Sigruðu í MEMA-hraðlinum með teiknimyndasögu tengda loftslagsaðgerðum

Teymið Are We the Boiling Frog? úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla bar sigur úr býtum í MEMA-nýsköpunarhraðlinum með hugmynd sem sameinar á einstakan hátt list og tækni. Úrslit hraðalsins voru kunngjörð á lokahátíð hraðalsins í Grósku föstudaginn 28. nóvember.
Fab Lab Reykjavík stendur árlega að hraðlinum með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Háskóla Íslands. Hann er ætlaður nemendum á framhaldsskólastigi og styður við þróun nýsköpunarlausna sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hraðlinum er þannig ætlað að efla tæknilega þekkingu og lausnamiðaða hugusun hjá ungu fólki í tengslum við áskoranir framtíðarinnar.
Menntamaskínuhraðallinn eða MEMA-hraðallinn samanstendur af fimm meginþrepum: Þekkingarspretti, Hönnunarspretti, Tæknispretti, Þróunarspretti og Lokaspretti. Í gegnum þrepin fá þátttakendur aðgang að tæknilegum stuðningi, námskeiðum og leiðsögn sérfræðinga. Háskóli Íslands styður m.a. vel við þekkingarsprett hraðalsins sem leggur fræðilegan grunn að sköpunarvinnu þátttakenda.
Áherslan í nýsköpunarhraðlinum í ár var á heimsmarkmið 13, sem tengist aðgerðum í loftslagsmálum. Teymi úr tveimur framhaldsskólum, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Fjölbrautaskólanum við Ármúla, tóku þátt í hraðlinum að þessu sinni og þau hafa unnið að hugmyndum sínum undanfarna mánuði. Þau kynntu svo hugmyndirnar nýverið fyrir dómnefnd sem valdi bestu hugmyndina.
Óhætt er að segja að samkeppnin hafi verið gríðarlega hörð og hugmyndirnar fjölbreyttar en að þessu sinni bar teymið Are We the Boiling Frog? úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla sigur úr býtum sem fyrr segir. Það er skipað þeim Patriciu Birimumaso, Norhu Calvo Corotenco, Malini Sakundet og Heorhii Tkachenko.
Lausn þeirra einfaldar flókin loftslagsmál og hvetur ungt fólk til aðgerða. Verkefnið byggist á gagnvirkri teiknimyndasögu sem nýtir suðupottarlíkínguna (e. boiling frog analogy) til að sýna hvernig hægfara loftslagsbreytingar geta farið fram hjá okkur. Eftir hvern kafla sögunnar geta lesendur valið hvort þeir „hoppi úr pottinum“ og fái þá raunhæfa loftslagsaðgerð sem hægt er að framkvæma strax eða „sitji áfram í pottinum“ og fá þá fræðslu um staðreyndir tengdar loftslagsbreytingum. Aðeins með því að velja aðgerðir í hvert skipti er hægt að klára söguna. Í verkefninu er list og tækni blandað saman til að gera loftslagsmálin aðgengilegri fyrir börn, unglinga og fjölskyldur. Dómnefndin hrósaði verkefninu fyrir áhrifaríka fræðslu, sterka listræna framkvæmd og skýra tengingu við aðgerðir í loftslagsmálum. Lausnin var talin sérstaklega aðgengileg þar sem hún einfaldar flókin loftslagsvísindi í áhrifaríka sögu með einföldum aðgerðum.
Vinningsteymið hlaut 200.000 króna verðlaunafé frá Huawei, Háskóli Íslands fellir niður skrásetningargjöld fyrir liðsmenn í eitt skólaár, kjósi þeir að hefja nám í skólanum og Fab Lab Reykjavík veitir teyminu 100.000 króna þróunarstyrk í smiðjunni.
Nánar um MEMA-hraðalinn á mema.is.
