Skip to main content
2. maí 2025

Rýnir í sýn innflytjenda frá baltnesku löndunum og Póllandi á efri árin

Halldór Sigurður Guðmundsson

Hvað ætlar stór hópur innflytjenda frá baltnesku löndunum og Póllandi að gera þegar þeir ná lífeyrisaldri? Munu þeir setjast að á Íslandi eða snúa aftur til heimalanda sinna? Þetta er meðal þeirra spurninga sem Halldór S. Guðmundsson, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, leitast við að svara í nýrri rannsókn. „Við viljum kortleggja hvort fólk, sérstaklega yfir fimmtugt, sé byrjað að skipuleggja efri árin sín. Einnig er áhugavert að skoða hvaða þættir hafa áhrif á þessar ákvarðanir," útskýrir Halldór.

Skiptir máli að vita hvort þessi hópur muni eldast á Íslandi

Halldór segir að rannsóknin hafi kviknað upp úr samstarfi sem hófst árið 2021. „Ég fór að vinna með fólki frá Lettlandi og Svíþjóð og síðan bættust fleiri lönd við, þar á meðal Litháen," segir hann. Í verkefninu voru málefni eldra fólks í brennidepli. „Við fórum að ræða þætti eins og lífeyrismál og hvernig íslenska ríkið tryggir ákveðin réttindi sem ekki eru til staðar í þessum löndum."

Ástæður fyrir vali viðfangsefnisins eru bæði samfélagslegar og hagnýtar. „Þetta mun hafa mikil áhrif á það hvernig við skipuleggjum velferðarþjónustu á Íslandi," útskýrir Halldór. „Það skiptir máli að vita hvort þessi hópur muni eldast á Íslandi eins og Íslendingar eða fara aftur heim til að lifa þar síðustu árin." Hann segir þetta einnig skipta máli fyrir stjórnvöld, lífeyrissjóði og sveitarfélög því ákvarðanir þessa hóps geti haft áhrif á tekjur og útgjöld hins opinbera.

Þó að rannsóknin sé á byrjunarstigi eru fyrstu skrefin þegar farin af stað. „Við erum að byrja á því að senda út spurningalista í samfélög Pólverja, Letta og Litháa á Íslandi til að kanna væntingar þeirra,“ útskýrir Halldór. Hann bætir við að næstu skref verði viðtöl við tiltekna hópa innan úrtaksins til að dýpka skilning á því hvaða breytur hafa áhrif á ákvarðanir þeirra. „Þetta er mikilvæg vídd því hún snýst um hvernig við ætlum að byggja upp þjónustu á Íslandi."

Hefur áhrif á skipulag velferðarþjónustu á Íslandi

Halldór leggur áherslu á að rannsóknin hafi bæði félagslegt og hagfræðilegt gildi. „Þetta mun hafa veruleg áhrif á það hvernig við ætlum að skipuleggja velferðarþjónustu á Íslandi. Ætlum við að byggja upp þjónustu fyrir pólskumælandi fólk eða íslenskumælandi fólk? Mun þessi hópur eldast eins og Íslendingar og lifa til 86 ára aldurs eða mun hann eldast eins og samlandar sínir og lifa í skemmri tíma?" spyr hann. Auk þess bendir hann á hagnýtt gildi rannsóknarinnar fyrir stjórnvöld. „Við höfum ekki spurt innflytjendur að þessu áður, hvað þeir hyggjast gera þegar þeir eldast og hvort þeir þekki réttindi sín," segir Halldór.

Hann bendir einnig á að þetta geti haft áhrif á útgjöld hins opinbera og greiðslur lífeyrissjóða. „Það eru um það bil fimm þúsund manns sem eru 50 ára og eldri á Íslandi af erlendum uppruna frá þessum samfélögum. Ef ég skoða fjöldann sem er 40 ára og eldri þá tvöfaldast talan. Það er augljóst að það er stór hópur sem er orðinn hluti af samfélaginu.“

Halldór vinnur rannsóknina með blönduðum aðferðum. „Við notum bæði megindlegar og eigindlegar aðferðir,“ segir hann. „Við ætlum okkur að hnýta niðurstöður saman og fá betri innsýn í hvaða þættir skipta máli fyrir þessa einstaklinga."

„Við vitum að margir innflytjendur búa áfram á Íslandi eftir 65 ára aldur en hvers vegna það er, þurfum við að kanna betur,“ segir Halldór. Hann bendir á að fjölskyldutengsl, fjárhagslegt öryggi og tengsl við samfélagið gætu spilað stórt hlutverk. „Þegar fólk hefur búið hér lengi, stofnað fjölskyldu og borgað skatta þá verður spurningin hvenær hættir maður að vera innflytjandi og verður bara Íslendingur?“

Með þessari rannsókn vonast Halldór til að varpa ljósi á lífeyrismál innflytjenda og framtíðarþarfir þeirra. „Rannsóknin snýst um að tryggja að samfélagið okkar verði undirbúið fyrir fjölbreyttar þarfir allra, óháð uppruna eða bakgrunni.“

Getur undirbúið stjórnvöld fyrir fjölgun eldri innflytjenda

Halldór nefnir að niðurstöðurnar gætu hjálpað stjórnvöldum að undirbúa sig betur fyrir fjölgun eldri innflytjenda á Íslandi. „Það er stór hópur fólks sem er við ágæta heilsu og býr heima hjá sér, borgar skatta og skyldur af lífeyristekjum sem eru orðnar bara allt í lagi tekjur,“ segir hann.

Þetta gæti haft áhrif á tekjur sveitarfélaga og heilbrigðiskerfið. Rannsóknin er á byrjunarstigi en niðurstöður eru væntanlegar í ár. Halldór segist vonast til að hún verði gagnleg bæði fyrir íslenskt samfélag og stjórnvöld. „Þetta er nýtt í heimsmyndinni, að fólk hefur möguleika á að lifa og starfa í einu landi en ljúka lífeyrisárum sínum annars staðar,“ segir hann að lokum.

Höfundur greinar: Baldvin Þór Hannesson, nemi í blaðamennsku.

Halldór Sigurður Guðmundsson

„Þetta mun hafa veruleg áhrif á það hvernig við ætlum að skipuleggja velferðarþjónustu á Íslandi. Ætlum við að byggja upp þjónustu fyrir pólskumælandi fólk eða íslenskumælandi fólk? Mun þessi hópur eldast eins og Íslendingar og lifa til 86 ára aldurs eða mun hann eldast eins og samlandar sínir og lifa í skemmri tíma?" spyr Halldór S. Guðmundsson. MYND/Kristinn Ingvarsson