Skip to main content
9. janúar 2020

Samstarf um eflingu rannsókna í hreyfivísindum

•    Rannsóknastofa í hreyfivísindum fær hátæknibúnað að gjöf
•    Mikil sóknarfæri í hreyfivísindum fyrir íslenskt vísindafólk

Fyrirtækið NeckCare Holding ehf. og Háskóli Íslands undirrituðu á dögunum samstarfssamning um eflingu rannsókna í hreyfivísindum við námsbraut í sjúkraþjálfun innan Læknadeildar Háskóla Íslands.

NeckCare Holding ehf. er íslenskt fyrirtæki sem þróar framsækinn hátæknibúnað til hlutlægs mats á stoðkerfisvanda, s.s. í hálsi, sem nýtist jafnt til greiningar og endurhæfingar. Einkaleyfisvernduð tækni félagsins gerir mögulegt að veita fagaðilum á heilbrigðissviði aðstoð við hlutlægt mat á hálsskaða og viðeigandi endurhæfingu þeirra sjúklinga sem um ræðir, s.s. þeirra sem hlotið hafa endurtekna og langvarandi hálsáverka. Hátæknivörur NeckCare eru einkaleyfisverndaðar í þremur heimsálfum og hafa vakið mikla athygli erlendis.

Framkvæmdastjóri NeckCare, Þorsteinn Geirsson, rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, og Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun skrifuðu undir samstarfssamninginn.

„Það er okkur sönn ánægja að vinna með NeckCare sem hefur þróað vélbúnað og hugbúnað sem hefur mikla sérstöðu á heimsvísu,“ segir Kristín Briem. „Í þessu þróunarstarfi hefur NeckCare unnið þétt með innlendum sem erlendum háskóla- og vísindasamfélögum. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá afraksturinn nýtast nemendum við Háskóla Íslands til enn frekari þekkingaröflunar og rannsókna á sviði hreyfivísinda og sjúkraþjálfunar.“

Sérfræðiþekking í hreyfivísindum skapar mikil sóknarfæri

„Tækifærin í þessu samstarfi felast m.a. í að skapa sérfræðiþekkingu í hreyfivísindum hér á landi og um leið öðlast samfélag okkar mikil sóknarfæri inn á innlenda og erlenda heilbrigðistæknimarkaði,“ segir Sigurður Kristinn Egilsson, stjórnarformaður NeckCare. „Okkur er umhugað um að miðla þekkingu og við erum sannfærð um að sá hátæknibúnaður sem NeckCare færir nú Háskóla Íslands að gjöf muni gagnast Rannsóknarstofu í hreyfivísindum ákaflega vel. Það er okkur mikill heiður að fá að styðja við svo metnaðarfullt verkefni við námsbraut í sjúkraþjálfun og Rannsóknarstofa í hreyfivísindum er og við vonumst sannarlega til að framlag okkar verði bæði kennurum og nemendum hvati til að efla rannsóknastarf á sviði heilbrigðistækni.“
 

Frá undirritun samstarfssamnings NeckCare og Háskóla Íslands. Neðri röð frá vinstri:  Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Þorsteinn Geirsson, framkvæmdastjóri NeckCare. Efri röð frá vinstri: Atli Ágústsson, aðjunkt við námsbraut í sjúkraþjálfun, Engilbert Sigurðsson, forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, Guðný Lilja Oddsdóttir, aðjunkt við námsbraut í sjúkraþjálfun, Magnús Kjartan Gíslason, dósent við Háskólann í Reykjavík, og Sigurður Kr
Framkvæmdastjóri NeckCare, Þorsteinn Geirsson, rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, og Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun skrifuðu undir samstarfssamninginn.