Skip to main content
28. febrúar 2022

Samstarf um nýtt meistaranám í eyjum og sjálfbærni

Samstarf um nýtt meistaranám í eyjum og sjálfbærni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands, Háskólinn í Groningen í Hollandi, Háskóli Eyjahafs í Grikklandi og Háskólinn í Las Palmas de Gran Canaria á Spáni bjóða saman upp á nýtt sameiginlega Erasmus+ Mundus meistaranám í eyjum og sjálfbærni (ISLANDS). Samstarfið hefur hlotið styrk að upphæð 3,6 milljónir evra frá Evrópusambandinu undir Erasmus+ áætluninni. 

Eyjar hafa mikla sérstöðu þegar litið er til sjálfbærrar þróunar. Innan hins alþjóðavædda samfélags nútímans standa eyjasamfélög í mörgum tilfellum frammi fyrir efnahagslegri, félagslegri, pólitískri og menningarlegri jaðarsetningu nema þau vinni saman. Samstarfs er þörf í rannsóknum og fræðslu um leiðir til að stjórna slíkum samfélögum og stuðla að uppbyggingu þeirra. Að öðlast skilning á áskorunum og finna árangursríkar leiðir til að þróa möguleika lítilla eyja krefst alþjóðlegrar fræðilegrar samvinnu þar sem horft er lengra en á sérkenni einstakra eyja. Merkjanleg eftirspurn er eftir vönduðu meistaranámi um sjálfbæra þróun eyjasamfélaga þar sem veitt er þjálfun og sérfræðiþekking á þessu sviði. Því hafa Háskóli Íslands, Háskólinn í Groningen, Háskóli Eyjahafs og Háskólinn í Las Palmas de Gran Canaria hafa tekið höndum saman um að setja upp samþætt og metnaðarfullt nám á meistarastigi um eyjar.

Námsskipulag

ISLANDS-meistaranámið sameinar haldgóða almenna þjálfun í vísindarannsóknum og efnistengda sérhæfingu á sviði eyja og sjálfbærni. Það veitir einnig margþætta hæfni til rannsókna á sviði félagsvísinda og umhverfisfræða. Nemendur njóta handleiðslu virtra kennara við þjálfun til að stunda sjálfstæðar rannsóknir og verða einnig færir um að vinna með öðrum í þverfræðilegum rannsóknahópum. Námskeið um eigindlegar, megindlegar og blandaðar aðferðir eru á dagskrá auk námskeiða um vísindalæsi, ígrundun röksemda og rökræður, akademísk skrif á ensku og verkferla í rannsóknum.

Nemendur á ISLANDS-námsleiðinni hefja nám við Háskólann í Groningen þar sem þeir eru á fyrsta námsmisserinu og fram á annað misseri. Síðari hluta annars misserisins fara þeir til náms við einn hinna skólanna í samstarfsnetinu þar sem þeir taka starfsþjálfunarnámskeið. Þeir snúa svo aftur til Groningen á fyrra misseri annars ársins og eru að lokum í eitt misseri við einhvern hinna háskólanna til að vinna að lokaritgerð sinni til meistaragráðu. Nemendur brautskrást með tvöfalda gráðu, bæði frá þeim háskóla þar sem lokaverkefnið er unnið og Háskólanum í Groningen, og fá einnig formlega viðurkenningu á því að um sé að ræða sameiginlega Erasmus Mundus meistaragráðu, sem tekur til allra samstarfsháskólanna. ISLANDS-námið nýtur einnig stuðnings sex samstarfsaðila. Meðal þeirra eru stofnanir á háskólastigi, rannsóknastofnun, lítil og meðalstór fyrirtæki og frjáls félagasamtök, þar á meðal jarðvangarnir Katla Geopark og Reykjanes Geopark á Íslandi. 

Styrkir

Nánari upplýsingar um ISLANDS-námið og auglýsing um umsóknir verða birtar á nýrri vefsíðu námsins í byrjun árs 2022. Styrkir frá ESB verða í boði fyrir 15 nemendur á hverju ári að jafnaði og geta nemendur sótt í einu lagi um námið sjálft og styrk til þess. Styrkurinn tekur til skólagjalda, ferða og framfærslu. Auglýst verður eftir umsóknum í febrúar 2022 og umsóknarfrestur rennur út 15. mars 2022.

Frekari upplýsingar er að finna á vef ISLANDS-námsleiðarinnar.

Nánar um námið

Hinu nýja alþjóðlega meistaranámi er stýrt og samræmt af dr. Dimitris Ballas, prófessor við landvísindadeild Háskólans í Groningen, í nánu samstarfi við dr. Frans Sijtsma, dr. Paul van Steen og samstarfsmenn við hina þrjá háskólana: Dr. Thanasis Kizos við Háskóla Eyjahafs, dr. Rodrigo Riera við Háskólann í Las Palmas de Gran Canaria og dr. Benjamin Hennig, prófessor í landfræði við Háskóla Íslands. Námið byggist á löngu samstarfi þessara aðila, sem einnig hafa stofnað til raðar sumarnámskeiða undir yfirskriftinni Islands as Laboratories for Sustainability

Logo Islands