Sæmundur ungur vísindamaður Landspítala 2024 og fjórir hvatningastyrkir
Uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindi á vordögum, var haldin í Hringsal 23. apríl 2024. Margvíslegar viðurkenningar voru veittar að þessu tilefni. Þannig var Jón Gunnlaugur Jónasson er valinn heiðursvísindamaður Landspítala 2024 fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. Hann er yfirlæknir á meinafræðideild Landspítala og prófessor í meinafræði við Háskóla Íslands en Jón Gunnlaugur lauk kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands vorið 1982. Á hinum endanum var Sæmundur Rögnvaldsson heiðraður sem ungur vísindamaður Landspítala 2024 en Rögnvaldur lauk doktorsprófi við Læknadeild HÍ 2022.
Sæmundur lauk læknanámi við Háskóla Íslands haustið 2017 en vísindaferill hans hófst árið 2016 þegar hann hóf doktorsnám undir handleiðslu Sigurðar Yngva Kristinssonar blóðlæknis og prófessors. Síðan þá hefur Sæmundur starfað náið með Sigurði og öðru samstarfsfólki við rannsóknina Blóðskimun til bjargar, lýðgrundaða skimunarrannsókn á Íslandi með það að markmiði að kanna mögulegan ávinning þess að skima fyrir góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. Monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) sem er forstig mergæxlis og skyldra krabbameina.
Sæmundur varði doktorsritgerð sína „Góðkynja einstofna mótefnahækkun?“ um klínískt mikivægi MGUS í október 2022. Eftir doktorsútskrift hefur hann haldið áfram sem hluti rannsóknarteymis Blóðskimunar til bjargar en einnig lagt áherslu á að rannsaka tilurð MGUS og þannig upphaf þessara krabbameina og tengsl MGUS við ýmsa sjúkdóma sem ekki eru krabbamein.
Sæmundur fékk nýlega verkefnastyrk frá Rannís til að rannsaka betur tengsl MGUS og annarra sjúkdóma auk þess sem hann fær nú hvatningastyrk úr Vísindasjóði Landspítala til að hefja rannsóknir á frumum í nærumhverfi krabbameinsfruma í MGUS.
Sem klínískur læknir hefur Sæmundur starfað víðsvegar um land en starfar nú fyrst og fremst sem sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala. Meðfram því hefur hann verið virkur í kennslu við læknadeild HÍ og er nú umsjónarkennari rannsóknarverkefna læknanema auk þess sem hann hefur leiðbeint fjölda BSc og MSc nema í læknavísindum.
Sem kennari, læknir og rannsakandi leggur Sæmundur mikla áherslu á samþættingu klínískra starfa og vísinda og trúir á gagnsemi og samlegðaráhrif sem felast í því að nota og skapa nýja þekkingu á sama tíma.
Sæmundur Rögnvaldsson er sérnámslæknir í lyflækningum og nýdoktor við Háskóla Íslands.
Fjórir hvatningarstyrkir afhentir á Vísindum á vordögum 2024
Á uppskeruhátíðinni Vísindi á vordögum í Hringsal þann 23. apríl 2024, voru afhentir úr Vísindasjóði Landspítala fjórir hvatningarstyrkir, hver styrkur að upphæð 5 milljónir króna. Sjóðurinn úthlutaði síðast sérstökum hvatningarstyrkjum árið 2015. Stjórn sjóðsins ákvað að árið 2024 skyldi veita 20 milljónum króna til fjögurra metnaðarfullra verkefna og að afhending styrkjanna færi fram á sama tíma og afhending verkefnastyrkja sjóðsins færi fram. Auglýst var eftir styrkjunum samhliða verkefnastyrkumsóknum og sá háttur hafður á að þau hvatningarverkefni sem ekki hlytu framgang til hvatningastyrkja færu sjálfkrafa inn í sjóðinn sem umsóknir um verkefnastyrk. Vísindaráð Landspítala ber ábyrgð á og hefur umsjón með matsferli hvatningastyrkja og gerir tillögu til stjórnar sjóðsins.
Hvatningarstyrkir 2024
Hans Tómas Björnsson, yfirlæknir á Erfða- og sameindalæknisfræðideild og prófessor við Háskóla Íslands.
Nafn verkefnis: Elucidation of transcriptional regulators of the mild hypothermia response.
Meðumsækjendur og samstarfsaðilar: Kimberley Jade Andersson, Kévin Jean Antonio Ostacolo og Kijin Jang.
Stefanía P. Bjarnarson, náttúrufræðingur á Ónæmisfræðideild.
Nafn verkefnis: Is primary induction through the mucosal route superior to parenteral priming in a heterologous prime-boost immunization strategy to overcome limitations in memory induction during early life?
Meðumsækjendur og samstarfsaðilar: Ingileif Jónsdóttir, Þórunn A. Ólafsdóttir, Jan Holmgren, Gabriel Kristian Pedersen.
Sæmundur Rögnvaldsson, nýdoktor og sérnámslæknir á Bráða-, lyflækninga- og endurhæfingardeild.
Nafn verkefnis: Nýting einfrumu RNA raðgreiningar til kortlagningar á nærumhverfi krabbameinsfruma í þróun mergæxlis.
Meðumsækjendur og samstarfsaðilar: Sigurður Yngvi Kristinsson, Jón Þórir Óskarsson.
Viðar Örn Eðvarðsson, yfirlæknir á Barnalækningum og prófessor við Háskóla Íslands.
Nafn verkefnis: Mechanisms of kidney injury in 2,8-dihydroxyadeninuria.
Meðumsækjendur og samstarfsaðilar: Runólfur Pálsson, Þórarinn Guðjónsson, John C. Lieske, Óttar Rolfsson, Margrét Þorsteinsdóttir