Sjálfbærni auðlinda og öflugt háskólasamstarf á netráðstefnu Aurora
Haustráðstefna Aurora stendur yfir á netinu og fjöldi opinna fyrirlestra er í boði. Háskólinn í Duisburg-Essen skipuleggur ráðstefnuna að þessu sinni og í brennidepli er sjálfbærni auðlinda og leiðir til að efla nám, rannsóknir og nýsköpun með háskólasamstarfi Aurora.
Meðal umfjöllunarefna er sjálfbærni í ferðaþjónustu og vatnsauðlindir. Auk þess munu starfsfólk og nemendur Aurora-háskólanna miðla sinni reynslu af háskólasamstarfinu.
Nánari upplýsingar eru í dagskrá ráðstefnunnar. (Athugið að íslenskar tímasetningar í skjalinu eru -1 klst).
Fjölbreytt tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk
Við setningu ráðstefnunnar sagði Jón Atli Benediktsson, forseti Aurora og rektor HÍ, að margvísleg tækifæri hefðu skapast fyrir nemendur og starfsfólk háskólanna síðan Aurora-samstarfið var stofnað árið 2016 og að nú væri nýr kafli í samstarfinu handan hornsins þegar sótt yrði um áframhaldandi fjármögnun frá Evrópusambandinu í upphafi næsta árs sem eitt af bandalögum evrópskra háskóla.
Í kynningu á þátttöku nemenda í Aurora kom fram að alls hafa 102 nemendur háskólanna sótt um að taka virkan þátt í þróun samstarfsins á næstu mánuðum, þar af 26 frá HÍ. Nemendurnir munu meðal annars taka þátt í þróun sameiginlegra námsleiða Aurora-háskólanna.
Kveðjur frá fulltrúum HÍ
Nokkrir fulltrúar Aurora-háskólanna, sem hafa verið virkir í samstarfinu, voru fengnir til að senda stutta kveðju í tilefni ráðstefnunnar og næstu skrefa í háskólasamstarfinu. Hér eru kveðjur fulltrúa Háskóla Íslands:
Magnús Þór Torfason, dósent í nýsköpun og viðskiptaþróun
Alma Ágústsdóttir, forseti Stúdentaráðs Aurora og alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs HÍ
Guðrún Geirsdóttir, dósent í uppeldis- og kennslufræðum og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar HÍ
Auður Inga Rúnarsdóttir, verkefnisstjóri vísinda og nýsköpunar