Sjö styrkir til verkefna um eflingu íslenskrar tungu

Sjö styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Þetta er í níunda skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildarupphæð styrkjanna rúmlega 8,5 milljónum króna.
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða.
Styrkjum var að þessu sinni úthlutað til eftirtalins fræðifólks og nemenda:
Árni Valdason meistaranemi og Ingvar Andrésson BS-nemi, sem báðir nema líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, fyrir verkefnið „Söfnun, skráning og viðbætur við íslensk plöntuheiti í alþjóðlegu samhengi“. Verkefnið miðar að því að greina, uppfæra og bæta við íslensk plöntuheiti í Íðorðabanka Árnastofnunar, tryggja nákvæmni skráninga og finna og bæta við íslenskum nöfnum úr öðrum heimildum. Afurð verkefnisins verður uppfærður gagnagrunnur Íðorðabankans og sérstök vefsíða með flokkun íslenskra plantna, aðgengilegu leitarkerfi og tengingum við alþjóðlega gagnagrunna. Verkefnið stuðlar að eflingu og þróun íslenskrar tungu með því að byggja upp nútímalegt safn íslenskra plöntuheita og veita almenningi aðgang að uppfærðum upplýsingum um íslensk plöntunöfn.
Ása Bergný Tómasdóttir, rannsóknamaður við Málvísindastofnun Háskóla Íslands, fyrir verkefnið „Staðbundinn orðaforði í nútímaíslensku“. Markmið verkefnisins er að safna gögnum um staðbundinn orðaforða í nútímaíslensku og miðla þeim með aðgengilegum hætti á netinu. Gagnasöfnunin fer fram á fyrirhugaðri vefsíðu verkefnisins þar sem hver sem er getur lagt sitt af mörkum með því að svara stuttri könnun. Auk þess að svara spurningum um orðanotkun veita þátttakendur helstu bakgrunnsupplýsingar. Gagnasafnið er svo notað til að búa til gagnvirk landakort á vefsíðunni þar sem sjá má dreifingu svara eftir uppruna þátttakenda. Vefkönnunin hefur engin tímamörk og því munu sístækkandi gagnasafnið og kortin gefa sífellt betri mynd af staðbundinni orðanotkun á Íslandi. Verkefnið hefur hvort tveggja fræðilegt og hagnýtt gildi. Með því eykst þekking á staðbundnum orðaforða í nútímamáli sem verður þar að auki miðlað með nýstárlegum hætti sem nýtist jafnt almennu áhugafólki um íslensku, nemendum og fræðimönnum. Fyrirmynd verkefnisins er breska vefsíðan Our dialects.
Kolbrún Friðriksdóttir, lektor í íslensku sem öðru máli við Hugvísindasvið, hlaut styrk fyrir rannsóknarverkefnið „Notkun stuðningsmiðla við ritun meðal BA-nema í íslensku sem öðru máli“. Verkefnið beinist að notkun orðabóka og annarra stuðningsmiðla meðal BA-nema í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvort og þá hvaða stuðningsmiðla nemarnir nota við ritun á íslensku og hvernig þeir eru notaðir. Einnig verður leitt í ljós hvort þjálfun í notkun stuðningmiðla sé hluti af námi nemenda við námsleiðina. Rannsóknin byggist á eigindlegum og megindlegum gögnum frá nemum á þremur námsárum auk gagna frá kennurum sem verður aflað með spurningakönnunum. Sjónarhorn þeirra sem nota stuðningsmiðla hefur fengið litla athygli í rannsóknum og notkun stuðningsmiðla við ritun meðal annarsmálshafa íslensku hefur ekki verið rannsökuð fram að þessu. Verkefnið getur haft hagnýtt gildi m.t.t. orðabókagerðar og frekari þróunar máltækniverkfæra fyrir annarsmálshafa íslensku. Einnig getur það fært kennurum vitneskju um þarfir þessa hóps við beitingu málsins sem getur leitt til frekari kennsluþróunar í íslensku sem öðru máli.
Max Naylor, íslenskukennari og stofnandi Tungu Education, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, hlutu styrk til að gera 10 þátta hlaðvarp um íslenska tungu. Í Stöðu málanna verður fjallað um íslenskt mál frá málvísindalegu, sögulegu, menningarlegu og félagslegu sjónarhorni. Viðfangsefni verða meðal annars áhrif ensku og dönsku á íslensku, nýlegar breytingar í málinu og málumhverfinu á Íslandi og áskoranir tengdar íslenskri tungu. Markmiðið með verkefninu er að stuðla að upplýstri og jákvæðri umræðu í samfélaginu um íslenska tungu og stöðu hennar. Staða málanna verður vettvangur fyrir fróðleg og uppbyggileg samtöl um íslenska tungu. Jafnframt verður skemmtilegum staðreyndum og rannsóknum í málvísindum miðlað til almennings á skýru og aðgengilegu máli.
Vala Hauksdóttir, meistaranemi í ritlist við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, fyrir hönd Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist, og meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sömu deild. Styrkurinn verður nýttur til útgáfu á bókinni Marginalía, sem er akademísk hrollvekja og segir frá reimleikum í Eddu, húsi íslenskunnar. Í henni mætast íslenskufræðingurinn Styrkár og blaðakonan Garún. Hryllingur verður alls ráðandi þegar ógnandi nærvera læsir þau inni í lærdómssetrinu og neyðir þau til að mæta gömlum draugum. Gleymdar miðaldasögur og menningararfurinn flækist í baráttu þeirra við forynjur sem heltaka Eddu. Nóvellan er samskotsverk fjögurra meistaranema í ritlist og verkinu er ritstýrt af þremur meistaranemum í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Marginalía er ein samfelld frásögn en höfundar skrifa kafla bókarinnar á víxl og gefa Marginalíu margraddað yfirbragð. Bókin er væntanleg í júní hjá Króníku bókaútgáfu.
Þóra Másdóttir, dósent við námsleið í talmeinafræði á Heilbrigðisvísindasviði, fyrir verkefnið „Stöðlun málþroskaprófsins Málfærni íslenskumælandi grunnskólabarna (MÍSL-G)“. Styrkurinn verður nýttur til að undirbúa stöðlun nýs málþroskaprófs fyrir börn á aldrinum 6-10 ára. Prófinu er ætlað að bera kennsl á yngri grunnskólabörn með slakan málþroska svo hægt sé að styrkja færni þeirra í notkun tungumálsins. Einkum er einblínt á málþætti eins og setningafræði, orðhluta- og beygingarfræði og merkingarfræði en ekki er síður mikilvægt að fylgjast með færni barna í félagslegum samskiptum þar sem tungumálið er hornsteinninn. Vísindalegt gildi rannsóknarinnar felst helst í athugun á málþroska yngri grunnskólabarna en rannsóknir af þeim toga hafa verið af skornum skammti fram að þessu. Upplýsingarnar sem fást munu nýtast talmeinafræðingum og vísindamönnum sem rannsaka máltöku barna, málskilning, máltjáningu og félagslega notkun tungumálsins. Unnið er að forprófun á MÍSL-G og er markmið verkefnisins að útbúa prófgögn og undirbúa stöðlun próftækisins á landsvísu.
Þórunn Rakel Gylfadóttir, meistaranemi í ritlist við Hugvísindasvið og Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir, aðjunkt við Íslensku- og menningardeild HÍ og verkefnisstjóri Íslenskuþorpsins, hlutu styrk fyrir verkefnið „Leikskólaíslenska“. Samið verður sérhæft námsefni í íslensku tileinkað málheimi leikskólans. Efnið mun nýtast til að þjálfa málleikni á fjölbreyttan hátt og er sérstaklega ætlað foreldrum af erlendum uppruna sem eiga leikskólabörn á Íslandi. Námsefnið byggist á örsögum sem samdar hafa verið fyrir sama markhóp og tengist efni þeirra daglegu lífi í leikskólanum, menningu, siðum og venjum og óskrifuðum reglum samfélagsins. Námsefnið verður unnið í samvinnu við Íslenskuþorpið sem er kennsluverkefni í íslensku sem öðru máli þar sem lögð er sérstök áhersla á tungumálanám í raunverulegum aðstæðum og hvatt er til samskipta í hversdagslífinu. Námsefnið verður útgefið á rafrænu formi og verður öllum opið.
Nánar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur
Áslaug Hafliðadóttir arfleiddi Háskóla Íslands að stórum hluta eigna sinna, samanlagt um 120 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskrá Áslaugar skyldu fjármunirnir nýttir til að efla íslenska tungu og það skilyrði var sett að sjóðurinn yrði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða til stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli, Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emerita í íslenskum nútímabókmenntun, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans.
Styrkþegar úr Áslaugarsjóði ásamt rektor Háskóla Íslands og stjórn og verkefnisstjóra sjóðsins við úthlutun styrkjanna í Hátíðasal Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson