Rýnir í samband lyga og dulinna skoðana
Upplýsingaóreiða, falsfréttir, óheiðarleiki, lygi. Allt eru þetta orð sem flest okkar hafa rekist á á undanförnum árum, ekki síst tengslum við pólitíska umræðu en einnig COVID-19-faraldurinn á víðáttum netsins. Fullyrt er að kosningar hafi unnist fyrir tilstilli upplýsingaóreiðu, hálfsannleiks og falsfrétta og stjórnvöld víða um heim, þar á meðal hér á landi, hafa sett á fót nefndir eða jafnvel stofnarnir til þess að takast á við þessa vá sem fylgir m.a. hinu óhefta og óþrjótandi upplýsingastreymi á netinu.
Þessi nýi veruleiki kemur töluvert við sögu í rannsóknarverkefni sem Elmar Geir Unnsteinsson, vísindamaður við Háskóla Íslands og dósent við University College Dublin, fæst við ásamt stórum hópi innlends og erlends samstarfsfólks. Verkefnið nefnist „Insincerity for Fragmented Minds“ (InFraMinds) eða „Óheilindi og brotakenndur mannshugur“ á hinu ástkæra ylhýra.
„Í sem stystu máli má segja að rannsóknin snúist um sambandið á milli lyga og dulinna skoðana. Við teljum yfirleitt að lygi felist í því að segja eitthvað án þess að trúa því. En rannsóknir benda til þess að skoðanir fólks séu asni oft duldar þannig að ég gæti vel trúað einhverju án þess þó að átta mig á því,“ segir Elmar.
Hann nefnir dulda fordóma sem dæmi. „Þetta flækir strax hugmyndir okkar um lygar og óheiðarleika í máli. Ef ég veit ekki að ég hef fordóma í garð kvenna, er ég þá að ljúga þegar ég segist ekki hafa þá? Margir vilja svara neitandi og halda því fram að lygi felist í misræmi á milli þess sem er sagt og meðvitaðra skoðana. Í þessu rannsóknarverkefni færi ég rök fyrir hinu gagnstæða,“ bætir Elmar við.
Hann tiltekur tvær ástæður. „Í fyrsta lagi hlýtur að vera hægt að ljúga að sjálfum sér - sem er stundum kallað sjálfsblekking. Ef það er rétt hlýtur sum lygi að byggja á ómeðvituðum skoðunum því að sjálfsblekking virðist ekki geta virkað nema skoðunin sé að einhverju leyti dulin. Í öðru lagi benda rannsóknir til þess að við teljum okkur stundum trú um eitthvað til þess að okkur gangi betur að ljúga því að öðrum. Ef ég vil að allir haldi að ég sé gáfaður er gott að byrja á því að trúa því sjálfur, svo mér líði ekki eins og ég sé að ljúga þegar ég segi öðrum það. Meðvituð lygi eykur líkur á hugrænni ofreynslu, sem hefur ýmis ytri kennimerki (lengri pásur, augum blikkað sjaldnar), og lygari getur mögulega losað sig við þessi kennimerki með því að beita sjálfsblekkingu.“
Þverfræðilegu ljósi brugðið á viðfangsefnið
Allt snertir þetta rannsóknaráhuga Elmars sem að hans sögn tengist grundvallarspurningum um tungumál, hugsun, samskipti og merkingu. „Hvernig er mögulegt að gefa frá sér nokkur hljóð og flytja þannig - fyrirvaralaust og án mikillar áreynslu - heila hugsun úr kollinum á sér og yfir í annan? Jafnvel flóknar hugsanir og tilfinningar, sem geta borist auðveldlega á milli kynslóða og tímabila og menningarheima. Börn öðlast þennan hæfileika ótrúlega fljótt og með ótrúlega takmörkuðum upplýsingum. Málhæfileikinn er stórmerkilegt fyrirbæri sem ekki er hægt að skýra að fullu nema við sameinum aðferðir ansi margra fræðigreina“ segir Elmar.
Og það gerir hann einmitt í þessari rannsókn því að henni kemur fræðafólk úr greinum sem, eins og heimspekin, tengjast tungumáli og samskiptum með einhverjum hætti, málvísindum, sálfræði og hugfræði. „Bakgrunnur minn er í þverfræðilegum rannsóknum á máli og hugsun í heimspeki, málvísindum og sálfræði. Mér finnst núverandi umræða innan heimspekinnar vera einangruð og ekki nógu vel tengd inn í málvísindi og sálfræði til dæmis. Ég hafði áhuga á að tengja saman nýlegar rannsóknir á fjórum fyrirbærum: (i) eintali og innri röddum í sálfræði, (ii) málgjörðum og samskiptum í málspeki, (iii) duldum skoðunum í hugspeki og (iv) mekanískum og funksjónalískum skýringum í vísindaheimspeki og hugfræði. Það hefur nú þegar sýnt sig að þetta þverfræðilega sjónarhorn varpar nýju ljósi á viðfangsefnið,“ segir Elmar um kveikjuna að rannsókninni.
„Þessi rannsókn fjallar um efni sem getur verið mjög mikilvægt í samfélagslegu eða pólitísku tilliti. Við höfum í hyggju að stinga upp á leiðum til að draga úr neikvæðum áhrifum upplýsingaóreiðu á netinu en gerum okkur ekki grillur um að hafa töfralausnir. Þessar leiðir myndu byggja á kenningunni um óheiðarleika með því að sýna hvernig raunveruleg ummerki um áreiðanleika geta hjálpað fólki að skapa traust,“ segir Elmar.
Hvaða undirliggjandi ferlar gera okkur kleift að ljúga?
Flest ef ekki öll þekkjum við það að hafa logið eða notað hálfsannleik í einhverjum tilvikum. Að sögn Elmars hafa heimspekingar og ýmsir aðrir hópar fræðimanna í auknum mæli beint sjónum sínum að óheiðarleika, lygum, falsfréttum, upplýsingaóreiðu og ýmsum tengdum fyrirbærum enda hafi þau verið afar áberandi í umræðunni síðustu ár.
Undirliggjandi í rannsókninni er m.a. spurningin hvers konar hugræn geta eða kunnátta geri okkur kleift að læra að ljúga eins auðveldlega og raun ber vitni. „Við höldum því fram að til að svara þessari spurningu þurfum við að byggja á almennri kenningu um samskiptahæfileika manneskjunnar. En það eru til margar stríðandi kenningar. Í verkefninu fylgjum við nýrri aðferð sem er ætlað að uppgötva hugræna ferla með því að skoða mörg ólík líkön af sama fyrirbærinu. Hugmyndin á bak við aðferðina er að finna það sem er sameiginlegt með þessum ólíku kenningum og álykta þannig um þá ferla sem hljóta að skýra kunnáttuna sem um ræðir,“ útskýrir hann.
Hann tekur dæmi. „Vinsælasta kenningin er sennilega svokölluð Griceísk ætlunarhyggja sem segir til dæmis að það að geta meint eitthvað með því að segja eitthvað - meint að það sé rigning með því að segja 'Það er rigning' til dæmis - felist í getu til að mynda ætlanir til að hafa hugræn áhrif á aðra hugsandi veru. Skilgreiningin á þessari getu verður fljótt mun flóknari en hefur áhugaverðar afleiðingar fyrir tilgátur okkar um undirliggjandi ferla í huganum eða heilanum og þar að auki um skilning okkar á lygum eða óheiðarleika.“
Hlekkir eða myllumerki verði tákn um áreiðanleika
Alls koma 16 sérfræðingar og nemendur fráhelgar ýmsum löndum að verkefninu sem lýtur forystu Elmars og helsta samstarfsaðila hans, Daniel W. Harris, prófessors við City University of New York, Hunter College. „Enginn er eyland í vísindum,“ bendir Elmar réttilega á.
Afrakstur rannsóknastarfsins birtist m.a. í vísindagreinum og bók sem Elmar kemur að og verður gefin út á þessu ári. „Eitt gott dæmi um afrakstur rannsóknanna er að við höfum þróað og sett fram nýja kenningu um merkingafræði boðháttar og eðli skipana. Sumir vilja meina að skipanir geti ekki verið óheiðarlegar. 'Sestu!' getur ef til vill ekki verið lygi vegna þess að ég get ekki verið að segja neitt sem ég trúi eða trúi ekki eða neitt sem getur verið satt eða ósatt. Samkvæmt okkar kenningu er hins vegar hægt að setja fram óheiðarlega skipun,“ segir Elmar enn fremur.
Þegar talið berst að þýðingu rannsóknanna fyrir samfélagið bendir Elmar réttilega á að ómögulegt sé að vita fyrirfram hvaða áhrif rannsókn hefur á samfélagið í heild. „Þessi rannsókn fjallar um efni sem getur verið mjög mikilvægt í samfélagslegu eða pólitísku tilliti. Við höfum í hyggju að stinga upp á leiðum til að draga úr neikvæðum áhrifum upplýsingaóreiðu á netinu en gerum okkur ekki grillur um að hafa töfralausnir. Þessar leiðir myndu byggja á kenningunni um óheiðarleika með því að sýna hvernig raunveruleg ummerki um áreiðanleika geta hjálpað fólki að skapa traust,“ segir hann.
Þar sem netið sé allt annar miðill en fyrri ráðandi miðill, pappírinn, kalli það á alveg nýjar leiðir. „Til dæmis má ímynda sér að hlekkir og myllumerki öðlist reglubundnara hlutverk í að vera raunveruleg merki um áreiðanleika en nú er afar auðvelt að beita slíku á óheiðarlegan hátt. Til dæmis þegar hlekkur fylgir mikilvægum upplýsingum en leiðir bara á aðra frétt sem segir alveg það sama,“ bendir Elmar á.
Hann segist jafnframt aðspurður vonast til að rannsóknin hafi góð áhrif á vísindin. „Sérstaklega í ljósi þess að gerð er raunveruleg tilraun til að beina spjótum ólíkra greina að sameiginlegri spurningu án þess að láta sem svo að spurningin tilheyri einu sviði fremur en öðru. Ef einhverjir innan akademíunnar hafa enn því hlutverki að gegna að láta ólíkar vísindagreinar tala saman þá eru það heimspekingar.“
Hægt er að kynna sér InFraMinds-verkefnið nánar á vef þess.