Sex nýir prófessorar við Hugvísindasvið

Sex fræðimenn fengu framgang í starf prófessors við Hugvísindasvið Háskóla Íslands á liðnu ári. Efnt var til samkomu þeim til heiðurs í Hátíðasal Aðalbyggingar háskólans síðastliðinn föstudag þar sem prófessorarnir kynntu sérsvið sín og viðfangsefni.
Prófessorarnir sex eru:
• Auður Hauksdóttir er prófessor í dönsku við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Hún er með doktorsgráðu í dönsku frá Kaupmannahafnarháskóla og hefur starfað við Háskóla Íslands frá 1998. Hún hefur um árabil verið forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
• Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild. Hún er með doktorsgráðu í samanburðarbókmenntum frá University of London og kenndi einnig þar um skeið. Hún hefur starfað við Háskóla Íslands frá 2004.
• Jón Ólafsson er prófessor í rússneskum fræðum við Deild erlendra tungumála (50%) og í menningarfræði við Íslensku- og menningardeild (50%). Hann var áður í starfi prófessors við Háskólann á Bifröst og um hríð aðstoðarrektor þar. Hann er með doktorsgráðu í heimspeki frá Columbia-háskóla í New York og lauk einnig gráðu í rússneskum fræðum við sama skóla.
• Sólveig Anna Bóasdóttir er prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Hún er með doktorsgráðu í guðfræðilegri siðfræði frá Uppsala-háskóla og gegndi lektorsstarfi við þann skóla. Hún hefur verið lektor og síðar dósent við Háskóla Íslands frá árinu 2008.
• Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Sagnfræði- og heimspekideild. Hann lauk meistaraprófí í miðaldafræði við Leeds-háskóla og doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem aðjunkt í sagnfræði og síðar lektor frá árinu 2010.
• Þórhallur Eyþórsson er prófessor í málvísindum við enskunámsbraut Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Hann er með doktorsgráðu í málvísindum frá Cornell-háskóla og starfaði við þann skóla, Harvard-háskóla og Manchester-háskóla áður en hann hóf störf sem sérfræðingur við Háskóla Íslands árið 2005.

