Skóflustunga tekin að nýju húsi heilbrigðisvísinda
Fyrr í dag var tekin formleg skóflustunga vegna nýs húss Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á lóð Landspítalans í Vatnsmýri. Húsið mun gjörbylta aðstöðu til kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindum en í því munu nær allar deildir Heilbrigðisvísindasviðs sameinast í nýrri rannsókna- og kennslubyggingu. Áætlað er að húsið verði risið á Hringbrautarsvæðinu í nágrenni nýs Landspítala síðla árs 2026 en það verður hátt í 10.000 fermetrar að flatarmáli.
Frumathugun á nýju húsnæði fyrir heilbrigðisvísindi innan Háskóla Íslands hófst árið 2005 og á þeim hartnær tuttugu árum sem eru liðin hafa ýmsir vinnuhópar innan HÍ og víðar komið að hönnun kennslurýma, rannsóknarstofa og skrifstofurýma. Núverandi útfærsla á húsnæðinu er því afrakstur áralangrar þróunar og vinnu sem efla mun kennslu, rannsóknir og nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda.
Heilbrigðisvísindi HÍ undir eitt þak
Fyrir hönd Háskóla Íslands munduðu eftirfarandi skóflurnar: Jón Atli Benediktsson rektor, Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og nemarnir Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir og Daníel Thor Myer, sem bæði eru í sviðsráði Heilbrigðisvísindasviðs og í stúdentaráði HÍ. Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytissjóri Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins tók skóflustunguna í fjarveru Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, beitti skóflunni fyrir hönd Landspítala.
„Þetta er mikill gleðidagur,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, á byggingasvæðinu í dag en húsið mun rísa austan við Læknagarð sem hýsir nú hluta af starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs.
„Við höfðum sett okkur það markmið í stefnu skólans að ljúka við byggingu húsnæðis fyrir Heilbrigðisvísindasvið HÍ og því er það einkar ánægjulegt að finna þann upptakt sem er í verkinu. Á fáum sviðum starfar Háskóli Íslands jafnnáið með atvinnulífinu og á sviði heilbrigðismála og Landspítalinn er okkar stærsti og nánasti samstarfsaðili. Í húsinu sem hér mun rísa munum við mennta stóran hluta þess fólks sem sinnir afar brýnum störfum í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Það er því afar gleðilegt að hér verður aðstaða til kennslu og rannsókna sambærileg við það sem best gerist á heimsvísu.“
Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, sagði að frá stofnun nýs ráðuneytis hefði rík áhersla verið lögð á að styðja við uppbyggingu heilbrigðisvísinda, gæði náms og fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum. Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ væri einn mikilvægasti hlekkurinn í því.
„Ætlunin að fjölga nemendum í læknisfræði úr 60 í 90 í nokkrum skrefum til 2028 og hjúkrunarfræðinemum úr 120 í 150 í HÍ. Með nýrri aðstöðu verður jafnframt hægt að bæta námið, auka gæðin, efla rannsóknir, vísindi og nýsköpun.“
Hún sagði ennfremur að hröð öldun þjóðarinnar kallaði ekki einungis á mun fleiri útskrifaða nemendur í heilbrigðisvísindum heldur einnig á aukna nýsköpun í heilbrigðisþjónustu sem ný og betri aðstaða eigi að geta ýtt undir. „Dagurinn í dag er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð.“
Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindsviðs, sagði það von allra að það umhverfi sem skapist í nýja húsinu muni verða þjóðinni allri til heilla.
„Sameining eininga á sviði heilbrigðisvísinda undir einu þaki mun leiða til meiri samvinnu þvert á þær allar jafnt í kennslu sem rannsóknum. Stoðþjónusta deilda og sviðs sameinast hér í öfluga heild sem vinnur þvert á deildir. Þegar fjölbreytt starfsemi sviðsins er komin undir sama þak má gera ráð fyrir enn frekari grósku og nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda enda mun húsnæðið halda vel utan um þann mannauð sem býr á sviðinu. Þeir miklu rannsóknarinnviðir sem hafa verið að byggjast upp í lífvísindum á undanförnum árum munu einnig vera undir sama þaki í nýju Heilbrigðisvísindahúsi sem mun leiða til betri nýtingar tækja og efla samvinnu og gæði rannsókna í lífvísindum,“ sagði Unnur.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, sagði það mikið fagnaðarefni að nú hilli loks undir að framkvæmdir hefjist við nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs á Hringbrautarlóðinni.
„Um tvö þúsund nemendur í heilbrigðisvísindagreinum stunda nám og sækja þjálfun sína á Landspítala. Þá eru margir sameiginlegir starfsmenn beggja stofnana. Hús Heilbrigðisvísindasviðs á ekki aðeins eftir að styrkja þessa nánu samvinnu Landspítala og Háskóla Íslands við að mennta fólk til starfa í heilbrigðisþjónustu heldur einnig efla vísindastarfsemi stofnanna. Hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahús styrkist án efa mikið með sameiningu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands í hinu nýja húsi við Hringbraut,“ sagði Runólfur sem ennfremur er prófessor við Læknadeild HÍ.
Mikil umbylting á sviði heilbrigðisvísinda
Nýbyggingin mun tengjast Læknagarði sem verður jafnframt endurgerður. Húsnæðið verður sérhannað miðað við þarfir sviðsins, kennslu- og rannsóknaaðstaða verður eins og best verður á kosið. Við hönnun er tekið mið af ólíkum notendahópum og er áhersla lögð á sveigjanleika í nýtingu rýma, algilda hönnun, góða hljóðvist, dagsbirtu og innivist s.s. loftræsingu og hitastig. Hönnuðir eru Verkís verkfræðistofa, TBL arkitektar og JCA arhcitecture.
Byrjað verður á að reisa nýbygginguna mjög fljótlega og er áætlað að hún verði tilbúin til notkunar í lok árs 2026. Stefnt er að því að endurbótum á Læknagarði ljúki um áramótin 2027-2028. Gert er ráð fyrir að hluti af starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs verði flutt í nýju bygginguna áður en hafist verður handa við endurgerð Læknagarðs. Er það gert til að halda samfellu í starfi sviðsins.
Húsið Eirberg, sem frá upphafi hefur hýst Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ á Landspítalalóðinni, verður nýtt áfram af sviðinu eftir því sem þörf krefur.