menntavísindasviðs í gegnum tíðina. Mikilvægt væri að leggja ríka áherslu á kennaramenntun á komandi árum og efla rannsóknir á íslensku skólastarfi.
Áslaug Björk Eggertsdóttir, verkefnisstjóri Menntasmiðju og ein þeirra sem sat í starfshóp um skólastofu 21. aldarinnar, kynnti loks fyrir gestum þann tækjabúnað sem er að finna í kennslurýminu. „Í vinnu starfshópsins var lögð áhersla á að rýmið myndi endurspegla fjölbreytni í kennsluháttum og sveigjanleika þar sem Menntavísindasvið sinnir bæði stað- og fjarnemum. Tæknin er hugsuð sem stuðningur við kennara og nemendur og er ætlað að styðja við samstarf og samskipti,“ sagði Áslaug en búið er að fjárfesta í tveimur 75 tommu SMART-skjáum og hreyfanlegri SMART-tússtöflu fyrir rýmið.
„Notebook-forritið sem fylgir SMART-skjáum auðveldar kennurum að fylgjast með samstarfi nemenda og býður upp á utanumhald við kennslu og einkunnagjöf á einum stað. Stofan er jafnframt búin fjölbreyttum húsgögnum, upphækkanlegum borðum og stólum sem hannaðir eru m.t.t. réttrar líkamsbeitingar.“
Menntakvika hófst í morgun en á dagskrá ráðstefnunnar eru hátt í 220 fyrirlestrar sem snerta öll svið menntavísinda. Yfir þúsund þátttakendur hlýða nú á margbreytileg erindi víða í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð.