Samspil þekkingarsamfélagsins og byggðaþróunar kannað
Anna Guðrún Edvardsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í menntavísindum, "Samspil þekkingarsamfélagsins og byggðaþróunar á Íslandi og í Skotlandi", við Uppeldis- og menntunarfræðideild Háskóla Íslands.
Andmælendur við doktorsvörn Önnu voru Philomena De Lima, forstöðumaður UHI Centre for Remote and Rural Studies í Skotlandi, og Kristinn Hermannsson, lektor við Háskólann í Glasgow.
Aðalleiðbeinandi var Allyson Macdonald, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi Frank Rennie, prófessor við Highlands and Islands háskóla í Skotlandi. Auk þeirra sat í doktorsnefnd Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Ólafur Páll Jónsson, prófessor og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar við Menntavísindasvið, stjórnaði athöfninni sem fram fór þann 9. desember í Hátíðasal Háskóla Íslands.
Um efni ritgerðarinnar
Á tíunda áratug 20. aldar beindust augu stjórnvalda á Íslandi og Skotlandi að uppbyggingu þekkingarsamfélagsins. Í öllum landshlutum hér á landi eru háskólasetur og/eða rannsóknarstofnanir sem ýmist starfa sjálfstætt eða sem hluti af stærri stofnunum. Svipuð þróun átti sér stað í Skotlandi með stofnun háskóla sem þjónað gæti Hálöndunum og eyjum Skotlands.
Í rannsókninni er samspil þekkingarsamfélagsins og byggðaþróunar á Vestfjörðum, Austurlandi og á Vestureyjum Skotlands kannað. Í því augnamiði verða athuguð áhrif ákveðinna sögulegra atburða á dreifðar byggðir; hin pólitíska orðræða um atburðina verður greind; og skoðað verður hvort og þá hvernig háskólamenntun og rannsóknastarfsemi hvetur fólk til að hafa áhrif á samfélagið sitt.
Helstu niðurstöður eru þær að mikla áherslu á efnahagsmál er að finna í verkefnum sem beinast að byggðaþróun. Hins vegar er einnig að finna umhverfis- og félagslegar áherslur en vegna efnahagslegrar slagsíðu verða umhverfis- og félagslegir þættir lítið áberandi og léttvægir og þátt menningar er vart að finna. Þó er þessi mikli slagþungi á efnahagsmál ekki bundin rannsóknarsvæðunum heldur endurspeglar hann hið alþjóðlega samhengi og stefnumörkun á landsvísu og myndar grunn fyrir áherslur í byggðaþróun á hverjum tíma. Stefna núverandi stjórnvalda er að skapa sjálfbær samfélög sem sýnt geta seiglu en til þess verða allar framangreindar áherslur að vera innbyggðar í byggðaþróunarverkefnum.
Að lokum eru sett fram þrjú viðmið sem gætu aukið seiglu samfélaga og stuðlað að því að þau verði sjálfbær. Þar er þekkingarsamfélagið í lykilhlutverki. Fyrsta viðmiðið er að skapa samstarf á breiðum grunni meðal hagsmunaaðila við gerð samfélagsáætlana. Annað viðmiðið er að stofna samfélagssjóð sem heldur utan um náttúruauðlindir hvers samfélags. Þriðja viðmiðið er að skapa svæðisbundið samstarf og/eða á landsvísu á milli háskóla, rannsóknarstofnana og þekkingarsetra.
Um Önnu
Anna Guðrún Edvardsdóttir er fædd árið 1960. Hún starfar sem kennari við Mími Símenntun en hefur einnig starfað sem kennari á grunn- og framhaldsskólastigi og var skólastjóri við Grunnskóla Bolungarvíkur um árabil. Anna Guðrún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands og meistaraprófi í stjórnun menntastofnana frá sama skóla. Anna Guðrún er gift Kristjáni Arnarsyni, og eiga þau tvo syni, þá Þorbjörn og Óskar.